Fimmtudagurinn 25. febrúar 2021

Meginstraumar í Evrópu eru ekki í átt til sameiningar heldur sundrungar


Styrmir Gunnarsson
11. nóvember 2013 klukkan 11:26

Fyrir um aldarfjórðungi kom út bók í Bandaríkjunum, sem nefndist Megatrend, sem kannski mætti þýða Meginstraumar. Í bókinni leitaðist höfundur við að skyggnast undir yfirborðið og kanna hvaða meginstraumar væruá ferð í þjóðardjúpinu. Aðferðafræði hans var sú að lesa litlar fréttir í dagblöðum hér og þar og reyna að lesa út úr þeim hvað líklegt væri að mundi gerast næstu ár og áratugi á eftir. Eins og gengur og gerist um slíka spádóma hefur sumt gengið eftir og annað ekki.

Ef svipuð aðferðafræði er notuð til að lesa út úr fréttum fjölmiðla í Evrópu hvaða straumar og stefnur séu að brjótast fram úr undirdjúpum þjóðahafsins þar er tvennt sem sérstaka athygli vekur.

Í fyrsta lagi er ljóst að flokkar á hægri kanti, sem eru skilgreindir sem „pópúlískir“, þ.e. reyni með einhverjum hætti að höfða til grasrótarinnar í samfélögunum eru margir hverjir að ná fótfestu.

Í Noregi er Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins, sem lengi var talinn óhæfur til að eiga fulltrúa í ríkisstjórn orðin fjármálaráðherra. Í Danmörku er Danski Þjóðarflokkurinn, sem Pia Kjærsgaard leiddi framan af að verða einn sterkasti flokkurinn á hægri kantinum. Í Finnlandi halda Sannir Finnar nokkurn veginn stöðu sinni. En augljóst er að Svíþjóðardemókratar eru annars konar flokkur, sem líkist meira Gullinni Dögun í Grikklandi, sem skilgreindur er sem nýnazistaflokkur enda hefur Svíþjóðardemókrötum ekki tekizt að ná fótfestu að ráði.

Í Frakklandi er Þjóðfylking Marine Le Pen á mikilli siglingu. Í gær fóru fram svæðisbundnar kosningar í Genf í Sviss, þar sem tiltölulega nýr flokkur, sem berst fyrir því að Genf sé fyrir Genfarbúa náði að brjótast í gegn. Ukip í Bretlandi hefur fengið byr í seglin síðustu ár.

Framgangur þessara pópúlísku hægri flokka er vísbending um óánægju kjósenda með þá hefðbundnu flokka, sem fyrir eru.

Í öðru lagi er ekki hægt að horfa fram hjá fréttum um óvinsamleg orðaskipti þjóða í milli, ef svo má að orði komast. Í Financial Times er þessa dagana sagt frá ágreiningi innan Seðlabanka Evrópu um vaxtamál, sem sýnist vera að beinast að Draghi, aðalbankastjóra bankans af því að hann er Ítalí og hann vændur um að hafa hagsmuni Ítala í fyrirrúmi.

Bæði í Grikklandi og á Ítalíu er ítrekað ráðist að Þjóðverjum fyrir fortíð þeirra og í sumum tilvikum með ósmekklegum hætti, eins og þegar ásýnd Adolf Hitlers birtist á andliti Angelu Merkel. Og þegar fyrrverandi kanslari Þýzkalands, Gerhard Schröder talar um að Bretland sé sérstakt „vandamál“ fyrir Evrópu getur verið að hrollur fari um marga. Schröder sagði á fundi í Bregenz í Austurríki: „Vandamál Evrópu hefur nafn og það er Bretland. Svo lengi sem Bretar þráast við gerist ekkert.“

Ef notuð er aðferðafræði höfundar Megatrends eru slíkar fréttir vísbending um að Evrópa stefni ekki í átt til sameiningar heldur sundrungar.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS