eftir Roger Cohen
Er evran hið sama á 21. öld og Þjóðabandalagið var á 20. öld: góð hugmynd sem varð að pólitískum munaðarleysingja og var dæmd til að veslast upp?
Þegar Írland eltir Grikkland í mikla dómínó-leik neyðarlánanna, og Portúgal og Spánn eru á næsta leiti, er ekki unnt að telja evruna hafa eilíft líf bara vegna þess að fall hennar er sagt óhugsandi.
Bæði Þjóðabandalagið og evran urðu til fyrir veröld sem hvarf. Þjóðabandalagið reis árið 1919 úr rústum fyrri heimsstyrjaldarinnar í því skyni að koma í veg fyrir aðra styrjöld. Hugsjónir þess urðu fljótlega fórnarlamb öfgafullrar þjóðernisstefnu Hitlers. Sáttmáli bandalagsins dugði ekki til að halda aftur af breytingum í Evrópu.
Skýrsla Jacques Delors um efnahags- og myntbandalagið sem lagði grunn að einni evru-mynt var kynnt snemma árs 1989, einmitt um sömu mundir og allt gjörbreyttist.
Nokkrir mánuðir liðu þar til Berlínarmúrinn féll, Þýskaland var sameinað að nýju, Sovéska heimsveldið splundraðist og Evrópuþjóðirnar, sem fangelsaðar voru í Jalta, hlutu frelsi að nýju.
Í skýrslunni var tekið fram að „flytja þyrfti ákvörðunarvald“ frá aðildarríkjum til Evrópubandalagsins (nú sambandsins) „varðandi peningamálastefnu og stjórn efnahagsmála.“ Mynt þarf með öðrum orðum sérstaka pólitíska stjórn: Sagan kennir okkur það. Evran varð til í því skyni að fullkomna samruna Evrópuþjóða.
Lyktir kalda stríðsins urðu hins vegar til þess að ESB tók að stækka í stað þess að dýpka. 12 ríkja samfélag stækkaði í 27 ríki. Sameinað Þýskaland þurfti ekki lengur nýta sér Evrópu til að losna undan dapurlegri arfleifð Hitlers: Sam-Evrópuhyggja vék fyrir baunatalningu. Fyrrverandi kommúnistaríki sem höfðu verið peð valdhafa í Moskvu vildu ekki verða peð embættismanna í Brussel. Margþjóðamynt kom til sögunnar þegar vonin um sambandsríki Evrópu dvínaði.
Þetta er kveikjan að þjáningum evrunnar, nýjasta úrræðið til að lina þær er að veita Írum 113 milljarða dollara neyðarlán.
Í þessu sambandi má ekki gleyma ódýrum peningum frá Alan Greenspan, banvænu falli allrar eftirlitsmenningar í Bandaríkjunum, „nýju-kvarða“ vitleysunni þegar húsnæðislánabólan stækkaði og öllum klækja- og örvunarbrögðunum fyrir hrun, þegar rætt er um kreppuna í Grikklandi og Írlandi. Menn töpuðu hreinlega glórunni.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur einnig rétt fyrir sér, þegar hún segir að ekki sé unnt að halda áfram á 16 ríkja evru-svæðinu á sömu braut og áður með því að breyta tapi einkarekinna banka í skuldir skattgreiðenda og hefja leik með marga milljarði dollara sem sviptir menn siðferðislegri áhættu. (Gott og vel Bandaríkjamenn hafa líka hagað sér svona.) Eftir að komið var á fót 750 milljarða dollara neyðarsjóði fyrir evruna sem skapaði ekki neinn stöðugleika og nú eftir Írland, hverjum þarf næst að veita neyðaraðstoð?
Nei, eins og Merkel segir, einhver verður að láta klippa sig. Hún vill að evru-svæði 2.0 komi til sögunnar 2013 – og fjármálaráðherrar ESB-ríkjanna sögðu um síðustu helgi að fjárfestar slyppu ekki undan því að greiða sinn hlut eftir þann dag. Enginn segir það upphátt, en Merkel vill einhvers konar fjármálasamand ríkja til að tryggja að þau fari framvegis eftir sameiginlegum ríkisfjármálareglum eða sæti refsingu eins og skuldabréfaeigendur.
Merkel er rekin áfram af pólitískri nauðsyn. Hún er að reyna að svara spurningu Bild fjöldablaðsins: „Verðum við að borga fyrir alla Evrópu?“ Enginn verður reiðari en Þjóðverji sem óttast að fá ekki peningana sína. Hún er einnig, með leynd, að viðurkenna réttmæti þess sem fram kom hjá Delors að „flytja þurfi ákvörðunarvald“ til að þjóna evrunni.
Takið hins vegar eftir hve grunn, ómerkileg og illvíg viðbrögð Þjóðverja við evru-kreppunni hafa orðið!
Ég minnist þess ekki að hafa heyrt eitt orð frá Merkel um Evrópuhugsjónina, um það hvers vegna fórnir í þágu evrunnar séu hluti af siðferðilegri skuld Þjóðverja við Evrópu og framlag til sameinaðrar framtíðar hennar. „Falli evran, fellur Evrópa,“ segir hún. Bíðum við, en hvað er Evrópa í augum Frau Bundeskanzlerin? Byrði, að því er virðist, ráðgáta – allt annað en hugsjón.
Þess vegna er engin furða þótt Delors hafi varpað frekar niðrandi spurningu fyrir Þjóðverja í október, þegar hann spurði: „Eru gildin sem við erfðum frá feðrum Evrópu enn í heiðri höfð?“ Nei, þau hafa vikið fyrir skömm Þjóðverja á „evru-syndurum“. Þessir „syndarar“ eiga ekki að þola atvinnuleysi og niðurskurð upp á krít frá þýsku skólastýrunni.
Merkel hefur rétt fyrir sér varðandi evru-svæði 2.0 en þar með fer hún siðferðilega á svig við Evrópu, hún gerist and-Delors. Það veldur mér áhyggjum. Faust-samkomulagið sem Þjóðverjar gerðu til að geta sameinast að nýju var að kasta ástkæru Deutsche mark sínu fyrir róða og taka upp evru. Nú er evran á ábyrgð ráðamanna í Berlín. Þjóðverjar verða að auka neyslu sína, nöldra minna og sýna meiri stórhug.
Gerist þetta ekki verður greiðsluþrot á evru-svæðinu og nokkrir útlimir þess verða skornir af því.
Auðvitað er rétt að Arkansas varð gjaldþrota en dollarinn lifði. Bandaríkin stóðu að baki eigin mynt.
Þarna er munurinn. Aldrei fyrr hafa Bandaríki Evrópu verið mynduð, um hálfum milljarði manna smalað saman undir merkjum „sífellt nánara sambands“ en ekki með valdi. Á sinn hátt er það hvetjandi markmið og verkefni fyrir allt mannkyn; þess vegna er fráleitt að ætla að unnt sé að gera það áfallalaust.
Já, Þjóðabandalagið varð að engu en það mótaði jarðveginn fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Evran kann að gufa upp en hugmyndin er of góð til að henni verði ekki að nýju fylgt fram af þrótti. Milli Þjóðabandalagsins og Sameinuðu þjóðanna urðu þjóðir að þola miklar hörmungar. Héðan til evru 2.0 verður ferðalagið ekki skemmtilegt.
+Roger Cohen hefur verið blaðamaður á The New York Times síðan 1990, dálkahöfundur The International Herald Tribune frá 2004 og The New York Times frá 2009.
Þessi grein birtist The New York Times 30. nóvember 2010+
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.