Sunnudagurinn 24. janúar 2021

Hvernig dettur þeim þetta í hug?


Styrmir Gunnarsson
28. febrúar 2014 klukkan 09:33

Þótt umræður á Alþingi síðustu daga hafi verið ömurlegar og að sumu leyti sorglegar vegna þess að þingið hefur sokkið svo djúpt í lágkúru hefur þó ýmislegt athyglisvert komið fram og þá ekki sízt þetta:

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sýnir að forystumenn og talsmenn fyrrverandi ríkisstjórnar héldu uppi skipulegri blekkingarstarfsemi sem hafði það að markmiði að telja fólki trú um að eitthvað væri hægt, sem ekki er hægt varðandi undanþágur frá grunnreglum Evrópusambandsins. En umræður um skýrsluna benda jafnfarmt til þess að þeir hinir sömu hafi verið farnir að trúa eigin blekkingaráróðri.

Á annan veg var t.d. ekki hægt að skilja ræðu Guðmundar Steingrímssonar, leiðtoga Bjartrar Framtíðar síðdegis í gær, þegar hann virtist trúa því að það væru einhverjir möguleikar á samningum um grundvallarreglur ESB vegna sjávarútvegsmála, sem gætu tryggt Íslendingum yfirráð yfir auðlindum hafsins. Skýrslan sýnir ótvírætt að svo er ekki og ummæli stækkunarstjóra ESB á blaðamannafundi með Össuri Skarphéðinssyni sýna að svo er ekki.

Hvað getur valdið því, að hið mætasta fólk virðist trúa því að eitthvað sé hægt þótt æðstu embættismenn ESB hafi sagt skýrt og skilmerkilega að svo sé ekki?

Annað sem hefur vakið eftirtekt er að talsmenn Samfylkingarinnar virðast trúa því, að eitthvað liggi að baki þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar annað en það sem fram hefur komið. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingar, hefur aftur og aftur spurt hvað liggi að baki, hvað hafi gerzt, sem valdi því að ríkisstjórnin leggi svo mikla áherzlu á þetta mál. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata hefur tekið undir þær spurningar.

Auðvitað er ekkert á bak við þessa tillögu annað en það sem við blasir. Stjórnarflokkarnir vilja draga aðildarumsóknina til baka enda tími til kominn.

Það eru margar ástæður sem valda því að aðild að Evrópusambandinu hentar Íslendingum ekki. En stóra málið er auðvitað að með aðild værum við að afhenda Evrópuþjóðum yfirráð yfir auðlindum hafsins, sem þessi þjóð hefur lifað á um aldir ásamt því að rækta landið. Þessar sömu Evrópuþjóðir hafa öldum saman látið greipar sópa um auðlindir okkar. Við náðum ekki fullum yfirráðum yfir þeim fyrr en hinn 1. desember 1976.

Af hverju í ósköpunum ættum við að láta þær af hendi?

Hvernig dettur einhverjum kjörnum fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi í hug að ljá máls á því?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS