Hörð valdabarátta er nú háð milli Júrís M. Luzhkovs, borgarstjóra í Moskvu, og Dmitris A. Medvedevs, forseta Rússlands. Luzhkov hefur notið mikilla vinsælda sem borgarstjóri í 18 ár og staðið af sér allar ásakanir um spillingu, þrátt fyrir að eiginkona hans hafi orðið auðugusta kona Rússlands vegna fasteignaviðskipta.
Luzhkov ritaði nýlega blaðagrein, þar sem hann gaf til kynna, að Medvedev, forseti, væri of hikandi. Töldu sumir, að hann væri að kalla Vladimir Pútín forsetavalda á ný. Eftir þetta hefur borgarstjórinn sætt hörðum árásum frá fjölmiðlum, sem lúta valdi forsetans og manna hans í Kreml.
Í The New York Times (NYT) segir 24. september, að grein Luzhkovz hafi leitt til hörðustu pólitísku deilna í Rússlandi í næstum heilan áratug. Spurningar hafi vaknað um raunverulegt eðli sambandsins milli Medvedevs og Pútíns.
Gleb O. Pavlovsky, stjórnmálaráðgjafi í Kreml, segir, að borgarstjórinn hafi ætlað að reka fleyg á milli Medvedevs og Pútíns. Með þessu hafi hann skapað óþolandi ástand og málinu hljóti að lykta á þann veg, að Luzhkov verði að láta af embætti.
NYT segir, að átökin minni á persónulega valdabaráttu í stjórnmálaráði gamla kommúnistaflokksins. Nú velti rússneskir álitsgjafar fyrir sér, hvernig beri að túlka þá staðreynd, að Medvedev hafi látið hjá líða að senda Luzhkov heillaóskir á 74 ára afmæli hans á dögunum. Pútín hafi sent honum afmælisskeyti og hyllt hann sem „hæfan og reyndan stjórnanda.“
Á það er bent, að síðan Medvedev varð forseti árið 2008 hafi hann ýtt flestum gömlum héraðshöfðingjum til hliðar, annað hvort með því að bjóða þeim önnur störf eða starfslokasamninga. Um Luzhkov, sem á rætur í gamla stjórnkerfi kommúnista, gegni öðru máli. Hann standi á traustari grunni en aðrir auk þess að búa yfir meiri reynslu af stjórnmálaátökum.
Í grein sinni í opinbera málgagninu Rossiiskaya Gazeta gagnrýndi Lushkov þá sérkennilegu ákvörðun Medvedevs að láta undan þrýstingi almennings og stöðva lagningu hraðbrautar milli Moskvu og St. Pétursborgar. Taldi borgarstjórinn, að með því að hika við slíka framkvæmd væri grafið undan trausti í garð ríkisstjórnarinnar. Hann hvatti til þess, að á ný þyrfti enginn að efast um „raunverulega stefnu og vald rússensku ríkisstjórnarinnar.“
Að sögn NYT voru viðbrögðin snögg og harkaleg. Dagana eftir að greinin birtist sýndi ríkisrekna NTV sjónvarpsstöðin þáttinn „Derhúfu-málið“ og vísaði heitið til derhúfu borgarstjórans, sem allir þekkja.
Í þættinum var athygli beint að samgöngu- og flutningakerfi Moskvu, sem væri að hruni komið, og auðæfum milljarðamæringsins, frú Jelenu Baturinu, eiginkonu Luszkovs. Borgarstjórinn var einnig gagnrýndur fyrir að fara í sumarfrí til Austurríkis í sumar, þegar Moskvubúar bjuggu við illan kost vegna elda og reyks. Borgarstjórinn hefði þá fyrst snúið til baka, þegar hann óttaðist um örlög býflugna sinna, en hann er þekktur fyrir ræktun þeirra.
Þættinum var fylgt eftir í öðrum fjölmiðlum ríkisstjórnarinnar. Þar var borgarstjórinn meðal annars sakaður um að hafa látið flytja Moskvubúa frá heimilum sínum til að skapa rými fyrir byggingaframkvæmdir á vegum eiginkonu sinnar.
Luzhkov hélt á ný til Austurríkis í vikunni en að sögn NYT hefur hann hótað þeim fjölmiðlum málssókn, sem flutt hafa þessar frásagnir um hann. Hvað sem þeim líður er almennt álitið, að ásakanir um spillingu séu ekki undirrót þessara árása. Hvergi hafi verið minnst á, að Luzhkov sé fremstur í flokki Pútíns eða að borgarstjórinn sitji í náð forsetans, sem hafi vald til að skipa eða reka héraðsstjóra að eigin vild.
Á það er bent, að í lýðræðisríki yrði deila af þessu tagi leyst í kosningum. Slíkar reglur gildi ekki í Rússlandi. Ekki sé verið að ryðja Luzhkov úr vegi fyrir að vera spilltur þjófur heldur vegna þess að hann standi á milli tveggja valdahópa. Frú Baturina segir, að aðförin að manni sínum snúist um, hvor eigi að verða forseti 2012 Medvedev eða Pútín.
NYT segir, að lítið bendi til þess, að árekstrar séu á milli hinna tveggja leiðtoga Rússlands. Báðir hafi þeir markvisst ýtt öllum spurningum um áform þeirra 2012 frá sér.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.