Mánudagurinn 27. júní 2022

Tifandi sprengjur aftengdar og enn leitað í 26 bögglum í Jemen

Frásögn The Daily Telegraph í London af böggla sprengjunum


1. nóvember 2010 klukkan 12:18

Báðar hryðjuverka-sprengjurnar sem fundust í síðustu viku höfðu verið fluttar í farangursými farþegaflugvéla, sem bendir til þess, að hryðjuverkamennirnir hafi ætlað að granda ferðamönnum í stað þess að sprengja „aðeins“ flutningavélar, eins og áður var talið.

Frá flugvellinum í Sana'a höfuðborg Jemen.

Í The Daily Telegraph er sagt frá því, að sprengja sem fannst á flugvellinum East Midlands í Bretlandi föstudaginn 29. október, hafi komið þangað með farþegaflugvél frá Jemen, áður en sprengju-böggullinn var settur um borð í UPS-flutningavélina. Sprengjan sem fannst í Dubai hafði verið um borð í tveimur Qatar Airways farþegaflugvélum, áður en hún fannst.

Þeir sem standa nærri rannsókn málsins í Jemen segja, að þar sem engar flutningavélar fljúgi reglulega frá landinu, hafi hryðjuverkamennirnir vitað, að sprengjurnar yrðu settar um borð í farþegavélar, að minnsta kosti hluta ferðarinnar.

Theresa May, innanríkisráðherra í Bretlandi, játaði því sunnudaginn 31. október, að sprengjan, sem fannst á East Midlands flugvellinum á leið til Bandaríkjanna, hefði getað sprungið í flugvél yfir Bretlandi, hefði hún ekki fundist, þar sem tímasetning á ferðum flutningavéla væri óregluleg.

Sprengjurnar voru faldar inni í tölvuprenturum og það var í raun ómögulegt að finna þær með gegnumlýsingu, í þeim voru lyktarlaus sprengiefni og klukkur tengdar þeim líktust búnaði prentaranna.

Sprengjunum var ætlað að springa í háloftunum og með þeim hefði verið unnt að granda flugvél á sama hátt og gerðist árið 1988 yfir Lockerbie í Skotlandi, þegar PanAm flug 103 véklin sprakk og 270 manns fórust.

Meira en helmingur af varningi, sem fluttur er flugleiðis til Bandaríkjanna, er um borð í farþegaflugvélum. Carlisle lávarður af Berriew, sem áður ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar í þágu hryðjuverkavarna, sagði eins líklegt og ekki, að böggla-sprengja færi um borð í farþegaflugvél.

„Sendi menn böggul með UPS veit sendandinn ekkert um flugvélina sem flytur hann. Það getur alveg eins verið farþegaflugvél,“ sagði lávarðurinn.

Ein böggla-sprengjan sem barst til Dubai hafði farið um Doha í Qatar með farþegaflugvél. Sprengjan sem fannst á East Midlands vellinum fór frá flugvellinum við Sana‘a, höfuðborg Jemen, í farþegavél. Líklegt er að sprengjan hafi einnig átt viðdvöl í Doha, áður en hún hélt til Kölnar í Þýskalandi og þaðan til Bretlands í flutningavél.

Eftir að yfirvöld í Jemen sögðu að verið væri að rannsaka 26 böggla þar, lét John Brennan, ráðgjafi Baracks Ombama í hryðjuverkabaráttunni, þau orð falla, að það væri mjög óhyggilegt að útiloka að fleiri sprengjur fyndust. Hann sagði sprengjurnar gerðar af þekkingu. Þær hefðu verið þannig úr garði gerðar, að hryðjuverkamennirnir réðu því, hvenær þær spryngju. Þær bæru þess merki að koma frá al-Kaída á Arabíuskaga (AQAP) með höfðustöðvar í Jemen þar sem Anwar al-Awaki, kennimaður, fæddur í Bandaríkjunum, væri meðal leiðtoga.

Líklegast er talið að Ibrahim Hassan al-Asiri hafi gert sprengjurnar. Hann gerði sprengjuna sem átti að nota í misheppnuðu flugvélaárásinni sem kennd er við Detroit og jólin.

Á bögglunum með sprengjunum stóð heimilisfanga tveggja samkunduhúsa gyðinga í Chicago og Hannan al-Samawi, 22 ára tölvunafræði stúdent var skráð sem sendandi. Hún var handtekin á laugardag en látin laus á sunnudag, þegar lögreglan sagðist leita að annarri konu sem er talin hafa sett bögglana í póst og notað skilríki al-Samawi.

Leynilegar upplýsingar sem leiddu til þess að upp komst um tilræðið kunnu að hafa borist frá Jabir Jubran al-Fayfi, fyrrverandi forystumanni innan al-Kaída á Arabíuskaga. Hann gaf sig fram við yfirvöld í Sádí Arabíu fyrir nokkrum vikum.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði að ríkisstjórn sín mundi gera allt í hennar valdi til að tryggja öryggi Breta. Forsætisráðuneytið þurfti hins vegar að verjast gagnrýni vegna þess að Cameron dró þangað til klukkan 18.00 laugardaginn 30. október – í 26 stundir frá því hann frétti fyrst af sprengjunum – að skýra frá málinu opinberlega.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og síðan Theresa May, innanríkisráðherra Breta, voru fyrst til að segja fréttina um að tifandi sprengjur hefðu fundist. Heimildarmenn í forsætisráðuneytinu segja, að Cameron hafi viljað að viðkomandi ráðherrar kæmu fram vegna málsins og hefðu forystu um viðbrögð.

Félag flugmanna sagðist um árabil hafa varað við því að skortur á eftirliti með varningi til flutnings um borð í flugvélum væri veikur liður í flugöryggi og hryðjuverkamenn kynnu að færa sér það í nyt.

Breska lögreglan liggur undir gagnrýni frá Bandaríkjunum fyrir að finna ekki sprengjuna á East Midlands flugvelli fyrr enn í annarri leit sinni.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS