Sænska varnarmálaráðuneytið birti nýlega mikla skýrslu um öryggis- og varnarmál og þróun þeirra í ljósi sænskra hagsmuna. Athygli hefur einkum beinst að mati Svía á framvindu mála í Rússlandi. Hér á Evrópuvaktinni var vakin á því athygli áður en skýrslan birtist að fyrir lægju upplýsingar frá Finnlandi sem sýndu að Rússar hefðu stokkað upp herafla sinn í nágrenni Finnlands. Þar væri nú lögð áhersla á þjálfun hraðsveita sem beita mætti með skömmum fyrirvara til sóknar inn í nágrannalönd.
Í Finnlandi hefur ekki verið dregið úr vörnum eigin landamæra á sama hátt og Svíar hafa gert. Undanfarin ár hafa umræður um sænsk öryggismál snúist um flest annað en varnir eigin lands. Svíar telja meiru skipta að ráða yfir herliði sem senda megi til aðgerða á fjarlægum slóðum undir merkjum Sameinuðu þjóðanna eða jafnvel NATO. Hér er sagt „jafnvel NATO“ vegna þess að þátttaka hinna hlutlausu Svía í aðgerðum undir merkjum bandalagsins hefðu þótt óhugsandi fyrir fáeinum árum.
Til marks um breytt viðhorf Svía til NATO og raunar einnig Finna er ákvörðun stjórnvalda landanna um að verða við ósk íslenskra stjórnvalda og senda hingað orrustuflugvélar á næsta ári með Norðmönnum þegar þeir taka að sér að sinna loftrýmisgæslu frá Keflavíkurflugvelli. Til gæslunnar var gripið undir merkjum NATO á árinu 2007 eftir að Bandaríkjamenn hurfu á brott frá Keflavíkurstöðinni.
Í sænsku skýrslunni er sérstakur kafli um Ísland sem hefur birst hér á síðunni í endursögn og lauslegri þýðingu. Hið merkilega við þennan kafla er að Svíar fjalla um Ísland á sama hátt og gert hefði verið á tíma kalda stríðsins. Gildi Íslands fyrir NATO sé að þaðan megi halda úti eftirliti með umferð í lofti og sjó á svæði sem nái frá Grænlandi, um Ísland, til Færeyja og Skotlands. Frá árinu 2006 hafi langdrægar, rússneskar sprengiþotur að nýju tekið til við að fljúga öðru hverju á takmörkuðum svæðum á Norður-Íshafi og Norður-Atlantshafi og þar sjáist einnig fleiri rússnesk herskip en áður.
Þessi lýsing er sambærileg við það sem menn sögðu um Ísland á síðari hluta sjöunda áratugarins þegar fyrstu fréttir tóku að birtast um flotasiglingar og herflug Rússa í nágrenni Íslands og NATO birti kort til skýringar á hvernig þessum ferðum væri háttað. Eftir hrun Sovétríkjanna fyrir rúmum 20 árum töldu menn að staðan á N-Atlantshafi mundi breytast til frambúðar og ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að loka Keflavíkurstöðinni var reist á slíkum ranghugmyndum.
Nú setja menn breytingar á Norður-Atlantshafi ekki í samband við kapphlaup milli austurs og vesturs heldur kapphlaup um að skapa sér aðstöðu á norðurslóðum vegna auðlinda og siglinga við loftslagsbreytingar og bráðnun íss.
Sænsku sérfræðingarnir segja að nálægð Íslands við norðurskautið, gildi fiskveiða og siglinga leiði til þess að breytingar á loftslagi skipti miklu í umræðum Íslendinga um öryggismál. Markmiðið sé að stuðla að því að lítil spenna ríki milli þjóða á norðurskautssvæðinu og að Norðurskautsráðið þróist sem lifandi vettvangur fyrir friðsamlegt samstarf milli aðildarríkjanna. Íslendingar hafi innan NATO lagt áherslu á að bandalagið taki betur af skarið um hlut sinn á Norður-Atlantshafi og í Norður-Íshafi.
Það er rétt mat að íslensk stjórnvöld hljóta að vilja lágspennu á norðurslóðum og að þar verði beitt borgaralegum úrræðum til að tryggja öryggi sjófarenda og við vinnslu náttúruauðæfa. Verði það gert hafa Íslendingar burði til þátttöku í samstarfi norðurslóðaþjóða og þeir eiga að bjóða aðstöðu á Keflavíkurflugvelli undir fjölþjóðlega starfsemi í þágu leitar og björgunar. Þá fellur einnig að íslenskum hagsmunum að NATO minni á tilvist sína á Norður-Atlantshafi á skýrari og markvissari hátt en gert hefur verið undanfarin ár.
Áform ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur um að kynna tillögur um þjóðaröryggisstefnu Íslands runnu út í sandinn eins og svo margt annað. Í sáttmála ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er ekki minnst einu orði á öryggis- og varnarmál eða aðildina að NATO. Andvaraleysið sem felst í því er vonandi ekki til marks um að ríkisstjórnin átti sig ekki á nauðsyn lifandi umræðna um þennan mikilvæga þátt sem lýtur að grunnskyldum ríkisvaldsins gagnvart borgurunum.
Hinn greinargóða sænska skýrsla er ríkisstjórn Íslands áminning um að öryggis- og varnarmál eru enn brýnt úrlausnarefni og aðstæður í okkar heimshluta þróast nú á þann veg að með öllu er óverjandi að þessum málaflokki sé ekki sinnt á verðugan hátt innan íslenska stjórnkerfisins og á stjórnmálavettvangi.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...