Þegar bankahrunið varð haustið 2008 sögðu ýmsir ekki síst ESB-aðildarsinnar, að Íslendingar hefðu verið betur settir innan ESB. Þá hefði ríkið ekki þurft að eignast bankana. Þeim hefði mátt halda á floti með aðstoð Seðlabanka Evrópu (SE). Þarna sæju menn, hve illt væri að standa utan ESB og best kæmi það í ljós í samanburði við Íra. Þar væru bankar reknir áfram, án þess að ríkið þyrfti að eignast þá, enda væru Írar í ESB og með evru.
Í síðustu viku birti dálkahöfundurinn Matthew Lynn, sérfróður um bankahrunið og viðbrögð við því, grein í breska vikuritið Spectator, þar sem hann segir, að Íslendingar hefðu líklega tekið skynsamlegustu ákvörðunina við hrunið. Íslenska ríkið hafi ekki haft efni á því að dæla peningum í bankana haustið 2008 til að halda þeim gangandi. Þess í stað hafi ríkið slegið eign sinni á þá, innlendir innlánseigendur hafi verið verndaðir en erlendir lánadrottnar hafi verið látnir sigla sinn sjó. Allt öðru vísi hafi verið brugðist við í Bretlandi, Bandaríkjunum og Írlandi, þar sem ríkið hafi dælt milljörðum af skattfé almennings inn í fjármálastofnanir.
Lynn segir að íslenska aðferðin hafi ekki reynst sem verst. Vextir hafi lækkað og krónan sé tekin að styrkjast að nýju, hún hafi hækkað um 19% á þessu ári gagnvart evru. Í raun veki reynsla Íslendinga ógnvekjandi spurningu fyrir aðrar þróaðar þjóðir. Ef til vill hefðu þær ekki þurft að dæla svo háum fjárhæðum í banka sína. Ef til vill hefðu þær átt að láta þá fara á hausinn?
Hann telur að Íslendingar standi að mörgu leyti betur að vígi en Írar og Grikkir. Þeir séu jafnvel í betri stöðu en Bretar sem viti ekki hvað Royal Bank of Scotland eða Loyds-HBOS muni kosta þá að lokum. Íslendingar hafi sýnt að ekki sé endilega að dæla peningum inn í banka í vanda. Grein sinni lýkur hann á því að fylgdu Bretar í fótspor Íslendinga kynni efnahagur þeirra að lagast á tiltölulega skömmum tíma.
Ástæða er til að benda á þetta nú, þegar augljóst er, að Írum dugði ekki að vera innan ESB og hafa evru til að halda bankakerfi sínu gangandi. Tveimur árum eftir hrunið haustið 2008 eru þeir í þeim sporum, að neyðast til að sæta afarkostum, að eigin mati, af hálfu aðildarríkja ESB, framkvæmdastjórnar ESB, SE og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).
Þeir sem fylgst hafa með fréttum vita að vikum saman hafa Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, og Brian Lenihan, fjármálaráðherra Írlands, barið sér á brjóst og sagt, að undir forystu þeirra mundu Írar bjarga sér úr skuldavanda sínum af eigin rammleik. Þeir þyrftu enga aðstoð frá öðrum. Þeim hefði tekist að fjármagna írska ríkissjóðinn fram á mitt ár 2011.
Þessi rök írskra ráðamanna dugðu hvorki fyrir framkvæmdastjórn ESB í Brussel, stjórnendur SE í Frankfurt né fjármálaráðherra annarra evru-ríkja, svo að ekki sé minnst á ríkisstjórn Bretlands. Enginn þessara aðila er að hugsa um hagsmuni Íra heldur sína eigin, hvernig best sé að koma í veg fyrir að bankakreppan á Írlandi breytist í enn meiri vanda á evru-svæðinu, hvar eigi að reisa girðinguna til varnar því, sé það ekki gert á Írlandi. Írska ríkisstjórnin var einfaldlega knúin til þess að breyta um stefnu og leita ásjár hjá ESB, SE og AGS.
Hvað gerist þá á Íslandi? Fréttamaður RÚV ræðir við Ólaf B. Ísleifsson, hagfræðing, sem segir þann mun á stöðunni á Íslandi og Írlandi að Írar séu í ESB. Voru orð hans ekki skilin á annan veg en þann, að þar með væru Írar mun betur settir en Íslendingar. Með öðrum orðum Írar voru betur settir en Íslendingar haustið 2008, af því að þeir voru í ESB og gátu velt vandanum á undan sér. Írar eru betur settir en Íslendingar í nóvember 2010 þegar írska bankakerfið hrynur, af því að þeir eru í ESB.
Allir hljóta að sjá að eitthvað er bogið við þessa röksemdafærslu. Mesta meinið er að í báðum tilvikum er reynt að telja Íslendingum trú um að ESB hefði dregið úr þeirra eigin vanda vegna hrunsins. Fyrir slíkum fullyrðingum eru einfaldlega engin rök. Íslendingar völdu aðra leið en Írar til að leysa bankavandann.
Ef rökin um ágæti ESB í þessu tilliti væru fyrir hendi, ætti mikil gleði að ríkja meðal Íra um þessar mundi yfir því að embættismannavaldinu í Brussel og Frankfurt hefði tekist að leiða írsku ríkisstjórninni fyrir sjónir, að hún væri á rangri leið með því að biðja ekki um alþjóðlega hjálp.
Annað er uppi á teningnum á Írlandi. Fjölmiðlar þar segja að reiðibylgja fari um þjóðina. Hún hafi sést strax síðdegis á sunnudag þegar fréttir bárust af sinnaskiptum ríkisstjórnarinnar. Þá hefði fólk tekið að safnast saman til mótmæla fyrir fram írska stjórnarráðshúsið.
Í írskum blöðum segir að Írland hafi verið niðurlægt með kúvendingu ríkisstjórnarinnar og beiðninni um aðstoð.
Í The Irish Independent segir, að almenningur sé öskureiður yfir því hvernig ríkisstjórnin „laug“ um hina einstæðu þróun mála í síðustu viku.
Þegar fram líða stundir mun hagfræðingum örugglega þykja forvitnilegt að bera saman og draga ályktanir af ólíkum viðbrögðum íslenskra og írskra stjórnvalda við bankakreppunni og hvernig þjóðunum tókst síðan að vinna sig út úr henni. Miðað við að kreppan hófst haustið 2008 hefur Íslendingum vegnað betur en Írum til þessa, vegna þeirra ákvarðana sem ríkisstjórn Geirs H. Haarde, þegar hrunið varð.
Íslenski bankavandinn átti upptök sín í frjálsræði vegna aðildarinnar að evrópska efnahagssvæðinu. Þegar við skyldi brugðist var viðbragðskerfi samkvæmt þeim reglum ekki nógu öflugt. ESB-ríkin vilja kenna íslenskum stjórnvöldum um það, samanber Icesave-kröfur Breta og Hollendingar. Þegar írska bankakerfið er að hruni komið vegna ofvaxtar gagnvart írska hagkerfinu er hlaupið til og dælt meira fé inn í það á kostnað skattgreiðenda í Bretlandi og á evru-svæðinu. Trúa einhverjir að slíkt líðist til lengdar?
Vandi evru-svæðisins er óleystur, þótt kannski hafi tekist að reisa varnargarð í bili á Írlandi á kostnað evrópskra skattgreiðenda.
Að láta enn eins og Íslendingar væru betur settir innan ESB og með evru er sorglegur blekkingarleikur, jafnvel þótt hann sé stundaður í nafni hagfræðinnar.
Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.