Fimmtudagurinn 4. mars 2021

Staðleysur ESB-sinna um gjaldeyris­höft


Björn Bjarnason
12. nóvember 2013 klukkan 11:00

Margir íslenskir athafnamenn telja að staða fyrirtækja þeirra muni snarbatna, rekstrarumhverfi verða þeim þægilegra og störf þeirra léttast með aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þeir líta á aðildina sem leið til að losna úr gjaldeyrishöftum. Á vefsíðunni Eyjunni er þriðjudaginn 12. nóvember haft er Jóni Sigurðssyni, forstjóra Össurar, að sífellt erfiðara verði að losna við gjaldeyrishöftin og hann segir orðrétt:

„Nýja ríkisstjórnin hefur gengið frá samningaborðinu í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þannig losað sig við einu langtímaáætlunina sem var til staðar, án þess að skipta henni út fyrir nokkuð annað. Vandamálið við krónuna er að það hefur enginn trú á henni.“

Nýlega var sagt frá því að hlutabréf í Össuri hefðu hækkað um 22% frá því í maí 2012. Þau eru skráð í kauphöllinni í Kaupmannahöfn sem samþykkti skráningu þeirra í september 2009 skömmu eftir að alþingi ákvað að senda umsókn um aðild að ESB til Brussel. Á þeim tíma var látið eins og aðildarumsóknin ein mundi breyta öllu fyrir íslenskt efnahagslíf en hún breytti hins vegar ekki áformum stjórnenda Össurar um að flytja fyrirtækið til skráningar erlendis. Árið 2011 nýttu yfirmenn Kauphallar Íslands sérstakri lagagrein til þess að þvinga fram samhliðaskráningu Össurar hjá sér.

Því ber að fagna að Össuri hefur vegnað vel og verðmæti hlutabréfa í fyrirtækinu hafi nú hækkað um tæpan fjórðung á 18 mánuðum. Að hætti góðra stjórnenda vill Jón Sigurðsson að sjálfsögðu ná betri árangri. Það er hins vegar ástæða til að setja stórt spurningamerki við þá fullyrðingu hans að aðild að ESB sé forsenda þess að gjaldeyrishöftin séu afnumin og þjóðinni mótuð skynsamleg efnahagsstefna til langs tíma.

Jón Sigurðsson getur ekki rökstutt fullyrðingu sína vísan til velgengni á evru-svæðinu. Ekkert þriggja ríkjanna sem standa næst íslenska ríkinu í ESB: Bretland, Danmörk eða Svíþjóð telja upptöku evru bjargráð í efnahagsmálum fyrir sig. Ógöngurnar við stjórn annars stærsta hagkerfis evru-svæðisins, Frakklands, eru ekki góður fyrirboði um það sem er í vændum.

Hér hefur hvað eftir annað verið lýst þeirri skoðun að fyrst verði að finna íslenska leið úr gjaldeyrishöftum áður en til þess komi að íslenska ríkið sé talið gjaldgengt í ESB. Það hafi verið eitt af meginskilyrðum af hálfu ESB í aðlögunarviðræðunum við Íslendinga. Að málum væri háttað á þennan veg hlaut aldrei opinbera viðurkenningu íslensku viðræðuaðilanna. Þar réðu hagsmunir Samfylkingarinnar sem lýsti ESB-aðildinni sem töfraleið úr höftunum.

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hefur gefið út dagbók um líf sitt og starf á árinu 2012. Í dagbókarfærslu frá þriðjudeginum 7. febrúar 2012 segir hann:

„Á fundi með Evróputeyminu [í utanríkisráðuneytinu] greina Stefán Haukur Jóhannesson og Martin Eyjólfsson frá því að niðurstaðan af heimsókn fjármálasérfræðinga frá Brussel sé að stærsti þröskuldurinn við aðild Íslands að ESB sé afnám gjaldeyrishafta.

Frá 2009 hef ég af og til átt samtöl við háttsetta menn hjá ESB um samstarf til að aflétta höftunum. Óformlega hafa þeir nefnt við mig háar upphæðir sem sambandið væri hugsanlega til í að nota í slaginn við höftin í aðildarferlinu. Ég legg áherslu á við mína menn að samningsafstöðu í gjaldmiðlamálum verði hagað þannig að engum dyrum sé lokað í þessu sambandi.“

Þetta skrifaði Össur Skarphéðinsson þegar hann enn hélt að samningum Íslands og ESB yrði lokið fyrir áramót 2012 eða fyrir kosningar í apríl 2013. Hann taldi sig hafa einhver ESB-loforð um fjárstuðning til að losa um gjaldeyrishöftin þótt embættismenn ráðuneytisins segðu annað. Allt var þetta óskhyggja hjá Össuri. Hann skildi við ESB-málið óleyst og hlaut hraksmánarlega útreið í kosningunum 2013.

Staðreynd málsins er þessi: Afnám gjaldeyrishaftanna ryður á brott „stærsta þröskuldinum“ á leið Íslands inn í ESB. Afnámið er forsenda þess að Ísland sé gjaldgengt inn í ESB. Hin áleitna spurning er þessi: Hvers vegna neita talsmenn ESB-aðildar í hópi íslenskra athafnamanna að viðurkenna þessa staðreynd? Stendur þeim í raun á sama um hvað er rétt eða rangt? Er höfuðmarkmiðið að ná sér niðri á raunsæismönnum þegar aðildin að ESB er annars vegar?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS