Pat Cox, evran og íslenzkir sambandsríkissinnar
Síðastliðinn miðvikudag flutti Pat Cox, fyrrum forseti Evrópusambandsþingsins, erindi í hátíðarsal Háskóla Íslands í boði regnhlífarsamtaka hérlendra Evrópusambandssinnar sem kalla sig Sterkara Ísland og Alþjóðamálastofnunar skólans. Fátt nýtt ef eitthvað mun hafa komið fram í máli Cox og ekkert sem ekki mátti eiga von á. Cox lofaði þannig meðal annars evruna eins og við var að búast og vildi meina að heimaland hans Írland væri að koma betur út úr efnahagserfiðleikum sínum en Ísland vegna hennar.
Daginn eftir var greint frá því í fjölmiðlum að samkvæmt úttekt þarlendra stjórnvalda hefði fasteignaverð á Írlandi lækkað um meira en 50% síðan efnahagserfiðleikarnir hófust og tugir þúsunda íbúða stæðu auðar. Þá mun þriðjungur írskra húsnæðislántakenda vera með neikvætt eigið fé, nær 14% atvinnueysi er þar í landi, fjöldi fólks hefur misst heimili sín, methalli er á ríkissjóði landsins, laun opinberra starfsmanna hafa verið lækkuð mikið og bankar landsins eru við það að hrynja í kjölfar þess að því var frestað fyrir tveimur árum.
Staðreyndin er sú að evran hefur verið Írum miklu frekar til trafala en hitt, bæði eftir að efnahagserfiðleikarnir hófu innreið sína og í aðdraganda þeirra. Evran átti þannig stóran þátt í því að gera erfiðleika Íra enn verri en þeir hefðu annars að öllum líkindum orðið. Írar hefðu til að mynda þurft mun hærri vexti en Seðlabanki Evrópusambandsins bauð upp á til þess að slá á þensluna í landinu í aðdraganda efnahagserfiðleikanna en fengu þá ekki. Tiltölulega lágir vextir bankans voru þannig olía á eldinn og mögnuðu stórlega upp erfiðleikana.
Cox hélt því einnig fram að Íslendingar hefðu meiri áhrif innan Evrópusambandsins en utan þess. Á sama tíma bárust fréttir af því í fjölmiðlum að Írar réðu því ekki sjálfir hvernig þeir stæðu að niðurskurði í ríkisrekstri sínum heldur væri það sambandið sem ætti síðasta orðið í þeim efnum. Með hliðstæðum hætti er fyrirkomulagið í flestöllum málum Íra og annarra ríkja Evrópusambandsins og sífellt fleiri. Yfirstjórnin er í Brussel og stærstur hluti fullveldis ríkja sambandsins er nú í höndunum á embættismönnum í hinum valdamiklu stofnunum þess.
Ríki Evrópusambandsins geta ekki talizt fullvalda í eigin málum og í bezta falli vantar sáralítið upp á að sambandið verði að einu ríki þó færa megi þung rök fyrir því að því takmarki hafi þegar verið náð. Það var því kannski við hæfi að íslenzkir Evrópusambandssinnar fengju Pat Cox til landsins sem er forseti evrópsku regnhlífarsamtakanna European Movement International en markmið þeirra er að Evrópusambandinu verði breytt í sameinað sambandsríki eða „united, federal Europe“ eins og það er orðað á heimasíðu þeirra.
Evrópusamtökin íslenzku sem eru elstu og sennilega stærstu samtök Evrópusambandssinna hér á landi eru aðilar að European Movement International og hafa um árabil verið í tengslum við þau samtök. Evrópusamtökin eru með öðrum orðum samkvæmt þessu samtök þeirra Íslendinga sem vilja að Evrópusambandið verði að einu ríki og Ísland verði einungis að einhvers konar héraði innan þess. Ekki má gleyma því að tilkoma evrunnar á sínum tíma var einmitt fyrst og fremst hugsuð sem pólitískt útspil og stórt skref í áttina að einu ríki.
Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur að mennt og stundar nám í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands. Hann hefur um árabil ritað greinar um stjórnmál í dagblöð, tímarit og á vefrit bæði innanlands og erlendis samhliða því sem hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan Sjálfstæðisflokksins og fleiri félagasamtaka
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.