Hin sögulegu tíðindi bárust föstudaginn 21. febrúar að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu sameinast um að flytja tillögu á alþingi um að afturkalla umsóknina um aðild að Evrópusambandinu sem samþykkt var 16. júlí 2009. Skömmu fyrir klukkan 19.00 að kvöldi föstudags var tillagan lögð fram. Þar segir:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að treysta tvíhliða samskipti og samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríki.“
Hér er um ályktun í þremur liðum að ræða (1) að draga aðildarumsóknina til baka; (2) að ekki verði sótt um aðild að nýju án þess að ákvörðun um það sé borin undir þjóðina og (3) að treyst verði tvíhliða samskipti við Evrópusambandið og Evrópuríki.
Ágreiningur er um fyrsta liðinn
Forystumenn allra flokka átta sig hins vegar nú á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur gerði mikil mistök með því að leita ekki umboðs hjá þjóðinni áður en hún hóf aðildarferlið. Þá hefði átt að standa að málum á þann veg sem nú er gert með því að leita eftir skýrslu óháðs aðila um lýsingu á aðildarferlinu og ræða alla þætti þess ítarlega á opinberum vettvangi. Óðagotið undir forystu Össurar Skarphéðinssonar, þáv. utanríkisráðherra, vegna aðildarumsóknarinnar skaðaði málstað ESB-aðildarsinna. Nú segir Össur að í því efni hafi hann og embættismenn hans farið að ráðum embættismanna ESB.
Þriðji liður ályktunarinnar ætti ekki að vekja deilur en í greinargerð með tillögunni um þann lið er vísað í tillögur sem notið hafa stuðnings manna úr öllum stjórnmálaflokkum.
Þegar litið er á fyrsta liðinn ber að hafa í huga að ríkisstjórnin sem sótti um aðild að ESB sprakk á limminu. Össur Skarphéðinsson frestaði ESB-viðræðunum í ársbyrjun 2013. Flokkur hans tapaði þingkosningunum í apríl 2013. Að þeim loknum tók ný ríkisstjórn við völdum, mynduð af flokkum sem eru andvígir aðild að ESB. Tillaga þeirra um að afturkalla umsóknina er rökrétt og lýðræðisleg.
Viðbrögð þeirra sem urðu undir í ESB-málinu eru ofsafengin og andlýðræðisleg.
Forystumenn iðnrekenda og Viðskiptaráðs bregðast við á þann hátt sem við var að búast. Þeir tala þó ekki fyrir hönd allra félagsmanna sinna. Augljóst er að hagsmunir einstakra fyrirtækja en ekki þjóðarhagur ræður ferð hjá mörgum að baki forystumannanna og veikir það almennar upphrópanir þeirra. Til þessa hafa allar yfirlýsingar um áhuga evrópskra stórfjárfesta á Íslandi reynst alrangar, aðildarumsókn eða tilraun til að halda lífi í henni eftir dauðann breytir engu í því efni.
Augljóst er forystumenn stjórnarandstöðunnar héldu að með ómálefnalegum árásum á forystumenn stjórnarflokkanna næðu þeir að viðhalda ástandinu sem skapaðist við viðræðufrestun Össurar í ársbyrjun 2013. Þetta hefur verið rangt stöðumat hjá þeim frá upphafi en þeir spóla áfram í sama farinu og láta eins og þeir hafi ekki orðið undir í kosningunum 2013.
Þorsteinn Pálsson, fyrrv. formaður Sjálfstæðisflokksins, tók sæti í ESB-viðræðunefnd Össurar Skarphéðinssonar. Hann er hinn eini úr þeirri nefnd sem tekur nú til máls opinberlega. Hann lætur stór orð falla um „söguleg svik“ formanns Sjálfstæðisflokksins. Þessi ómaklegu orð dæma sig sjálf. Það er hins vegar til marks um hina ófaglegu fréttamennsku hjá ESB-miðlum landsins að þess er hvergi getið að Þorsteinn sat í viðræðunefndinni sem misheppnaðist hrapallega að ná markmiði sínu. Hvers vegna er hann ekki spurður um þær hrakfarir?
Frá pólitískum sjónarhóli má líkja ESB-aðildarumsókninni við óðs manns æði. Það er fyrir löngu tímabært að binda enda á ferlið sem hófst með henni.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Rússar láta Finna finna fyrir sér
Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópuvaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.
ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin
Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr miðstjórnarvaldi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...
Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóðamálum
Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópusambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóðamálum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag.
Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?
Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...