Miðvikudagurinn 27. janúar 2021

ESB-viðræðunum er vissulega sjálfhætt


Björn Bjarnason
4. mars 2014 klukkan 06:28

Ágúst Þór Árnason, brautarstjóri við lagadeild Háskólans á Akureyri, höfundur þess viðauka við skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem fjallar um ESB-aðildarferli Íslands og stöðu þess sagði í kvöldfréttum ríkisútvarpsins sunnudaginn 2. mars að ESB-aðildarviðræðum Íslendinga væri í raun „sjálfhætt“ af því að Íslendingar ættu ekki kost á neinum varanlegum sérlausnum eða undanþágum af hálfu ESB.

Þetta er raunsætt mat og í samræmi sem við blasir þegar skoðað er viðræðuferlið allt og aðferðafræði Evrópusambandsins. Brusselmenn ráða ferðinni í viðræðum við umsóknarríki og stjórna henni á þann veg að skilja ágreiningsmálin eftir þar til á lokasprettinum. Þessu kynntust íslenskir ráðherrar. Steingrímur J. Sigfússon gerði sér sérstaka ferð til Brussel í janúar 2012 og taldi öruggt að hann mundi sem arftaki Jóns Bjarnasonar geta fengið ESB strax til viðræðna við landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál.

Það tókst ekki og hinn 14. janúar 2013 lagði Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra, minnisblað fyrir ríkisstjórnina þar sem sagði meðal annars:

„Ekki verður um frekari vinnu að ræða við mótun samningsafstöðu Íslands í þeim fjórum köflum sem enn eru ófrágengnir. Þetta eru sjávarútvegskaflinn (13), kaflar 3 og 4 um þjónustuviðskipti og staðfesturétt sem hafa tengingu yfir í sjávarútvegskaflana og landbúnaðarkaflinn (11).“

Vinnunni við lykilkaflana var sem sagt slegið á frest. Íslendingar höfðu ekki mótað samningsafstöðu sína í landbúnaðarmálum og ESB hafði ekki látið í sér heyra í sjávarútvegsmálum. Ágúst Þór sagði við ríkisútvarpið að seinni rýnifundur aðila um sjávarútvegskaflann hefði verið haldinn fyrir þremur árum, í mars 2011. Síðan hefði bókstaflega ekkert verið í fréttum um þann kafla og það væri verðug spurning sem ekki hefði verið svarað af hverju Evrópusambandið hefði ekki viljað afhenda rýniskýrslu sína um sjávarútvegskaflann.

Ágúst Þór svarar því í skýrslunni sjálfri þegar hann segir:

„Ástæðan var sú að sambandið vildi setja viðmið um opnun hans [sjávarútvegskaflans] sem hefði verið óaðgengilegt með öllu fyrir Ísland. Þau hefðu falið í sér að Ísland undirgengist áætlun um aðlögun að sjávarútvegsstefnu sambandsins áður en viðræður hæfust um kaflann.“

Þessi staða er að sjálfsögðu engin tilviljun heldur lýsing á raunveruleika sem ekki verður skýrður á annan hátt en þann að svo mikið hafi borið á milli að ekki var einu sinni um það að ræða að menn hæfu brúarsmíði.

Allt tal um að þrátt fyrir þennan ágreining sé hið besta sem Íslendingar gera í stöðunni að halda áfram aðildarviðræðunum af því að viðunandi árangur sé í vændum er reist á álíka haldgóðum rökum og þeim að Íslendingum yrði tekið opnum örmum og þeir færu á hraðbraut inn í ESB. Það reyndist óskhyggja reist á kurteisishjali í síðdegisboðum. Það er löngu tímabært að hætta að láta stjórnast af slíku tali.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS