Sunnudagurinn 17. janúar 2021

Ónýt rök ESB-aðildarsinna - afturkalla ber ESB-umsóknina


Björn Bjarnason
6. febrúar 2014 klukkan 11:09

Girorgio Napolitano (88 ára), forseti Ítalíu, flutti ræðu á ESB-þinginu í Strassborg þriðjudaginn 4. febrúar. Hinn aldni forseti óttast að kjósendur hafi ekki mikinn áhuga á ESB-þingkosningunum maí, lýðræðishallinn við töku ákvarðana innan ESB fæli almenning frá afskiptum af málefnum ESB.

Þessi ummæli Ítalíuforseta minna á hve óskynsamlegt er fyrir talsmenn ESB-aðildar Íslands að hallmæla EES-samningnum vegna lýðræðishalla og telja þess vegna brýnt fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Málum er einfaldlega ekki þannig háttað. Lýðræðishallinn svonefndi yrði jafnvel enn meiri ef Íslendingar gerðust aðilar að ESB.

Makríldeilan er ágætt dæmi um hvernig saumað yrði að íslenskum hagsmunum og stjórnvöldum við aðild að ESB. Vissulega mundi íslenskur ráðherra sitja á fundum þar sem teknar yrðu ákvarðanir um heildarafla á makríl en skipting þess afla yrði alfarið á valdi ráðandi afla innan ESB með sjávarútvegsstjórann í broddi fylkingar. Íslendingar yrðu auðveldlega bornir ofurliði í atkvæðagreiðslu í ráðherraráðinu og hefðu engin bein áhrif eftir það. Þeir hefðu afsalað sér stjórn á makrílveiðum innan 200 mílna lögsögu sinnar. Það væri undir Brusselmönnum komið að ákveða kvóta íslenskra skipa. Í viðræðum við Færeyinga og Norðmenn sæti fulltrúi Íslands ekki einu sinni við samningaborðið. Rödd Íslands yrði í besta falli hvísl í eyru embættismanna ESB sem ættu síðasta orðið.

Ekki er aðeins misheppnað hjá ESB-aðildarsinnum á Íslandi að ætla að nota lýðræðishallann málstað sínum til framdráttar. Áherslan sem þeir hafa lagt á evruna og að ekki sé unnt að nálgast hana sem gjaldmiðil fyrir Íslendinga nema með aðild að ESB er tímaskekkja.

Evran hefur annars vegar glatað virðingu sinni og hins vegar hefur áhugi Íslendinga á að gangast undir evru-okið minnkað. Innri-gengisfellingin hjá evru-þjóðum sem halda ekki í við Þjóðverja hefur skapað gífurlegan efnahagslegan og félagslegan vanda og meira atvinnuleysi almennt og þó sérstaklega meðal ungs fólks en áður liðist meðal siðmenntaðra þjóða Evrópu.

Þriðja misheppnaða áróðursbragð ESB-aðildarsinna er að tengja ESB-aðild við óskir kaupmanna um að fá að flytja inn landbúnaðarafurðir án tolla. Þessi tenging hefur einfaldlega orðið til þess að almennur stuðningur við þessar óskir kaupmanna er minni en hann hefði annars orðið. Er raunar óskiljanlegt að kaupmenn sem eiga allt sitt undir velvild viðskiptavina sinna skuli árum saman hafa tengt tollalækkanir við aðild að ESB. Að sjálfsögðu geta íslensk stjórnvöld lækkað tolla án þess að þjóðin gangi í ESB. Með því að skapa þessa tengingu á milli kröfunnar um ESB-aðild og tollalækkana hafa kaupmenn unnið gegn lækkununum.

Vegna þess hve efnislegu rökin fyrir ESB-aðild Íslands eru veik hefur aðlögunarferlið síðan 2009 leitt til áherslubreytinga í málflutningi ESB-aðildarsinna, krafan um aðild er ekki lengur sett á oddinn heldur er þess krafist að viðræðum verði haldið áfram. Um leið og látið er eins og þjóðin eigi rétt á því að viðræðurnar séu leiddar til lykta með samkomulagi forðast þeir sem þess krefjast að lýsa hvaða efnislega niðurstöðu þeir hafi í augsýn. Er þeim sama um hana? Varla. Þeir vilja hins vegar ekki viðurkenna að sérlausna-tal þeirra á ekki við nokkur rök að styðjast. Sú röksemd hefur aldrei verið reist á öðru en óskhyggju. Meira að segja Bretum er nú vísað út í hafsauga með sérlausna-óskir sínar.

Við þessar aðstæður vex þeim málstað fylgi að afturkalla beri ESB-aðildarumsóknina. Því fyrr sem alþingi samþykkir ályktun um það efni þeim mun betra.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS