Frakkar og Bretar hvöttu til þess á fundi utanríkisráðherra ESB-ríkjanna í Brussel mánudaginn 27. maí að aflétt yrði banni á vopnasölu til „hófsamra lýðræðissinna“ í hópi uppreisnarmanna í Sýrlandi. Bashar al-Assad Sýrlandsforseti og fylgismenn hans munu hins vegar sæta ströngum viðskiptaþvingunum áfram eftir 1. júní en þá hefði viðskiptabann ESB frá maí 2011 runnið sitt skeið miðað við fyrri ákvarðanir ESB-ríkjanna.
Bannið við vopnasölu fellur úr gildi 1. júní en að loknum ráðherrafundinum um afnám þess létu ráðherrar Frakklands og Bretlands þess getið að ekki yrði strax tekið til við að selja vopn til uppreisnarmannanna. Framvegis verður það á valdi einstakra ríkja innan ESB að ákveða hvað þau gera vegna sölu vopna til stjórnarandstæðinga í Sýrlandi.
Í febrúar á þessu ári léttu ESB-ráðherrar af hluta viðskiptabannsis á Sýrland í þágu uppreisnarmanna. Þeir fengu tæknilega aðstoð og var heimilt að kaupa hergögn sem ekki eru „banvæn“. Að öðru leyti felst bann ESB á Sýrland í því að engar sýrlenskar flutningflugvélar mega lenda á flugvöllum innan ESB. Efnt er skoðunar á vegum ESB á öllum skipum og flugvélum á leið til Sýrlands ef grunur er um að þau flytji vopn. Eignir 54 félaga og 179 einstaklinga hafa verið frystar. Bannaður er útflutningur til Sýrlands á tækjum til eftirlitis.
Utanríkisráðherrarnir ræddu stöðuna í Sýrlandi í hálfan sólarhring áður en þeir kynntu niðurstöðu sína um miðnætti í Brussel. Michael Spindelegger, utanríkisráðherra Austurríkis, skipaði sér í forystu andstæðinga Frakka og Breta í ráðherraráðinu. Hann var ómyrkur í máli um hætturnar af heimild til vopnasölu áður en fundurinn hófst. Eftir að niðurstaða fundarins var kynnt hefur ráðherrann látið eins og um sátt sé að ræða.
Augljóst er að samkomulagið innan ráðherraráðsins hefur verið knúið fram með rökum eins og þeim að „hófsamir lýðræðissinnar“ muni kaupa vopnin og það verði alls ekki tekið til við vopnasendingar strax. Þá sagði William Hague, utanríkisráðherra Breta, að Bretar mundu aðeins senda vopn til Sýrlands í samfloti með öðrum þjóðum að vel ígrunduðu máli og í samræmi við alþjóðalög. Niðurstaða ráðherranna veitti „sveigjanleika“ sem nýta mætti síðar ef staðan versnaði eða ríkisstjórn Assads neitaði að semja.
Hér skal engu spáð um framhald hinna blóðugu átaka í Sýrlandi þar sem 80 þúsund til 100 þúsund manns hafa fallið. Forseti landsins hefur fyrir löngu brotið allar brýr að baki sér með grimmd við borgara eigin lands og óskammfeilni á alþjóðavettvangi. Hann skákar þó enn í skjóli Rússa sem vilja ekki missa síðustu fótfestu sína í Mið-Austurlöndum og veðja enn á ofbeldisstjórnina í Damaskus.
Rök austurríska utanríkisráðherrans í ráðherraráði ESB voru meðal annars að afnám vopnasölubanns mundi spilla fyrir fundi um Sýrland sem utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands hafa boðað til í Genf á næstunni. Sýrlandsvandanum hefur verið kastað á milli funda undanfarin ár á meðan blóðið rennur í landinu og milljónir manna flýja þaðan. Rússar hafa hvað eftir annað beitt neitunarvaldi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í þágu Assads og samverkamanna hans.
Ákvarðanir ráðherraráðs ESB raska ekki ró Assads. Aðdragandi þeirra og umgjörð sýna að tilraunir í anda Lissabon-sáttmálans til að styrkja stöðu ESB á alþjóðavettvangi sem pólitísks afls á borð við Bandaríkin, Rússa eða Kínverja hafa engan árangur borið. Sambandið hefur enga alþjóðlega vigt og ákvarðanir þess um utanríkis- og öryggismál eru brenndar sama marki og tilraunir til að bjarga evrunni, þær eru næsta haldlitlar og teknar á tíma sem ræðst af hagsmunum innan ESB en ekki af tilliti til þess sem gerist hverju sinni.
Sameiginleg niðurstaða um afnám vopnasölubannsins var að lokum knúin fram af tilliti til hagsmuna ESB frekar en Sýrlendinga. Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, lýsti stöðunni vel þegar hann sagði: „Versta niðurstaðan yrði að okkur tækist ekki að finna innbyrðis málamiðlun. Takist það ekki getum við alveg eins lokað sjoppunni.“
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...