Orðanotkun skiptir miklu máli. Notkun orða getur ráðið úrslitum um, hvort fólk fær réttar upplýsingar eða villandi upplýsingar. Smátt og smátt er íslenzka þjóðin að vakna til vitundar um, að bæði þing og þjóð hafa verið blekkt með samþykkt Alþingis frá 16. júlí á sl. ári um „umsókn“ um aðild að Evrópusambandinu. Við erum ekki að fara í samningaviðræður við Evrópusambandið um aðild að því. Við erum að fara í aðlögunarviðræður eins og Björn Bjarnason hefur bent á með óyggjandi rökum í pistli hér á Evrópuvaktinni.
Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Evrópusambandssinnar hafa haldið því fram, að viðræður við Evrópusambandið ættu að leiða í ljós hvers við ættum kost. Á grundvelli þeirra upplýsinga gæti þjóðin tekið upplýsta ákvörðun.
Nú er fólk að byrja að gera sér grein fyrir því, að í raun tók Alþingi ákvörðun um það fyrir rúmu ári að hefja aðlögun að lögum og reglum Evrópusambandsins.
Gerðu þeir þingmenn Vinstri grænna, sem greiddu atkvæði með þeirri tillögu sem lá fyrir Alþingi sumarið 2009 um „umsókn“ um aðild sér grein fyrir því, að þeir voru í raun að greiða atkvæði með tillögu um „aðlögun“ Íslands að ESB? Það skal dregið í efa.
Voru þetta vísvitandi blekkingar af hálfu ríkisstjórnarinnar? Hún hlýtur að hafa búið yfir nákvæmum upplýsingum um það, hvernig stækkun Evrópusambandsins gengur fyrir sig áður en hún tók ákvörðun um að leggja tillöguna fyrir Alþingi.
Auðvitað getur þetta aðlögunarferli stöðvast ef stjórnvöld neita t.d. að laga sig að sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Í ljósi yfirlýsinga Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, um að Ísland hafi enga þörf fyrir varanlega undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB er hins vegar ólíklegt að núverandi ríkisstjórn neiti þeirri „aðlögun“, þegar þar að kemur.
Í ljósi þessa verður skiljanlegri vilji ESB til þess að greiða kostnað þjóða við aðlögunarferlið. ESB telur sig hafa hag af því til lengri tíma litið að Ísland verði aðili að þessu ríkjasambandi og er tilbúið til að borga töluvert fé fyrir að svo geti orðið. Þeir, sem hins vegar halda því fram að þeir séu í „samningaviðræðum“ við ESB um aðild, eins og núverandi ríkisstjórn heldur fram, en eru tilbúnir til að taka við þessum peningum eru í raun að segja, að það sé allt í lagi að taka við peningum frá mótaðila í samningaviðræðum! Til er sérstakt orð yfir slíkt framferð á íslenzku.
Alþingi á ekki annarra kosta völ en taka þetta mál til meðferðar á ný. Þingmenn hafa að sjálfsögðu frelsi til að hafa þá skoðun að þjóðin eigi að hefja aðlögunarferli að lögum og reglum ESB, sem ljúki með formlegri aðild. En þeir verða þá að taka þá ákvörðun á réttum forsendum og með réttri orðanotkun, þannig að þjóðin viti hvað þingið er að samþykkja og gera.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.