Séu rifjuð upp ummæli Össurar Skarphéðinssonar, þáv. utanríkisráðherra, um kosti þess að Íslendingar gengju í Evrópusambandið til að styrkja stöðu sína sem aðildarríki Norðurskautsráðsins sannast enn við nánari athugun að þar var farið með fleipur eins og um svo margt annað sem sagt var mæla með aðild Íslands að ESB. Í grein í Fréttablaðinu hinn 30. maí 2011 sagði Össur til dæmis að bæði almenn og sértæk rök mætti færa fyrir að aðild Íslands að Evrópusambandinu félli vel að vaxandi hagsmunum Íslendinga á norðurslóðum og hann bætti við:
„Hinir sértæku hagsmunir, sem Ísland á sameiginlega með Evrópusambandinu, eru margvíslegir. Fyrir okkur er brýnt að styrkja Norðurskautsráðið sem vettvang fyrir sameiginlega stefnumótun um hagsmuni á norðurslóðum. Við höfum lagst gegn hinu svokallaða fimm-ríkja samráði, sem efnt hefur verið til án þátttöku Íslands. Það kynni að muna um bakfisk Evrópu í sókn fyrir málstað Íslands.“
Þarna minnist Össur á „fimm-ríkja samráðið“ innan Norðurskautsráðsins. Það var honum mikill þyrnir í augum
Ríkin fimm sem um er að ræða eru strandríki Norður-Íshafsins: Bandaríkin, Kanada, Grænland/Danmörk, Noregur og Rússland. Utanríkisráðherrar þeirra hafa komið saman til sérstakra funda og gefið út yfirlýsingar að þeim loknum. Auk þessara ríkja eiga Finnland, Ísland og Svíþjóð aðild að Norðurskautsráðinu.
Bogi Ágústsson fréttamaður tók nýlega viðtal við Michael Byers, prófessor í alþjóðastjórnmálum og lögum við háskóla British Columbia í Kanada en hann hefur sérhæft sig á sviði norðurslóðamála. Viðtalið var sýnt í sjónvarpinu að kvöldi mánudags 10. febrúar. Þar upplýsir prófessorinn að ástæða þess að Íslendingum hafi ekki verið boðið til fundar með strandríkjunum fimm sé sú að þeir hafi sótt um aðild að Evrópusambandinu, ríkin fimm vilji ekkert hafa með ESB að gera í umræðum um stjórn fiskveiða og nýtingu auðlinda í Norður-Íshafi þess vegna sé fundað án ESB-þjóðanna Svía og Finna auk Íslendinga á meðan þeir gangi á eftir ESB með grasið í skónum.
Michael Byers sagði að nú þegar aðildarviðræðum Íslendinga við ESB væri hætt þyrftu ríkin fimm ekki að óttast að ESB skriði inn í hóp þeirra í skjóli Íslands. Prófessorinn áréttaði með öðrum orðum það sem alltaf hefur legið ljóst fyrir, að gengi Ísland í ESB mundi ESB koma fram í stað Íslands í öllum viðræðum um sjávarútvegsmál, stjórn fiskveiða á vegum ESB væri ekki neitt sem önnur ríki vildu en þau vissu hins vegar að Íslendingar hefðu þar mikið og gott til mála að leggja þess vegna sagðist Byers vilja að framvegis yrði það „sex-ríkja-hópur“ sem fjallaði um fiskveiðimál á norðurslóðum en ekki aðeins strandríkin fimm.
Sé þetta mat hins óhlutdræga kanadíska fræðimanns borið saman við hin tilvitnuðu orð í grein Össurar Skarphéðinssonar frá 30. maí 2011 blasir sú ályktun við að annaðhvort hafi Össur farið með vísvitandi ósannindi eða hann hafi neitað að horfast í augu við afleiðingar eigin stefnumótunar. Lesendum er látið eftir að dæma um hvor kosturinn sé verri. Niðurstaðan er hins vegar hin sama í báðum tilvikum: ESB-aðildarumsóknin veikti stöðu Íslands í Norðurskautsráðinu og myndaði fleyg á milli Íslands og strandríkjanna fimm. Þessi fleygur hefði orðið varanlegur ef ESB-stefna Össurar hefði náð fram að ganga.
Með því að afturkalla ESB-aðildarumsóknina er unnt að fjarlægja Össurar-fleyginn innan Norðurskautsráðsins og styrkja stöðu Íslands á þeim vettvangi.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...