EFTA-dómstóllinn gaf fimmtudaginn 22. júlí ráðgefandi álit um spurningar frá Hæstarétti Íslands um rétt EES-borgara og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Málið spratt af synjun íslenskra stjórnvalda á norskum vítisengli um landgöngu á Íslandi. Ákvörðun um synjun um landgöngu var einkum reist á „opnu hættumati“ ríkislögreglustjóra sem varðaði ætlað hlutverk Norðmannsins í tengslum við fyrirhugaða inngöngu íslensks vélhjólaklúbbs í alþjóðleg samtök sem tengsl hefðu við skipulagða glæpastarfsemi.
EFTA-dómstóllinn taldi að EES-ríki hefðu heimild til að synja ríkisborgara annars EES-ríkis um landgöngu með skírskotun til allsherjarreglu og/eða almannaöryggis á grundvelli hættumats eins og sér. Slíkt hættumat þyrfti þá hafa að geyma mat á því hvert hlutverk viðkomandi einstaklings væri við inngönguferli að samtökum sem einstaklingurinn væri aðili að og ályktun um að þau samtök sem einstaklingurinn tilheyrði hefðu tengsl við skipulagða glæpastarfsemi og að sýnt væri að þar sem slík samtök hefðu skotið rótum hefði aukin og skipulögð glæpastarfsemi fylgt í kjölfarið. Þá var talið að áskilið væri að hættumat yrði einungis reist á framferði hlutaðeigandi einstaklings og að framferði einstaklings yrði að fela í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn við einhverja af grundvallarhagsmunum samfélagsins og að gæta yrði meðalhófs við takmarkanir ferðafrelsis. Það væri á valdi landsdómstóla að leggja mat á hvort þessi skilyrði væru uppfyllt með hliðsjón af þeim staðreyndum og málatilbúnaði aðila sem þýðingu hefðu hverju sinni.
Þá taldi dómstóllinn að EES-ríki yrði ekki skyldað til að lýsa yfir ólögmæti samtaka og aðildar að þeim í því skyni að synja ríkisborgara annars EES-ríkis um landgöngu að því gefnu að slík aðgerð teldist viðeigandi undir þeim kringumstæðum sem fyrir hendi væru. EES-ríki yrði á hinn bóginn að hafa afmarkað afstöðu sína til starfsemi þeirra samtaka sem um ræddi með skýrum hætti og yrði að hafa gripið til stjórnvaldsathafna í því skyni að vinna gegn starfseminni, í þeim tilvikum þegar hún hefði verið álitin ógn við allsherjarreglu og/eða almannaöryggi.
Að endingu taldi dómstóllinn að innlend stjórnvöld yrðu að tryggja að nægileg sönnunargögn stæðu til þess að sýnt væri að tiltekinn einstaklingur væri líklegur til að viðhafa háttsemi sem teldist raunveruleg, yfirvofandi og nægilega alvarleg ógn við einhverja af grundvallarhagsmunum samfélagsins. Það væri á forræði landsdómstóla, með fyrirvara um að gætt væri meginreglna um jafnræði við málsmeðferð og skilvirkni, að skera úr um hvort svo væri.
Þetta álit EFTA-dómstólsins er mikilvæg staðfesting á að íslensk stjórnvöld geta hindrað komu einstaklinga hingað til lands þrátt fyrir EES-réttindi þeirra til frjálsrar farar um EES-ríkin. Þetta gildir afdráttarlaust um félaga í skipulögðum glæpasamtökum á borð við Vítisengla en einnig á þetta við um einstaklinga sem taldir eru ógna „grundvallarhagsmunum samfélagsins“.
Með aðild að Schengen-samstarfinu hafa íslensk yfirvöld aðgang að miklum gagnagrunnum um einstaklinga sem gerst hafa lögbrjótar í aðildarríkjum Schengen-samstarfsins og víðar. Þessa grunna er unnt að nýta við mat á einstaklingum sem koma til landsins. Þótt um EES-borgara sé að ræða er unnt að snúa þeim frá landinu að uppfylltum þeim skilyrðum sem getið er í áliti EFTA-dómstólsins.
Í því felst mikil forvörn sé lögreglu sem gætir landamæravörslu á Íslandi gert kleift að nýta allar leiðir sem hún hefur til þessarar vörslu. Þar er um að ræða mun meiri vernd gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hættulegum erlendum einstaklingum en úrsögn úr Schengen-samstarfinu.
Árvekni lögreglunnar gegn Vítisenglum hefur borið árangur, áfram ber að halda þeim frá landinu og efla lögregluna til halda öðrum óvinum grundvallarhagsmuna samfélagsins sem lengst í burtu.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...