Sunnudagurinn 28. febrúar 2021

Stækkunar­deild ESB hættir forgangsröðun við gerð íslenskra fjárlaga


Björn Bjarnason
13. ágúst 2013 klukkan 09:24

Umræðurnar um IPA-styrkina sem stækkunardeild ESB veitir hafa farið út um víðan völl eins og við var að búast. Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur flutt einhliða fréttir um málið þegar hún lýsir því frá eigin sjónarhóli eins og þessi orð á ruv.is mánudaginn 12. ágúst sýna:

„Vinna við gerð nýrra fjárlaga er langt komin. Nú liggur ljóst fyrir að íslenska ríkið mun ekki fá IPA-styrki frá Evrópusambandinu sem nema tæpum tveimur milljörðum króna á ári. Markmið styrkjanna er að aðstoða umsóknarríki við að undirbúa þátttöku í því samstarfi sem fólgið er í aðild að Evrópusambandinu. Fjármálaeftirlitið, Matís, Hagstofan, tollstjóri og atvinnuvegaráðuneytið eru meðal þeirra stofnanna sem þegið hafa hundruð milljóna króna í formi IPA styrkja sem þau fá nú ekki lengur.“

Áður en lengra er haldið skal vakin athygli á orðalaginu um markmið styrkjanna „að aðstoða umsóknarríki við að undirbúa þátttöku í því samstarfi sem fólgið er í aðild að Evrópusambandinu“, þarna hefði nægt að segja „að laga umsóknarríki að aðild“ að ESB. Ekki má nefna bannorðið „aðlögun“ þótt þessir styrkir snúist allir um hana.

Eitt er orðalag fréttastofunnar annað efnistökin. Hlynur J. Arndal rekstrarhagfræðingur víkur að þeim í grein í Morgunblaðinu þriðjudaginn 13. ágúst þegar hann vekur athygli á að fréttatstofa ríkisútvarpsins láti þess jafnan ógetið að styrkveiting ESB er háð því að íslenskir skattgreiðendur leggi fram fé á móti ESB. Hlynur undrast að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki gert meira úr þessum þætti málsins. Morgunblaðið hafi þó haft eftir tollstjóra „að á móti IPA styrk að fjárhæð 945 millj. til að endursmíða tollkerfið svo það passi við ESB, yrðu íslenskir skattgreiðendur að borga 1.150 millj.kr“. Hlynur segir réttilega:

„Sannleikurinn er sá að á móti IPA framlögum þurfa Íslendingar að borga verulegar fjárhæðir og þessu þurfa fjölmiðlar að koma á framfæri ef þeir ætla að standa undir nafni. Með öðrum orðum leiða þessi framlög íslenskra skattgreiðenda til þess að minna fé verður aflögu í brýnni verkefni. Niðurfelling IPA styrkja er þess vegna himnasending fyrir fjárvana ríkissjóð.“

Forgangsröðun við fjárlagagerð færðist í hendur hinna ólíklegustu manna eftir að ESB-viðræðurnar hófust. Á vefsíðunni mbl.is mátti 3. nóvember 2012 mátti til dæmis kynnast því mati Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra og formanns ESB-viðræðunefndarinnar, að íslensku tollkerfin væru „komin að fótum fram“ og þau þyrfti að endurnýja hvort sem við gerðumst aðilar að Evrópusambandin eða ekki. Raunar hefði embætti tollstjóra í nokkur ár óskað eftir fjárveitingu til að fara í þessa vinnu.

Í tilefni af þessari frétt á mbl.is sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, núverandi iðnaðarráðherra:

„Já, einmitt. Embætti tollstjóra hefur óskað eftir fjárveitingu í nokkur ár vegna þessa kerfis en Alþingi, fjárveitingavaldið, hefur forgangsraðað fjármunum í önnur verkefni. Með allri virðingu fyrir þessum kerfum og því góða starfi sem tollstjórinn og hans fólk vinnur, þá myndi ég á þessum tímapunkti halda áfram að forgangsraða í annað og setja þessa tvo milljarða t.d. í menntun, heilbrigðisþjónustu og bætta löggæslu.“

Halda ber þessari hlið IPA-styrkjamálsins til haga þegar ESB-aðildarsinnar ganga fram með stóryrðum og hrakspám vegna þess að stækkunardeild ESB hefur ákveðið að hætta að krefjast forgangs aðlögunarverkefna við gerð íslenskra fjárlaga.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS