Laugardagurinn 23. janúar 2021

Enn á ný fellur ríkis­stjórn á ESB-prófinu


Björn Bjarnason
10. maí 2014 klukkan 10:41

Ríkisstjórnarflokkarnir reyna að klóra sig út úr sjálfskaparvítinu við framkvæmd ESB-stefnu sinnar. Má ekki á milli sjá hvor ríkisstjórnin hefur staðið verr að þessu stórmáli, sú sem sótti um aðild eða hin sem lofaði að binda enda á umsóknarferlið.

ESB-ríkisstjórnin stundaði blekkingarleik frá fyrsta degi. Látið var í veðri vaka að unnt væri að sækja um aðild að ESB án þess að vilja endilega gerast aðili að ESB. Þessi aðferð var dauðadæmd frá upphafi. Hún féll einnig strax á tíma og að lokum var öllu siglt í strand þegar íslenska viðræðunefndin treysti sér ekki til að slá af skilyrðum í sjávarútvegsmálum. ESB-menn stöðvuðu viðræðurnar með því að neita að afhenda rýniskýrslu um sjávarútvegsmál.

Viðræðurnar stöðvuðust í reynd á árinu 2011. Samt var haldið áfram að sannreyna að EES-reglur féllu að ESB-reglum, upprunaregluverkinu sjálfu. Þegar samhljómur reglnanna hafði verið sannreyndur á mörgum fundum birtust hástemmdar yfirlýsingar um hve vel gengi í viðræðunum! Blekkingarleiknum var haldið áfram af hálfu ESB fram yfir ríkjaráðstefnu um miðjan desember 2012. Þá var látið eins og allt væri á beinu brautinni eftir að enn einu sinni hafði verið neitað að afhenda Íslendingum rýniskýrsluna um sjávarútvegsmál. Við svo búið batt Össur Skarphéðinsson, umsóknarráðherrann sjálfur, enda á ferlið með minnisblaði í ríkisstjórn um miðjan janúar 2013.

ESB-flokkarnir fengu vonda útreið í þingkosningunum í apríl 2013. Við tók ríkisstjórn flokka sem höfðu á stefnuskrá sinni að hætta ESB-viðræðunum. Í júní 2013 kynnti nýr utanríkisráðherra þessa stefnu í Brussel og síðan sjálfur forsætisráðherra. Viðræðunefndir voru afmunstraðar og hin sjálfdauða umsókn sett á ís. Í Brussel vita menn að íslensk stjórnvöld hafa slitið viðræðunum.

Hér á landi hafa hins vegar verið sett á svið pólitísk átök um afturköllun umsóknarinnar. Þau eru í raun sama marki brennd og átökin í tíð ESB-ríkisstjórnarinnar. Rætt er um allt annað en staðreyndir. ESB-umsóknin er dauð. Að málinu sé haldið í gíslingu á alþingi er friðþæging við þá sem vilja aðild að ESB án þess að viðurkenna það og efna til marklausrar undirskriftasöfnunar þar sem Óskar Nafnleyndar kemur oftast við sögu. Forystumenn stjórnarflokkanna á þingi sætta sig við gíslatökuna með því að segja að hún auðveldi afgreiðslu annarra mála á þingi.

Staða ESB-málsins í lok þings vorið 2014 er fyrst og síðast álitshnekkir fyrir þá sem leitt hafa málið frá sumrinu 2009. Átökin á heimavelli eru að verulegu leyti háð í sýndarveruleika blekkingasmiða. ESB-málið er ekki eina deilumálið sem er þessu marki brennt. Þeir sem sjá þéttingu byggðar í Vatnsmýrinni sem meginmál Reykjavíkinga aðhyllast til dæmis stjórnmálabaráttu af þessu tagi.

Stjórnmálaátök undir stjórn spunaliða eru áhyggjuefni fyrir íslensku þjóðina. Reynt er að breiða yfir vanmátt stjórnmálamanna og stjórnkerfisins gagnvart stórmálum með blekkingum. Í ESB-málinu hefur skort heiðarleika gagnvart þjóðinni og hæfileika til að starfa í umboði þeirra sem sýna stjórnmálamönnum trúnað. Tvær ríkisstjórnir hafa fallið á ESB-prófinu. Hvenær hin þriðja þorir að takast á við það verður að ráðast af vilja þjóðarinnar. Ríkisstjórnir hafa ekki aðeins fallið á ESB-prófinu heldur einnig stjórnmálamenn og stjórnkerfið.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Pistill

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

 
Mest lesið
Fleiri leiðarar

Rússar láta Finna finna fyrir sér

Það hefur ekki farið fram hjá lesendum Evrópu­vaktarinnar að umræður í Finnlandi um öryggismál Finna hafa aukizt mjög í kjölfarið á deilunum um Úkraínu. Spurningar hafa vaknað um hvort Finnar eigi að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða láta duga að auka samstarf við Svía um öryggismál.

ESB-þingkosningar og lýðræðisþróunin

Kosningar til ESB-þingsins eru í Bretlandi og Hollandi fimmtudaginn 22. maí og síðan í hverju ESB-landinu á eftir öðru þar til sunnudaginn 25. maí. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að dregið verði úr mið­stjórnar­valdi ESB-stofnana í Brussel í von um að andstaða þeir...

Þjóðverjar vilja ekki aukin afskipti af alþjóða­málum

Þýzkaland er orðið öflugasta ríkið í Evrópu á ný. Þýzkaland stjórnar Evrópu­sambandinu. Þar gerist ekkert, sem Þjóðverjar eru ekki sáttir við. Í þessu samhengi er niðurstaða nýrrar könnunar á viðhorfi almennings í Þýzkalandi til afskipta Þjóðverja af alþjóða­málum athyglisverð en frá henni er sagt í fréttum Evrópu­vaktarinnar í dag.

Þáttaskil í samskiptum NATO við Rússa - faðmlag Rússa og Kínverja - ógn í Norður-Íshafi?

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmda­stjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) var ómyrkur í máli um Rússa á reglulegum blaðamannafundi sínum í Brussel mánudaginn 19. maí. Hann sagði að viðleitni þeirra til að sundra Úkraínu hefði skapað „algjörlega nýja stöðu í öryggismálum Evrópu“. Það sem gerðist um þess...

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS