Sunnudagurinn 28. febrúar 2021

Um Ísland, Bandaríkin, Írak og Afganistan


Styrmir Gunnarsson
28. október 2010 klukkan 10:14

Íraksstríðið og stuðningur ríkisstjórnar Íslands við það er foráðamönnum núverandi ríkisstjórnar hugstætt um þessar mundir. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur upplýst, að finna megi skjöl í utanríkisráðuneytinu, sem bendi til samtala á milli embættismanna í ráðuneytinu og sendimanna Bretlands og Bandaríkjanna hér áður en sú ákvörðun var tekin. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis hefur lýst áhuga á að efna til rannsóknar á því hvernig ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar varð til.

Bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi standa yfir miklar umræður um aðdraganda Íraksstríðsins og í Bretlandi er starfandi sérstök rannsóknarnefnd, sem vinnur fyrir opnum tjöldum. Þegar fyrrverandi ráðherrar og embættismenn eru yfirheyrðir er það gert í heyranda hljóði, sem er til fyrirmyndar.

Fyrir nokkrum dögum birtist á BBC viðtal, sem hin þekkta brezk-íranska fréttakona Christiane Amanpour átti við fyrrverandi formann bandaríska herforingjaráðsins, sem gaf sterklega til kynna, að ákveðin öfl innan Pentagon hefðu knúið fram ákvörðun um að hefja stríð á hendur Saddam Hussein. Og alla vega er ljóst, að þær meginforsendur, sem Bandaríkin og Bretland gáfu sér fyrir innrásinni í Írak, þ.e. að Saddam hefði komið sér upp gereyðingarvopnum eða væri á góðri leið að koma slíkum vopnum upp, stóðust ekki.

Ef einhver sérstök skjöl eru til, sem skýra betur ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar finnst mér sjálfsagt, að þau séu birt. Össur Skarphéðinsson hefur látið sem það skipti einhverju máli í þessu sambandi, að embættismenn í utanríkisráðuneytinu hafi ráðið frá því að innrásin yrði studd. Skiptir máli hvaða skoðun þeir höfðu? Það er auðvitað ljóst að þetta var ákvörðun, sem stjórnmálamenn hlutu að taka og bera ábyrgð á.

Ég bý ekki yfir neinum „innherjaupplýsingum“ (inside information) um það hvað að baki bjó. Hins vegar fannst mér og finnst augljóst af hverju sú ákvörðun var tekin, að Ísland styddi innrásina í Írak. Morgunblaðið studdi þá ákvörðun á sínum tíma eins og sjá má á ritstjórnarskrifum þess þá. Ég efast ekki um að sú afstaða hafi verið umdeild innan ritstjórnarinnar en harðasti gagnrýnandi þeirrar ritstjórnarstefnu var þó Hallgrímur B. Geirsson, þáverandi framkvæmdastjóri Árvakurs hf.

Hvers vegna studdi Morgunblaðið í minni ritstjóratíð þá afstöðu, sem íslenzka ríkisstjórnin tók?

Samskipti þjóða í milli byggjast ekki á vináttu. Þau byggjast á hagsmunum. Ef þú styður mig í þessu, skal ég styðja þig í einhverju öðru.

Þegar þarna var komið sögu höfðum við Íslendingar átt mikil og góð samskipti við Bandaríkin í áratugi. Viðurkenning þeirra á sjálfstæði Íslands var lykillinn að stofnun íslenzka lýðveldisins. Samstarf okkar við þá, bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og vegna varnarstöðvarinnar í Keflavík hafði margvísleg hliðaráhrif. Þegar Loftleiðir voru að byggja upp farþegaflutninga á milli Evrópu og Bandaríkjanna þurfti félagið mjög á velvild bandarískra stjórnvalda að halda. Hún var fyrir hendi. Þegar við stóðum í ítrekuðum þorskastríðum við Breta var það alltaf að lokum þrýstingur frá Washington, sem gerði það að verkum að Bretar gáfu eftir. Bandaríkin voru lykilaðili í því að tryggja yfirráð okkar yfir auðlindum hafsins. Jafnvel var það svo, að þegar við áttum erfitt með að selja skreið á erfiðleikaárunum milli 1967-1969 greiddi þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna persónulega götu okkar.

Bandaríkjamenn studdu okkar á þennan veg vegna þess, að þeir litu á það sem hagsmuni sína að standa með okkur. Við stóðum með þeim innan Atlantshafsbandalagsins og við tókum á okkur umtalsverð óþægindi og pólitískar deilur hér innanlands með því að veita þeim aðstöðu fyrir varnarstöð á Keflavíkurflugvelli.

Þegar innrásin var gerð í Írak voru samskipti Íslands og Bandaríkjanna í viðkvæmri stöðu. Þau vildu loka varnarstöðinni í Keflavík. Við töldum okkur berskjaldaða ef það yrði gert að fullu og öllu, þótt við gerðum okkur grein fyrir, að eðlilegt var að draga saman seglin miðað við það sem áður var.

Ég hef alltaf talið, að pólitískur stuðningur við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak, væri réttlætanlegur í ljósi áratuga samskipta okkar við Bandaríkin, sem báðir nutu góðs af. Þegar traustur bandamaður til margra áratuga leitaði eftir pólitískum stuðningi yrðu að vera mjög sérstök rök fyrir því að veita þann stuðning ekki og jafnframt mátti þá búast við að það hefði einhverjar afleiðingar. En vafalaust hafa þeir forystumenn Íslendinga, sem þessa ákvörðun tóku búizt við, að hún yrði ekki gleymd, þegar kæmi að frekari ákvörðun um varnarstöðina í Keflavík.

Þetta voru rökin að mínu mati. Það er sjálfsagt að rökræða þessa ákvörðun fram og til baka en æskilegt að þær umræður fari þá fram með málefnalegum hætti.

Hitt vekur athygli, að þeir sem nú gagnrýna pólitískan stuðning Íslands við innrásina í Írak virðast engar athugasemdir hafa við aðild okkar að stríðsrekstri Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. Þar er ekki bara um að ræða pólitískan eða formlegan stuðning við hernaðaraðgerðir bandalagsins heldur á köflum beina þátttöku í þeim, þótt sú þátttaka hafi að vísu verið með endemum.

Samfylkingin hefur stjórnað utanríkisráðuneytinu frá því vorið 2007. Þá var aðild Íslands að stríðinu í Afganistan orðin að veruleika en hvorki Ingibjörg Sólrún Gísladóttir né Össur Skarphéðinsson höfðu eða hafa haft uppi nokkra tilburði til þess að breyta um stefnu. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, hefur heldur ekki haft uppi tilburði til að knýja fram stefnubreytingu eða gera athugasemdir við þátttöku okkar.

Þó má færa rök fyrir því að ríkara tilefni hafi verið til gagnrýninna athugasemda við aðgerðir okkar í Afganistan heldur en við pólitískan stuðning við Íraksstríðið. Einu sinni var send íslenzk jeppasveit til Afganistan, sem átti að gegna einhverju sérstöku hlutverki þar. Þau rök voru færð á sínum tíma fyrir þessari ráðstöfun að við Íslendingar værum svo miklir sérfræðingar í að breyta jeppum og gera þá hæfa til margvíslegra svaðilfara. Þegar tölvupóstar fóru að berast frá jeppasveitarmönnum kom í ljós, að vopnabúnaður þeirra var mun meiri en gefið hafði verið upp hér heima. Með þessa tölvupósta var farið sem mannsmorð. Svo fór að lokum, að Geir H. Haarde, þáverandi utanríkisráðherra kallaði jeppasveitina heim. Ég hef alltaf furðað mig á hvað mál þetta vakti litla athygli alþingismanna og skipti þá ekki máli hvar í flokki þeir voru staddir.

Teppakaupaleiðangur Íslendinga, sem störfuðu á Kabúlflugvelli varð fréttaefni hér heima en svo var að sjá, sem það snerti ekki nokkurn þingmann, að tvær manneskjur biðu bana í árás, sem allar líkur eru á að ekki hefði verið gerð, hefði aldrei verið lagt í teppakaupaleiðangur.

Stuðningi við aðgerðir Atlantshafsbandalagsins hefur verið haldið áfram eftir að Samfylkingin kom í utanríkisráðuneytið og þess vegna ljóst að sá flokkur hefur verið ábyrgur fyrir þeim stuðningi í meira en þrjú ár. Vinstri grænir hafa setið í ríkisstjórn frá því í byrjun febrúar 2009 og ekki gert athugasemdir við þennan stuðning og eru því líka pólitískt ábyrgir fyrir aðild Íslands að stríðinu í Afganistan, eina stríðinu í veröldinni, sem við sem þjóð höfum haft uppi tilburði til að taka beinan þátt í.

Og rétt að taka fram vegna þess sem áður var getið um afstöðu Morgunblaðsins á þeim tíma til Íraksstríðsins að blaðið var mjög gagnrýnið á þátttöku og aðgerðir Íslendinga í Afganistan. En litlar undirtektir voru við þau sjónarmið, sem blaðið setti fram á þeim tíma, að Íslendingum bæri siðferðileg skylda til að greiða fjölskyldum stúlknanna tveggja, sem létu lífið í Kjúklingastræti skaðabætur.

Í ljósi ummæla Össurar Skarphéðinssonar um ráðgjöf embættismanna utanríkisráðuneytisins vegna Íraksstríðsins væri kannski ekki úr vegi að hann léti týna saman skjöl um ráðgjöf embættismanna varðandi jeppasveitina og atburðina í Kjúklingastræti.

Fyrir svo sem fjórum áratugum sagði stjórnmálamaður á vinstri væng íslenzkra stjórnmála við mig með nokkrum þunga: Hver hefur útnefnt Bandaríkin til þess að verða einhvers konar alheimslögregla? Hver hefur veitt þeim vald til þess að skipta sér af málefnum annarra þjóða?

Þessi spurning var fram borin vegna aðildar Bandaríkjamanna að Víetnamstríðinu og hún er kannski enn tímabærari í dag, þegar við fylgjumst með afskiptum þeirra af málefnum Íraks, Afganistan, Pakistan, Miðausturlanda og fleiri landa.

Margir okkar, sem studdum Bandaríkjamenn í gegnum þykkt og þunnt á dögum kalda stríðsins spyrjum sjálfa okkur .þeirrar spurningar, hvaða tilgangi afskipti þeirra af málefnum þessara ríkja þjóni.

Víglínurnar í kalda stríðinu voru skýrar. Við litum á Víetnamstríðið, sem beint framhald af og hluta af því. Að vísu fékk ég bakþanka eftir nokkurra vikna ferðalag í boði Bandaríkjamanna sjálfra um mörg ríki Bandaríkjanna sumarið 1967. Þá talaði ég við fólk í öllum landshornum. Ríkt fólk og fátækt fólk, íbúa fátækrahverfa og fólk, sem bjó við meira ríkidæmi en ég hafði áður kynnzt. Hvarvetna mættu mér efasemdir og bein andstaða við þátttöku Bandaríkjamanna í þessu stríði. Það var þessi andstaða almennings, sem leiddi til þess, að Lyndon Johnson gaf ekki kost á sér til endurkjörs í forsetakosningunum 1968.

Spurningin um Bandaríkin sem alheimslögreglu var réttmæt en við skulum samt ekki gleyma því, að stundum hefur verið til þeirra leitað um að gegna slíku hlutverki. Þegar átökin á Balkanskaga stóðu sem hæst og fréttir um fjöldamorð og fjöldanauðganir bárust þaðan sögðu sumir sem svo: af hverju eiga aðrir að skipta sér af þessum deilum. Er ekki bezt að þeir fái að drepa hvern annan í friði úr því að þeir endilega vilja?

Það fer hins vegar ekki á milli mála, að önnur Evrópuríki þoldu ekki tilhugsunina um það, sem var að gerast á Balkanskaga og vildu blanda sér í deilurnar og leysa málin. Þá kom í ljós, að þau höfðu ekki afl til þess. Þá voru Bandaríkjamenn kallaðir til. Um þessa sögu alla skrifaði Richard Holbrooke, sendimaður Bandaríkjastjórnar á Balkanskaga merka bók, sem nefnist: To End a War. Hann er nú sérstakur ráðgjafi Bandaríkjaforseta um málefni Afganistan og Pakistan.

Kjarni málsins er sá, að Bandaríkin voru eina ríkið í heiminum á þeim tíma, sem hafði afla til þess að setja niður deilurnar á Balkanskaga og stöðva manndrápin. Það gerðu þeir með peningum, hótunum og hervaldi.

Var rangt að kalla þá alheimslögreglu til? Var sjálfsagt að láta þetta fólk halda áfram að drepa og nauðga?

Sjálfsagt mundu fáir taka undir það í dag. En hvenær má og hvenær má ekki?

Saddam Hussein var ekkert betri. Undir hans stjórn var fólk pyntað og drepið. Sonur hans drap fólk eins og honum sýndist án þess að vera refsað fyrir það. Saddam Hussein var harðstjóri af sömu tegund og bæði Hitler og Stalín og sjálfsagt að halda því til haga, að undir stjórn Maos formanns voru fleiri drepnir í Kína en Stalín og Hitler náðu að láta drepa samanlagt.

En innrásin í Írak var ekki réttlætt með því að það þyrfti að koma í veg fyrir manndráp Saddams. Og augljóst, að Vesturlönd hafa ekki bolmagn til að láta að sér kveða alls staðar, þar sem morðóðir einræðisherrar eru á ferð.

Jafnvel þótt við kæmumst að þeirri niðurstöðu, að aðþjóðasamfélagið eigi að láta til sín taka, þar sem morðingjar komast til valda er augljóst, að í þessum efnum sem öðrum stjórna hagsmunir einstakra ríkja ferðinni. Bandaríkin sáu ekki ástæðu til að taka fram fyrir hendur herforingjanna í Argentínu, sem létu óþægilegt fólk týnast með því að henda því út úr flugvélum yfir Atlantshafi. Þau tóku heldur ekki fram fyrir hendurnar á Pinochet í Chile. Tilraunir til að stöðva tugmilljóna manndráp Maós formanns hefðu þýtt allsherjarstríð. Alheimslögreglan leggur ekki í þá, sem hún ræður ekki við. Og reynslan hefur sýnt, að Sameinuðu þjóðirnar duga ekki sem alheimslögregla.

Allar þjóðir eru sekar um tvöfalt siðferði í þessum efnum. Þegar Svíar töluðu sem hæst gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku seldu þeir hvítum mönnum þar í landi vopn, sem voru notuð til að berja á blökkumönnum. Bandaríkjamenn stöðvuðu á Balkanskaga svipaða meðferð á fólki og þeir létu átölulausa í sínum heimshluta.

Stuðningur íslenzku ríkisstjórnarinnar við innrásina í Írak var ekki endurgoldinn, þegar kom að varnarstöðinni í Keflavík. Þá kom í ljós, að þegar Bandaríkjamenn höfðu ekki lengur sjálfir hag af því að hafa hér varnarstöð var þeim nákvæmlega sama um hvað gerðist með þá, sem höfðu veitt þeim stuðning bæði hér og annars staðar. Þá lexíu þarf ekki að kenna okkur stuðningsmönnum Bandaríkjanna í hálfa öld nema einu sinni. Þeim, sem þannig haga sér verður ekki treyst aftur.

Eftir að hafa fylgzt með framvindu heimsmála síðustu 60 ár eða svo er mín niðurstaða sú, að það sé kominn tími til fyrir þjóðir Vesturlanda að láta fólk í öðrum heimshlutum í friði. Vilji þeir berjast sín í milli hljóti þeir að gera það án afskipta manna úr okkar heimshluta. Það er kominn tími til fyrir Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra að hverfa til síns heima.

Þá segja menn sem svo: en hvað um hryðjuverkamennina, sem herja á Vesturlönd? Fyrir nokkrum árum sat ég ráðstefnu í kastala á Suður-Englandi þar sem saman voru komnir embættismenn, stjórnmálamenn, fræðimenn o.fl. til þess að ræða stöðu heimsmála. Einn fyrirlesaranna vakti sérstaka athygli mína. Hann sagði efnislega: stríðið við hryðjuverkamenn vinnst ekki eða tapast í Afganistan eða Pakistan. Það gerist á götum stórborga beggja vegna Atlantshafsins. Í fátækrahverfum þeirra borga er gróðrastía hryðjuverkasamtaka. Þaðan koma nýir liðsmenn. Ekki úr borgum Arabaríkjanna.

Gorbachev, fyrrum leiðtogi Sovétríkjanna hefur rétt fyrir sér. Atlantshafsbandalagið getur ekki unnið stríðið í Afganistan. Spurningin er bara sú, hvort hersveitir þess komst þaðan og halda höfði eða hvort brottförin verður jafn niðurlægjandi og flótti Bandaríkjamanna af þaki bandaríska sendiráðsins í Saigon á sínum tíma.

Það sem að okkur Íslendingum snýr er þetta: Það er kominn tími til að við hættum þessum þykjustuleik í alþjóðapólitík, sem við sóum í bæði peningum og mannafla. Við eigum þangað ekkert erindi og höfum ekkert bolmagn til þess að láta að okkur kveða. Við erum fá og smá og höfum enga peninga handa á milli, sem skipta máli út í hinum stóra heimi. Sennilega getum við gert eitthvert gagn í fátækum ríkjum, sérstaklega í Afríku. Við kunnum að byggja upp skóla og vatnsból. Íslenzkir trúboðar 20. aldarinnar vísuðu veginn. Við eigum að feta í fótspor þeirra og hjálpa fátæku fólki að komast til bjargálna. Við eigum að geta verið sátt við það hlutskipti og verið sæmd af því.

Hvernig væri að Össur og Árni Þór beindu kröftum sínum í þá átt?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS