Sunnudagurinn 17. janúar 2021

Skýrsla Hagfræði­stofnunar HÍ kallar á afturköllun ESB-umsóknar


Björn Bjarnason
18. febrúar 2014 klukkan 10:52

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Strax eftir að ríkisstjórnin var mynduð var gert hlé á aðildarviðræðunum við ESB. Hinn 25. október 2013 samdi utanríkisráðherra við Hagfræðistofnun Íslands um gerð úttektarinnar. Hún verður lögð formlega fyrir ríkisstjórnina í dag, þriðjudaginn 18. febrúar, en þingflokkar ríkisstjórnarinnar ræddu hana í gærkvöldi. Utanríkisráðherra mun fylgja skýrslunni úr hlaði á alþingi á morgun og hún verður jafnframt aðgengileg fyrir þjóðina.

Fréttir úr skýrslunni birtust í Morgunblaðinu í morgun. Af þeim verður ráðið að meginniðurstaða skýrslunnar um tvíhliða samskipti Íslands og Evrópusambandsins síðan sumarið 2009 ætti ekki að koma lesendum Evrópuvaktarinnar á óvart. Nefnd skulu þrjú meginatriði því til staðfestingar:

  • Hér hefur því hvað eftir annað verið haldið fram að í upphafi hafi Íslendingum verið kynnt algjörlega óraunhæf tímamörk þegar sagt var á hve skömmum tíma yrði unnt að ljúka aðildarviðræðunum fyrir Íslands hönd. Eins og fram kemur í skýrslunni er hér er um mikilvægt atriði að ræða, rangmat á því gefur til kynna að illa undirbúnir menn hafi lagt af stað, óskhyggja hafi fremur ráðið för en raunsæi.
  • Þá hefur aldrei verið kvikað frá því hér á þessum stað að ekki yrði um neinar varanlegar undanþágur fyrir Íslendinga að ræða. Ný aðildarríki yrðu að sætta sig við orðinn hlut í löggjöf ESB og þess vegna væri allt tal um að Íslendingar gætu skapað sér einhverja sérstöðu með „samningum“ við ESB út í hött, af hálfu ESB töluðu menn einnig aðeins um „niðurstöðu“ viðræðna og Íslendingar gætu tekið afstöðu til hennar. Skýrslan staðfestir réttmæti þessarar skoðunar.
  • Þrástaða myndaðist milli Íslands og ESB í tveimur málum sem liggja enn óhreyfð: landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum. ESB kallaði eftir samningsafstöðu Íslands í landbúnaðarmálum en vegna pólitísks ágreinings stjórnflokkanna var ekki unnt að kynna hana. Í sjávarútvegsmálum hélt ESB rýniskýrslunni hjá sér vegna innbyrðis ágreinings um álitið sem henni átti að fylgja auk þess sem við blasti að ekki var neinn grundvöllur fyrir sameiginlegri niðurstöðu.

Samþykkt umsóknarinnar á alþingi 16. júlí 2009 var reist á röngum forsendum um tíma, form og efni þeirra viðræðna sem sigldu í kjölfar ályktunar þingsins. Af þeirri ástæðu einni er alþingi skylt að afturkalla umsóknina. Er skorað á alþingismenn að þeir gangi sem fyrst til þess verks því að með öllu er óviðunandi að við skilgreiningu á tengslum Íslands við ESB sé unnt að vísa til skjals sem reist er á slíkum grunni.

Þriðji þátturinn í stjórnarsáttmálanum er um að ekki verði rætt frekar um aðild við ESB nema þjóðin samþykki viðræðurnar í atkvæðagreiðslu. Sú aðferð ein tryggir að ekki verði vaðið af stað að nýju til Brussel án þess að allar hliðar mála séu ígrundaðar til fulls og ræddar til hlítar á heimavelli. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands staðfestir nauðsyn þess.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS