Föstudagurinn 15. janúar 2021

Eru rök fyrir að færa stjórn Seðlabanka Íslands til Frankfurt?


Sveinn Eldon
26. júlí 2010 klukkan 20:52

Í umræðunni um orsakir bankahrunsins 2008 er því oft haldið fram að Seðlabanki Íslands hafi ekki gegnt hlutverki sínu sem skyldi og hafi ekki verið vandanum vaxinn. Viðskiptabankarnir hafi verið óþekkir og það hafi verið skylda Seðlabankans sem „foreldris“ að tukta þá og tyfta. Einnig er því haldið fram að hefði Ísland verið í ESB og haft evru sem gjaldmiðil hefði Seðlabankinn getað gegnt „foreldrahlutverki“ sínu betur, enda hefði bankinn þá þurft að svara fyrir gerðir sínar til Seðlabanka Evrópu. Lítið er hæft í þessum staðhæfingum.

Hlutverk Seðlabanka Íslands er skilgreint í lögum um hann nr. 36/2001. Samkvæmt þeim er hlutverk bankans að stuðla að stöðugu verðlagi; að framgangi stefnu ríkistjórnarinnar í efnahagsmálum og virku og öruggu fjármálakerfi. Í hinu síðast talda felst m.a. varðveisla gjaldeyrisvarasjóðs landsins.

Umsvif íslenskra banka haustið 2008 voru að mestu í öðrum gjaldmiðlum en íslenskri krónu og sennilega mest í evrum. Bankarnir urðu ekki gjaldþrota vegna skorts á íslenskum krónum (enda hefði Seðlabankinn getað veitt bönkunum lán í krónum) heldur vegna skorts bankanna á erlendum gjaldeyri. Bankarnir höfðu ekki nægilegt lánstraust á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum til að fá þar lán. Bankarnir þurftu lán, svo að þeim væri unnt að greiða lán sem féllu í gjalddaga eða voru kölluð inn af lánadrottnum. Lánin voru kölluð inn vegna óstöðugleika á fjármálamörkuðum. Þegar ljóst varð síðsumars 2008 að margir af stærstu og elstu bönkum heims stæðu mjög höllum fæti og að óvíst væri, hvort seðlabankar hefðu bolmagn til að styðja þá sem skyldi, breiddist út vantrú meðal bankamanna um stöðugleika allra banka. Óvíst var með öllu hvaða bankar voru stöðugir og hverjir óstöðugir. Vantrúin leiddi til þess að bönkum varð mjög erfitt að fá lán frá öðrum bönkum en seðlabönkum heimalanda sinna.

Nú má vissulega halda því fram, að hefði Ísland verið í ESB og haft evru sem gjaldmiðil, hefði Seðlabanka Íslands verið í lófa lagið að lána bönkunum í evrum og þeir hefðu getað greitt lán sín og ekki orðið gjaldþrota. Þetta er hins vegar mikil einföldum. Staðreyndin er sú að hefði Ísland verið í ESB haustið 2008 og evran verið íslenskur gjaldmiðill, hefði Seðlabanki Íslands einungis verið útibú Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Seðlabanka Íslands hefði ekki verið unnt að lána íslenskum bönkum nauðsynlegar fjárhæðir nema með samþykki frá höfuðstöðvunum í Frankfurt. Hefði bankinn í Frankfurt gefið samþykki sitt og hefðu fengist nægilega há lán í tíma til að bjarga bönkunum? Því er útilokað að svara. Ringulreið sem ríkti á alþjóðafjármálamörkuðum og vantrú á íslenskum bönkum meðal bankamanna, ekki síst seðlabankamanna, um allan heim dregur mjög úr líkum á því, að erlend aðstoð hefði fengist nægilega fljótt til að unnt hefði verið að bjarga bönkunum frá hruni.

Smæð krónunnar sem gjaldmiðils skiptir litlu máli. Viðskiptabankarnir færðust of mikið í fang, á of stuttum tíma. Bankarnir gáfu sér einfaldlega ekki tíma til að vaxa á eðlilegan hátt. Eins og unglingur sem vex of hratt, voru þeir kraftlausir þegar á reyndi. Þessi staðreynd var vel þekkt meðal erlendra bankamanna, enda fyrirbærið ekki óþekkt í bankaheiminum.

Minna má á hrun finnskra banka 1991 sem má rekja til svipaðra ástæðna. Finnland naut mikils lánstrausts á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og finnsk skuldabréf voru eftirsótt. Bankastjórnir finnsku bankanna fengu laust eftir1980 þá flugu í höfuðið að ástæðan fyrir þessu mikla lánstrausti væri ekki einungis iðjusemi og sparsemi finnsks almennings heldur einnig sú að Finnar kynnu betur að reka banka en aðrir. Líkt og íslenskir bankar opnuðu stjórnendur finnskra banka útibú og dótturfyrirtæki út um allan heim. Spilaborgin hrundi á nokkrum minnisstæðum vikum 1991. Bankarnir misstu lánstraust á erlendum fjármálamörkuðum. Skömmu fyrir hrunið voru útlán bankana oft mjög áhættusöm enda hægt að fá hærri vexti fyrir slík lán.

Erlendir bankamenn höfðu almennt vantrú á íslenskum bönkum. Íslenskir bankamenn voru ekki sömu hetjur erlendis og á Íslandi. Af hverju þessi vantrú stafaði er ekki ljóst, en margt í starfsemi íslensku bankanna og hinn öri vöxtur þeirra hefur sjálfsagt leitt huga margra reyndra bankamanna að svipuðum starfsháttum og hins hraða vaxtar finnskra banka á níunda áratug síðustu aldar. Þá var ekkert leyndarmál að íslenskir bankar greiddu oft mjög hátt verð fyrir banka sem þeir keyptu erlendis. Sömu sögu er að segja um íslensk fyrirtæki. Fyrirtækjakaup íslenskra fyrirtækja bæði heima og erlendis voru að mestu fjármögnuð með lánum frá íslenskum bönkum eða frá erlendum bönkum í þeirra eigu. Vantrú erlendra bankamanna á íslenskum bönkum var vel þekkt og því ekki erfitt að geta sér til um hvernig fjármálamarkaðir, erlendir fjölmiðlar og erlendir sparifjáreigendur mundu bregðast við þegar harðnaði á dalnum og erfitt yrði um lánsfé. Ljóst er að íslenskir bankamenn voru annaðhvort of reynslulitlir til að gera sér fulla grein fyrir hættuni, eða þeir höfðu einfaldlega ákveðið að leiða áhættuna að mestu hjá sér. Þegar þar var komið sögu, höfðu bankarnir í reynd tekið slíka áhættu í viðskiptum sínum að fátt var til ráða ef illa færi, allur viðbúnaður í því skyni var því að mestu gangslaus. Lítið annað var til ráða en að vona hið besta án þess að geta búið sig undir hið versta.

Sjálfstæði Seðlabanka Íslands gerði bankanum unnt að bregðast fljótt við vandanum. Seðlabankanum tókst vissulega ekki að bjarga bönkunum, þótt það hafi verið reynt til hins ýtrasta. Bankanum tókst þó að bjarga gjaldeyrisforðanum og forða því að landið yrði gjaldþrota.

Minna má á hvernig fór fyrir Nýfundnalandi sem varð gjaldþrota og varð að leita á náðir Kanadamanna. Sú málaleitan leiddi til þess að landið varð fylki í Kanada 1949. Það tók ESB nokkrar vikur að sameinast um lausn á fjárhagsvanda Grikklands. Á meðan ríkisstjórnir ESB-landanna og ráðamenn í Brussel þráttuðu um lausn vandans og hverjir ættu að borga meira (Þjóðverjar) og hverjir minna (Spánverjar) og hverjir ekki neitt (Bretar), sneri Seðlabanki Evrópu í Frankfurt sér til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í Washington. AGS og evrópski seðlabankinn veittu Grikkjum sameiginlega rífleg lán. Megnið af þeim lánum var fjármagnað af AGS. Það var þó fyrst og fremst hlutverk seðlabankans í Frankfurt en ekki AGS að leysa vandann. Varla hefði Seðlabanki Evrópu haft meira svigrúm eða brugðist fljótar við til að bjarga íslensku bönkunum haustið 2008. Þegar bankahrun ber að höndum verður hver klukkustund að áratug og skjót viðbrögð geta skipt sköpum.

Var það hlutverk Seðlabanka Íslands að hafa vit fyrir bönkum? Reyna sitt ýtrasta til að halda aftur af þeim? Hindra þá frá að vaxa eins fljótt og þeir gerðu? Eða var það hlutverk bankans að styðja og styrkja íslenska bankakerfið eins og kostur og ástæða var til á hverjum tíma? Áttu seðlabankastjórar að tilkynna bankastjórum bankanna að seðlabankinn áliti bankana taka of mikla áhættu í viðskiptum sínum?

Því er fyrst til að svara að seðlabankinn hefur ekki lagalegan rétt á að blanda sér í löglega starfsemi viðskiptabankanna. Bankanum ber að gera sitt til að bankakerfið sé á öruggum grunni. Bankanum ber hins vegar að forðast að skapa vantrú á einstaka banka eða á bankakerfinu í heild. Spyrja má: Hvað vissi bankastjórn seðlabankans, sem bankastjórnir viðskiptabankanna vissu ekki sjálfar? Hvernig átti bankastjórn seðlabankans að grípa inn í stjórnun viðskiptabankanna án þess að auka enn frekar vantrú alþjóðafjármálamarkaðarins á íslenskum bönkum? Varla vissu bankastjórnir viðskiptabankanna ekki um áhættuna vegna viðskipta bankanna? Vissu þær ekki um áhyggjur bankastjórnar seðlabankans vegna stöðu bankanna?

Reykjavík er ekki stórborg. Allir þekkja alla. Ekki er unnt að fara út í búð, í sund eða á bíó án þess að rekast á vini eða kunningja. Bankastjórn seðlabankans hitti auk þess fulltrúa bankastjórna viðskiptabankanna á reglulegum fundum. Þar var rætt um stöðu bankanna.

Sannleikurinn var sá að seðlabankinn var í patt stöðu. Bankinn gat vissulega aukið bindiskyldu bankanna (sá hundraðshluti innlána sem bankarnir verða að halda í reiðufé), en sú aðgerð ein og sér hefði breytt litlu. Meginumsvif bankanna voru erlendis og aðgerðin því gagnslaus. Hún hefði hins vegar haft áhrif á sparisjóðina, en óþarfi var að setja þeim skorður. Sparisjóðirnir höfðu lítil eða engin umsvif erlendis.

Bankastjórn seðlabankans skorti varla nauðsynlegar upplýsingar frá viðskiptabönkunum til að hafa skýra mynd af stöðu bankanna. Seðlabankinn gat einfaldlega ekki breytt veruleikanum. Seðlabankinn lagði til að bankarnir skráðu starfsstöðvar sínar erlendis frekar sem erlend dótturfyrirtæki en sem útibú íslenskra banka. Þar sem stærsti hluti erlendra viðskipta bankanna voru stunduð í þessum útibúum, hefði stofnun útibúanna létt verulega á kvöðum og skyldum seðlabankans, ef bankarnir lentu í lausafjárþurrð. Bankarnir fóru að nokkru að ráðum seðlabankans, en ekki að fullu. Seðlabankinn gat aðeins hvatt en ekki neytt þá til aðgerða.

Með því að skella skuldinni vegna bankahrunsins á seðlabankann er að hengja bakara fyrir smið. Skuldin liggur hjá þeim sem vísvitandi lögðu allt undir og töpuðu, hjá viðskiptabönkunum. Ótrúlegt er, að seðlabankinn hefði þurft að gera bankastjórum viðskiptabankanna ljóst, hve lítið svigrúm seðlabankinn hafði til að bjarga bönkunum, ef umrót yrði á fjármálamörkuðum og bankarnir þyrftu á aðstoð að halda. Þetta hlýtur að hafa verið bankastjórunum fullljóst.

Viðskiptastefna bankanna sýndi að innan þeirra hugðust menn leysa allan vanda samfara örum vexti þeirra (þar á meðal dýr innlán og óhófleg útlán til íslenskra fyrirtækja, stærstu eigenda bankanna) með því að vaxa enn frekar. Bankinn átti ætíð að vera svo umfangsmikill að hann gæti ráðið við að endurgreiða skuldabréf og innlán. Þessi stefna beið skipbrot haustið 2008. Fyrstu alvarlegu váboðarnir birtust vorið sama ár. Varla var hlutverk seðlabankans að banna bönkunum að vaxa? Hlutverk hans var hins vegar að sjá til þess að bankarnir tækju ekki landið með sér í gröfina. Enginn hefur bent á hvaða hömlur seðlabankinn hefði getað lagt á viðskiptabankana.

Þegar skjótra ákvarðana er þörf getur smæð verið styrkur, það sannaði Seðlabanki Íslands áþreifanlega haustið 2008. Gjaldeyrisforðanum var bjargað. Greiðslukerfi landsins varð ekki fyrir neinum skakkaföllum og greiðslukerfið við útlönd komst fljótlega í viðunandi horf, þrátt fyrir harkalegar aðgerðir breskra stjórnvalda. Gengi krónunnar féll minna en margir sérfræðingar óttuðust. Verðbólgan jókst, en hún er viðráðanleg, þótt hún sé vissulega of há. Nýju bankarnir njóta trausts innstæðueigenda. Atvinnuleysi hefur aukist verulega, það er pólitískt hlutverk ríkisstjórnarinnar og ekki seðlabankans að snúast gegn þeim vanda.

Áhrif efnahagsaðgerða birtast almennt eftir nokkurn tíma, oft ár. Fyrst nú sjáum við áhrif ýmissa efnahagsaðgerða, sem gripið var til haustið 2008. Þegar til þeirra er litið, verður vart annað sagt en Seðlabanki Íslands hafi sinnt hlutverki sínu með prýði haustið 2008. Frammistaða hans þá dugir ekki sem röksemd fyrir því að gera hann að útibúi Seðlabanka Evrópu í Frankfurt.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Nafn: Sveinn Eldon Fæddur í Reykjavík 1950 Heimspekingur og hagfræðingur að mennt. Hefur starfað sem háskólakennari bæði á Íslandi og í Finnlandi þar sem hann starfar nú.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS