Miðvikudagurinn 20. janúar 2021

Gjörbreytt alþjóðlegt fjármálaumhverfi


Styrmir Gunnarsson
22. maí 2010 klukkan 10:18

Þegar horft er til umræðna innan Evrópusambandsins og þá sérstaklega innan evruríkjanna á síðustu tveimur vikum er ljóst, að þær snúast nánast allar um það, hvernig hægt sé að bregðast við skuldasöfnun þeirra ríkja, sem gengið hafa lengst í þeim efnum. Og þá jafnframt hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að þau endurtaki leikinn.

Þjóðverjar ganga lengst í kröfugerð um aðgerðir til þess að hindra möguleika ríkja á nýrri skuldasöfnun. Þeir hafa sjálfir sett ákvæði í stjórnarskrá Þýzkalands um, að fjárlagahalli þýzka ríkisins megi ekki vera meiri en 0,35% af vergri þjóðarframleiðslu. Austurríki er að setja sambærileg lög og Frakkar hafa lýst yfir vilja til þess. Þess vegna má telja líklegt að slík höft á fjárveitingavaldið verði sett í öllum evruríkjum. Að auki eru kröfur um, að ríkjum verði refsað brjóti þau þann efnahagsramma, sem þeim er settur innan evrusvæðisins m.a. með því að þau missi atkvæðisrétt sinn í þessu ríkjasamstarfi.

Í Bandaríkjunum er lagasetning um fjármálakerfið á síðasta snúning. Bæði fulltrúadeildin og öldungadeildin hafa samþykkt ný lög, hvor deildin með sínum hætti. Eins og kerfið er þar í landi setjast fulltrúar deildanna nú niður til þess að semja um að steypa þeim saman í eina heildarlöggjöf. Þessari nýju löggjöf er lýst sem byltingu. Ljóst er að markmið hennar er að takmarka mjög umsvif fjármálafyrirtækja og draga úr hagnaðarmöguleikum þeirra.

Beggja vegna Atlantshafsins er því í raun unnið að því að koma böndum á fjármálageirann, sem leikið hefur lausum hala á undanförnum árum, sem leiddi til fjármálakreppunnar sem skall yfir haustið 2008 og átti m.a. þátt í falli íslenzku bankanna, þótt fleira hafi komið til.

Myndin, sem við blasir er því sú, að það er verið að draga úr möguleikum einstakra ríkja, fjármálafyrirtækja og þar með bæði annarra fyrirtækja og heimila til skuldsetningar. Ekki er t.d. ólíklegt að eitt af því, sem muni leiða af þessum breytingum er að erfitt verði að framkvæma skuldsetta yfirtöku fyrirtækja, sem komst í tízku í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar og hefur nú sennilega sungið sitt síðasta.

Þessi framvinda mun hafa áhrif hér á Íslandi. Það er verið að stöðva peningaflóðið út í heimi. Og þótt það hafi stöðvast af sjálfu sér hér á síðustu misserum er ljóst að aðgerðir annarra ríkja leiða til þess að nánast óhugsandi er að það hefjist á ný.

Það mun hafa miklar breytingar í för með sér á rekstri íslenzkra fyrirtækja og reyndar heimila einnig. Rekstur, sem byggir á skuldasöfnun er á útleið. Rekstur sem byggir á eigin fé er framtíðin.

Hins vegar er það umhugsunarefni, að á sama tíma og Bandaríkjaþingi er að takast að ljúka viðamikilli löggjafargerð um fjármálageirann þar í landi og Evrópuríki komin vel á veg með að samræma sjónarmið sín hefur Alþingi Íslendinga ekki tekizt að setja nýja löggjöf um bankana hér í framhaldi af hruni þeirra. Það leið meira en ár frá hruninu og þangað til frumvarp að nýrri bankalöggjöf var lagt fyrir Alþingi. Augljóst var í upphafi, að það var svo takmarkað að það þjónaði ekki nema takmörkuðum tilgangi. Og nú virðast stjórnarflokkarnir hafa átt erfitt með að átta sig á að skýrsla rannsóknarnefndarinnar krefst þess, að málið allt verði tekið nýjum tökum. Þetta er enn eitt dæmi um hve veikburða íslenzka stjórnsýsla er. Nema um sé að ræða stjórnleysi, sem vel má vera. Og pólitískt forystuleysi sem er augljóst.

Kjarni málsins er þó sá, að hið alþjóðlega umhverfi er að gjörbreytast og það mun hafa mikil og varanleg áhrif hér. Í raun og veru geta þessar breytingar í útlöndum breytt daglegu lífi fólks á Íslandi í grundvallaratriðum. Hins vegar verður þess ekki vart, að um það sé rætt, hvorki á Alþingi eða í fjölmiðlum. Það minnir óþægilega á þögnina, sem ríkti um vandamál bankanna 2006 og þögnina, sem ríkti um líklegar afleiðingar bandarísku húsnæðislánavafninganna 2007 fyrir Ísland. Þögn, sem byggist á skilningsleysi?

Getur verið, að við höfum ekkert lært? Eða skortir skilning á áhrifum og afleiðingum þess, sem gerist í öðrum löndum fyrir okkur?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS