Þriðjudagurinn 26. janúar 2021

Sýrland og hin siðferðilegu álitamál


Styrmir Gunnarsson
30. ágúst 2013 klukkan 07:45

Ætli Bretar séu nú endanlega búnir að missa áhugann á hernaðarlegum afskiptum af málefnum annarra þjóða? Þetta er áleitin spurning í kjölfar atkvæðagreiðslunnar í brezka þinginu í gærkvöldi, sem Cameron, forsætisráðherra, tapaði vegna uppreisnar í eigin flokki. Kannski er ekki réttmætt að bera spurninguna fram á þennan veg. Atkvæðagreiðslan snerist um það, hvort Bretar ættu að taka þátt í aðgerðum í Sýrlandi vegna ætlaðra brota sýrlenzkra stjórnvalda á Genfarsáttmála frá árinu 1925, sem bannar að beitt sé efnavopnum í styrjöldum.

Kannski má segja að í grunninn hafi þessi atkvæðagreiðsla snúizt um tvö siðferðileg álitamál. Í fyrsta lagi: eigum við að sitja hjá eða skipta okkur af, ef við verðum vitni að heimilisofbeldi? Eigum við að láta annan aðilann komast upp með að beita hinn ofbeldi og jafnvel drepa hann? Áttu aðrar þjóðir að láta fólkið á Balkanskaga í friði við þá iðju að drepa hvert annað eða áttu aðrar þjóðir að skipta sér af?

Það virðist ljóst að efnavopnum hefur verið beitt í Sýrlandi og almennir borgarar drepnir með þeim hætti. Ágreiningurinn stendur ekki um það heldur hitt hverjir stóðu fyrir því. Kemur það öðrum þjóðum við? Eiga þær kannski að láta Sýrlendinga í friði við að drepa hverjir aðra, hvernig svo sem þeir gera það? Og gleymum því ekki að Sýrlendingar framleiða vopnin ekki sjálfir. Það eru aðrar þjóðir, sem græða á því að selja báðum fylkingum vopn, svo að þær geti haldið áfram að drepa.

Og þá er komið að hinu siðferðilega álitamálinu: Er einhver munur á því hvernig fólk er drepið? Er ljótara að drepa fólk á þennan veg en hinn? Nazistar drápu fólk í gasklefum. Kommúnistar í Sovétríkjunum sveltu 10 milljónir í hel í Úkraínu. Á Balkanskaga var konum fyrst nauðgað í hópnauðgunum og svo drepnar. Þetta var allt glæpsamlegt athæfi. En er ein aðferðin meiri glæpur en önnur?

Nú er ljóst að stjórnarherir í Sýrlandi hafa drepið fólk, sitt eigið fólk, í stórum stíl á síðustu árum. Það hafa uppreisnarmenn í landinu líka gert. Vesturlandaþjóðir hafa ekki viljað hafa afskipti af þeim manndrápum en stjórnvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum virðast telja að þegar fólk er drepið með efnavopnum sé það verra en að drepa fólk með byssukúlum.

Það er búið að drepa margt fólk með byssukúlum á okkar tímum og fólk ypptir öxlum. En þegar fólk var drepið með sveðjum í Rúanda ofbauð „alþjóðasamfélaginu“. Af hverju er þessi munur gerður á drápsaðferðum?

Brertar eru fjórða mesta herveldi heims. Þeir eru með um 200 þúsund manns undir vopnum og verja til þess um 2,5% af vergri landsframleiðslu sinni. Þeir eru enn með her á Gíbraltar, Falklandseyjum og á Kýpur og reyndar fleiri smáeyjum í fjarlægum heimsálfum. Af hverju? Hvað koma þessi landsvæði þeim við?

Uppreisnin í brezka þinginu endurspeglar þjóðarviljann, eins og hann birtist í skoðanakönnunum. Kannski eru Bretar loksins búnir að fá nóg. Evrópuríkin sem heild skipta ekki lengur máli í hernaðarlegu tilliti. Þau hafa ekki hernaðarlegt afl til afskipta eins og kom í ljós á Balkanskaga, sennilega vegna þess að fólkið í þessum löndum vill það ekki.

Bandaríkjamenn eru einir eftir. Rússar sitja á hliðarlínu og bíða eftir tækifæri til að fiska í gruggugu vatni. Sameinuðu þjóðirnar skipta litlu máli vegna þess að nokkur ríki hafa þar neitunarvald. Það ríkir ekki lýðræði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Í Bandaríkjunum eru vaxandi efasemdir um að sú þjóð eigi að skipta sér af heimilisofbeldi annarra.

Er niðurstaðan þá sú, að við eigum að horfa upp á fjöldamorð um allan heim ef óðum einræðisherrum þóknast að drepa fólk?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS