Laugardagurinn 27. febrúar 2021

Spennandi umskipti í norskum stjórnmálum


Björn Bjarnason
10. september 2013 klukkan 10:14

Niðurstaða stórþingskosninganna er að Norðmenn hafa eignast bláasta stórþing í nútímasögu sinni segir Harald Stanghelle, stjórnmálaritstjóri Aftenposten, í upphafi umsagnar sinnar um úrslit kosninganna sem kynnt voru að kvöldi mánudags 9. september. Hægriflokknum hefur sjaldan vegnað betur og Framfaraflokkurinn fékk meira fylgi en skoðanakannanir sýndu og hlaut þriðja mesta fylgi í sögu sinni. Tvær konur Erna Solberg (H) og Siv Jensen (Frf) hefja næstu daga formlegar viðræður um stjórnarsamstarf.

Spurningin er hvort þær mynda tveggja flokka minnihlutastjórn eða hvort um meirihlutastjórn borgaraflokkanna verður að ræða með þátttöku Venstre og Kristilega þjóðarflokksins. Samtals hafa borgaraflokkarnir 96 atkvæði í stórþinginu en vinstriflokkarnir 72.

Verkmannaflokkurinn hélt stöðu sinni sem stærsti flokkur landsins en úrslitin voru hin næstverstu í sögu hans. Mikil spenna var um kosninganóttina vegna framtíðar Sósíalíska vinstriflokksins (SV), hvort hann kæmist yfir 4% þröskuldinn og inn á þing. Það lá ljóst fyrir þegar lokatölur tóku að berast frá Osló en flokkurinn hlaut aðeins 4,1% atkvæða. Jens Stoltenberg, fráfarandi forsætisráðherra, leggur hinn 14. október fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2014 og biðst eftir það lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Spurningin er ekki hvort Erna Solberg verði næsti forsætisráðherra. Hún verður það með stuðningi borgaraflokkanna fjögurra. Þeir hétu kjósendum stjórnarskiptum fengju þeir til þess stuðning. Þeir hafa nú fengið hann og það yrðu örgustu svik á kosningaloforðum stæðu þeir ekki að baki Solberg. Spurningin er hvort hún leiðir minnihluta- eða meirihlutastjórn.

Hvorki niðurstaða kosninganna né vilji Hægriflokksins er hindrun fyrir aðild Framfaraflokksins að ríkisstjórn. Siv Jensen hefur haldið á spöðunum á annan hátt en Carl I. Hagen, forveri hennar sem formaður Framfaraflokksins. Hann er maður úrslitakosta hún er kona úrlausna. Hagen og fylgismenn hans í flokknum vilja pólitískan skæruhernað Siv Jensen hvetur til raunsæis og segir samninga snúast um að ná sínu fram með því koma til móts við óskir annarra.

Afstaða annarra flokka til Framfaraflokksins hefur einkennst af útilokunarstefnu, flokkurinn sé ekki stjórnhæfur og halda beri fulltrúum hans frá ráðherraembættum. Þetta sjónarmið má sín mikils innan Venstre og Kristilega þjóðarflokksins. Talsmenn þessara flokka hafa lýst óbeit sinni á að setjast í ríkisstjórn með ráðherrum frá Framfaraflokknum. Flokkarnir hafa hins vegar hvorki styrk né pólitíska stöðu til að halda flokki sem nýtur stuðnings 16,3% kjósenda frá ríkisstjórn takist samningar milli Ernu Solberg og Siv Jensen. Leiðtogar Venstre og Kristilega þjóðarflokksins verða því að gera upp við sig hvort þeir telji sig hafa meiri áhrif utan eða innan ríkisstjórnar.

Stjórnmálaritstjóri Aftenposten telur líklegt að flokkarnir tveir skipi sér utan ríkisstjórnar en leggi áherslu á að stjórnin setji mál sem eru táknræn fyrir stefnu þeirra í sáttmála sinn svo að þeir geti stutt hana á stórþinginu.

Borgaraflokkarnir deila um margt, til dæmis stefnuna í útlendingamálum. Framfaraflokkurinn vill strangari reglur en Kristilegi þjóðarflokkurinn vill auðvelda fólki að koma til Noregs einkum börnum. Framfaraflokkurinn vill að meiru af olíutekjunum sé hleypt inn í norska hagkerfið en hinir borgaraflokkarnir þrír vilja standa vörð um olíusjóðinn. Flokkarnir fjórir eru allir sammála um að lækka beri skatta þá greinir hins vegar á um leiðir. Engum dettur í hug að setja aðild að ESB á dagskrá en staðan innan evrópska efnahagssvæðisins og Schengen-samstarfsins verður hins vegar rædd.

Eftir átta ára vinstristjórn í Noregi verða nú spennandi umskipti.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS