Fimmtudagurinn 4. mars 2021

ESB-aðildarsinnar hafa gjörtapað þessari lotu


Björn Bjarnason
17. október 2013 klukkan 10:41

Árleg skýrsla framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um stækkunarmál þess var birt miðvikudaginn 16. október. Þar er færri blaðsíðum varið í umfjöllun um Ísland en á undanförnum árum enda er framkvæmdastjórninni ljóst að viðræðunum við Íslendinga er lokið og að þráðurinn verður ekki tekinn upp að nýju fyrr en íslenska þjóðin hefur samþykkt það í atkvæðagreiðslu.

Ný skoðanakönnun sem Maskína framkvæmdi í fyrri hluta október sýnir að 67,1% vilja ekki hefja viðræður við ESB að nýju án þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá kemur fram að næstum 51% Íslendinga er andvígt því að Ísland gangi í Evrópusambandið en rúmlega 28% eru því hlynnt.

Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ákvað að sækja um aðild að ESB sumarið 2009 blésu stuðningsmenn ESB-aðildar á þá hugmynd að leitað yrði álits þjóðarinnar og hún spurð hvort sæki ætti um aðildina.

Hér skulu ekki endurtekin hin yfirlætisfullu ummæli sem aðildarsinnar og álitsgjafar í þeirra liði létu falla um að þjóðin yrði spurð um þetta mál áður en alþingi tæki ákvörðun sína. Hinir háværustu í liði gagnrýnenda töldu for-þjóðaratkvæðagreiðslu hlægilega tímasóun, þjóðin fengi hvort sem eftir um það bil ár og örugglega innan 18 mánaða tækifæri til að greiða atkvæði um niðurstöðu viðræðnanna við ESB og þar með um hvort hún gerðist aðili að ESB eða ekki.

Ekkert af fullyrðingum ESB-aðildarsinna um tímamörk í aðildarviðræðunum hefur staðist. Þegar ný ríkisstjórn ákvað að loknum kosningum 27. apríl 2013 að gera hlé á viðræðunum höfðu viðræður um viðkvæmustu ágreiningsmál Íslendinga og ESB ekki hafist. Af hálfu ESB-aðildarsinna var því haldið fram að tafir á viðræðum um þessa þætti mætti rekja til Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í krafti þessara fullyrðinga var hann rekinn úr ríkisstjórn Jóhönnu 31. desember 2011. Steingrímur J. Sigfússon tók við ráðherraembættinu, hélt til Brussel í janúar 2012 og lofaði ESB-mönnum að breyta betur en Jón.

Það reyndist augljós fyrirsláttur að Jón Bjarnason tefði ESB-viðræðurnar. Brusselmenn áttuðu sig á hinum mikla skoðanamun á milli sín og íslenskra viðhorfa og vildu lengri tíma til að búa í haginn fyrir málstað sinn með áróðri á Íslandi og IPA-aðlögunarstyrkjum. Þeir trúðu því ekki frekar en Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og viðræðulið hans að ESB-málstaðnum yrði afdráttarlaust hafnað í þingkosningum.

ESB-menn óttast ekkert jafnmikið og þjóðaratkvæðagreiðslur. Fyrst þegar ný ríkisstjórn á Íslandi kynnti fyrir þeim að hlé yrði á ESB-viðræðunum virtust Brusselmenn ekki átta sig á að viðræður hæfust ekki að nýju án samþykkis íslensku þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. Í júní 2013 settu þeir íslensku ríkisstjórninni tímamörk, hún yrði að láta þá vita sem fyrst hvað yrði um framhald viðræðna. Stækkunarstjóri ESB nefndi engin slík tímamörk þegar hann ræddi um samskiptin við Íslendinga miðvikudaginn 16. október. Hann viðurkenndi að viðræðunum væri hætt og ESB gæti tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið þegar Íslendingar vildu.

Þannig stendur ESB-málið núna. Viðræðum við ESB er hætt þar til þjóðin ákveður að hefja þær að nýju en það er alþingis að leggja fram tillögu um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Tvennt mikilvægt hefur áunnist eftir þingkosningar: Hlé á viðræðunum og viðurkenning á réttmæti þess að ekki verði farið af stað að nýju án þjóðaratkvæðagreiðslu.

ESB-aðildarsinnar hafa gjörtapað þessari lotu um ESB-málið.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS