Laugardagurinn 28. maí 2022

Nú fer að þrengja að forsætis­ráðherranum sjálfum


Styrmir Gunnarsson
6. september 2010 klukkan 10:49

Jóhanna Sigurðardóttir var góður kostur fyrir Samfylkinguna, sem forsætisráðherra minnihlutastjórnar Samfylkingar og VG og síðar meirihlutastjórnar þessara flokka snemma árs 2009 í kjölfar hrunsins. Ástæðan var einföld. Jóhanna naut trausts almennings.

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið. Smátt og smátt hefur Jóhanna þokazt til hliðar, sem helzti forystumaður ríkisstjórnarinnar og Steingrímur J. Sigfússon tekið við því hlutverki. Segja má með nokkrum sanni, að forsætisráðherrann sitji nú og starfi í skugga fjármálaráðherrans. Ein af ástæðunum fyrir þessari framvindu mála er sú, að þótt Jóhanna njóti trausts almennings er hún ekki stjórnmálaleiðtogi, sem hefur fram að færa þá framtíðarsýn, sem fólk þarf á að halda, ekki sízt þjóð í svo miklum vanda, sem við Íslendingar erum. Önnur ástæða er sú, að Steingrímur J. Sigfússon er kraftmikill stjórnmálamaður – þótt hann sé ekki stefnufastur að sama skapi – og þess vegna ryður hann Jóhönnu til hliðar, þótt það sé ekki endilega markmið hans.

Steingrímur gerir sér vel grein fyrir þessari stöðu og liggur ekki á því í einkasamtölum að þunginn af ríkisstjórninni liggi fyrst og fremst á hans herðum.

Smátt og smátt er sú mynd að birtast að þótt Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið góður kostur fyrir stjórnarflokkana báða sem forsætisráðherra strax í kjölfar hrunsins er ekki þar með sagt, að hún sé bezti kosturinn til þess að leiða þjóðina áfram, þegar hér er komið sögu. Fólk innan Samfylkingarinnar gerir sér vel grein fyrir þessu. Þess vegna hefur umtal um nýjan formann Samfylkingar verið vaxandi á þeim vígstöðvum á undanförnum mánuðum, á sama tíma og krónprinsarnir tveir, Dagur B. Eggertsson og Árni Páll Árnason hafa lent í vaxandi pólitískum mótvindi. Og þess vegna er nafn Guðbjarts Hannessonar nefnt oftar og oftar, þegar rætt er um eftirmann Jóhönnu. Það er svo annað mál að til þessa dags hefur Guðbjartur ekki sýnt að hann sé leiðtogi af þeirri stærðargráðu, sem þjóðin þarfnast – en stundum vaxa menn í embættum og nú hefur Guðbjartur fengið tækifæri til þess að sýna hvað í honum býr.

Eftir stendur, að forsætisráðherrann veitir ríkisstjórninni ekki forystu, þegar hér er komið sögu. Þeir kostir Jóhönnu, sem nýttust henni vel í upphafi geri það ekki lengur nema að takmörkuðu leyti. Þetta forystuleysi á eftir að þvælast meira og meira fyrir stjórnarflokkunum á næstu mánuðum. Nú verða það ekki bara ESB og Icesave. Nýir kjarasamningar eru framundan. Forseti Alþýðusambandsins hefur verið á ferð um landið enda hefur hann fundið að fjarað hefur undan honum vegna tryggðar hans við ríkisstjórnina. Framundan er mikill niðurskurður á fjárlögum.

Uppstokkun ríkisstjórnarinnar dugar ekki nema í örfáa mánuði. Og nú fer að þrengja að forsætisráðherranum sjálfum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS