Hvað ætli hafi orðið um verkalýðshreyfinguna á Íslandi? Sú var tíðin, að hún var það forystuafl, sem beitti sér, þegar talið var vegið að hagsmunum almennings. Á því hefur engin breyting orðið í útlöndum. Það var verkalýðshreyfingin á Spáni, sem beitti sér fyrir allsherjarverkfalli þar í landi í síðustu viku til þess að mótmæla niðurskurðaraðgerðum stjórnvalda. Það var verkalýðshreyfingin í Evrópu, sem beitti sér fyrir mótmælagöngu í Brussel í síðustu viku vegna aðhaldsaðgerða stjórnvalda í mörgum evrulöndum, sem raktar eru til Brussel. Það er verkalýðshreyfingin á Írlandi, sem hefur beitt sér gegn aðgerðum stjórnvalda þar í landi. Þemað er alls staðar það sama. Það er verið að mótmæla niðurskurði á útgjöldum þessara ríkja, sem talið er að efnt sé til í því skyni að friða alþjóðlega fjármálamarkaði, m.ö.o. að friða kapítalistana.
Í fyrrakvöld, mánudagskvöld, voru átta þúsund manns saman komin á Austurvelli til þess að krefja stjórnvöld um aðgerðir vegna brýnna vandamála þúsunda ef ekki tugþúsunda fjölskyldna og heimila á Íslandi.
Þessar aðgerðir voru ekki skipulagðar af verkalýðshreyfingunni. Þær virðast hafa verið sjálfsprottnar. Hvar var verkalýðshreyfingin? Hvar var Alþýðusambandið? Hvar var verkalýðsfélagið Efling?
Hafa þessir aðilar ekki lengur áhuga á slíkum hagsmunamálum félagsmanna sinna? Gera má ráð fyrir, að yfirgnæfandi meirihluti þess fólks, sem var á Austurvelli eigi aðild að einhverju verkalýðs- eða launþegafélagi. En verkalýðshreyfingin þegir þunnu hljóði. Það heyrðist heldur ekki í henni í gær. Er svo komið, að forystumenn verkalýðshreyfingarinnar séu orðnir partur af hinni „ráðandi stétt“ á Íslandi og þess vegna þegi þeir?
Stöku sinnum heyrast aðrar raddir úr ranni verkalýðsfélaganna. Stundum frá Akranesi og stundum frá Húsavík. Það eru einhverjir uppreisnarmenn í forystu verkalýðsfélaganna þar, sem eru ekki alveg sáttir við stöðu verkalýðssamtakanna um þessar mundir.
Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar í gær, þriðjudag, benda til þess að hún skilji ekki hvað var að gerast á Austurvelli. Það dugar ekki til að friða fólk að kalla saman einn fund með stjórnarandstöðunni og hafa ekkert að segja á þeim fundi. Verði framhald á slíkum viðbrögðum ríkisstjórnar eru endalok hennar fyrirsjáanleg.
En það er umhugsunarefni fyrir forystumenn verkalýðsfélaganna að hið sama getur átt við um þá. Geri þeir sér ekki grein fyrir því, að þeirra staður er á Austurvelli en ekki í lokuðum herbergjum stjórnarráðsins verður einhvers konar bylting á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Og þá verða uppreisnarmennirnir á Akranesi og á Húsavík kannski í meiri hávegum hafðir.
Kannski ættu þau Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Arnbjörnsson að horfa saman á samtal Þórhalls Gunnarssonar við Ölmu Jenny Guðmundsdóttur, sem RÚV sýndi í gærkvöldi, þriðjudagskvöld.
Hafi átta þúsund manns á Austurvelli ekki dugað til þess að þau skilji hvað er að gerast á meðal fólksins í landinu er ekki útilokað að samtalið við Ölmu Jenny skili þeim árangri.
Þar er greinilega á ferð nýr forystumaður fólksins.
.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.