Sunnudagurinn 7. mars 2021

Skilgreina verður ábyrgð og verkefni í norðurslóðamálum


Björn Bjarnason
21. janúar 2014 klukkan 07:57

Í síðustu viku [þriðjudaginn 14. janúar] flutti Natalia Loukacheva, fyrsti Nansen-prófessorinn við Háskólann á Akureyri, opinberan fyrirlestur í Norræna húsinu um stöðu mála á norðurslóðum. Hún reisti skoðanir sínar meðal annars á ferðum sem hún hafði farið til rannsókna fyrir norðan Rússland annars vegar og Kanada hins vegar. Hún benti á að ekkert væri enn fast í hendi varðandi þróun mála á norðurslóðum hvorki varðandi siglingar né nýtingu auðlinda. Aðstæður væru aðrar fyrir norðan Rússland en Kanada og með strönd Rússlands milli Kyrrahafs og Atlantshafs mætti vænta siglinga fleiri skipa en á norðvesturleiðinni við Kanada – alls hefði 71 skip siglt norðausturleiðina við Rússland á síðasta ári.

Meðal áheyrenda á fyrirlestrinum var Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem samdi um það á árið 2011 við Jonas Gahr Støre, þáverandi utanríkisráðherra Noregs, að stofnað yrði embætti Nansen-prófessors á Íslandi. Össur spurði Nataliu Loukachevu hvert hún teldi að Íslendingar ættu einkum að beina kröftum sínum við hinar breyttu aðstæður og það sem hún teldi í vændum. Stutta svar prófessorsins var: leit og björgun á hafinu, með öðrum orðum að því að tryggja sem best öryggi sjófarenda.

Að því hefur verið unnið undanfarin ár að búa Landhelgisgæslu Íslands undir þetta hlutverk með smíði ný varðskips til björgunar- og öryggisstarfa og nýrrar flugvélar til leitar. Þetta verkefni var unnið á vegum dómsmálaráðuneytisins á sínum tíma og rökin að baki kaupum á þessum tækjum voru meðal annars breytingarnar á norðurslóðum. Vegna tilvistar þeirra eru Íslendingar virkir þátttakendur í hinu mikilvæga starfi sem óhjákvæmilegt er að sé unnið til að skapa þeim öruggt umhverfi sem vilja starfa á norðurslóðum.

Á síðasta kjörtímabili myndaðist víðtæk pólitísk samstaða á alþingi um mótun norðurslóðastefnu. Þar hafði utanríkisráðuneytið eðlilega frumkvæði vegna þess að stefnan tekur mið af stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Liður í því frumkvæði var að semja við Norðmenn um Nansen-prófessorsembættið. Þá var einnig boðað að utanríkisráðuneytið mundi vinna að því að hér á landi yrði starfrækt alþjóðleg björgunarmiðstöð. Því miður hefur ekki tekist að hrinda þeim áformum í framkvæmd.

Í ræðu sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra flutti á ráðstefnunni Arctic Frontiers í Tromsö í Noregi mánudaginn 20. janúar sagði hann að kannað vær hagkvæmni þess að koma á alþjóðlegri leitar- og viðbragðsmiðstöð á Íslandi. Hnattstaða Íslands, tækjakostur í landinu og mannvirki ættu að geta nýst öllum sem telja sér skylt að grípa til sameiginlegra öryggisráðstafana á norðurslóðum. Undir þessa skoðun skal tekið. Ræða ráðherrans sýnir hins vegar að hefur ekkert áunnist í þessu efni.

Utanríkisráðherra lét þess einnig getið í ræðu sinni í Tromsö að nýlega hefði hin íslenska ráðherranefnd um málefni norðurslóða fundaði í fyrsta skipti. Forsætisráðherra, utanríkisráðherra, innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra sitja í nefndinni og sagði í tilkynningu um fyrsta fund þeirra að þar hefðu málefni norðurslóða verið rædd á breiðum grunni, meðal annars þróunin á alþjóðavettvangi, umhverfismál, atvinnuþróun og auðlindanýting, og samgönguinnviðir og öryggismál.

Tilkynningin um ráðherrafundinn er næsta litlaus og ber ekki með sér að þarna sé um helsta utanríkismál ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að ræða. Ríkisstjórnin verður að móta sér verkefnaáætlun og skilgreina nákvæmlega ábyrgð ráðherra á framkvæmd einstakra verkefna. Það getur til dæmis ekki verið að ætlunin sé að utanríkisráðherra geri upp á milli sveitarfélaga þegar að því kemur að ákveða hvar þjónustumiðstöðvar vegna vaxandi umsvifa á norðurslóðum skuli vera eins og hann gerði í hádegisfréttum ríkisútvarpsins mánudaginn 20. janúar dró taum Akureyringa og Eyfirðinga.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS