Fimmtudagurinn 30. júní 2022

Þjóðin á að hafa síðasta orðið um Icesave


Styrmir Gunnarsson
3. febrúar 2011 klukkan 07:53

Stundum eru pólitískar línur mjög skýrar. Það eru þær, þegar hér er komið sögu í Icesave-málinu svonefnda. Það mál var komið til þjóðarinnar. Hún hafnaði með afgerandi hætti þeim ákvörðunum, sem meirihluti Alþingis hafði tekið í málinu. Þar með er auðvitað ljóst, að Alþingi getur ekki tekið nýja ákvörðun í sama máli. Alþingi verður að sýna þjóðarviljanum þá virðingu að leggja nýtt samkomulag um Icesave undir þjóðaratkvæði.

Í þessu ljósi er erfitt að skilja þá afstöðu, sem þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis hafa tekið til málsins ásamt formanni flokksins og vafalaust meirihluta þingflokksins. Hvers vegna leggja þessir þingmenn ekki til að nýr Icesave-samningur verði lagður undir þjóðaratkvæði eins og sjálfsagt er? Hvers vegna flytur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sem heild ekki slíka tillögu á þingi?

Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem vilja styðja hið nýja Icesave-samkomulag eru að sjálfsögðu frjálsir af því. Þeir geta fylgt sannfæringu sinni eftir með því að berjast fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu að það verði samþykkt. Svo eiga þeir það við flokkssystkini sín og stuðningsmenn, hvort þeir fá áframhaldandi traust til þess að sitja á Alþingi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins en það er annað mál.

Í upphafi umræðna um Icesave-málið í kjölfar hrunsins voru margir á báðum áttum um það hvað gera skyldi. Smátt og smátt kom í ljós, að Ísland hafði aldrei undirskrifað neina samninga, sem gerði það að verkum, að þjóðin hefði tekið á sig alþjóðlegar skuldbindingar um að skattgreiðendur á Íslandi tækju að sér að greiða skuldir einkafyrirtækis við fólk í öðrum löndum. Sterkasta lögfræðilega röksemdafærslan fyrir þeirri skoðun kemur fram í gagnmerkum kafla í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um þetta mál. Það lögfræðilega mat, sem þar kemur fram hefur hlotið stuðning víða um lönd.

Meginstraumar í umræðum um fjármálakreppuna beggja vegna Atlantshafs en ekki sízt í Evrópu hafa verið á þann veg, að skattgreiðendur eigi ekki að greiða skuldir bankanna. Megintónninn í umræðum um umbætur á bankakerfinu í Evrópu hafa verið á þann veg, að með þeim umbótum eigi að koma í veg fyrir í eitt skipti fyrir öll, að skattgreiðendur þurfi að greiða skuldir, sem einkafyrirtæki stofna til. Fremstir í flokki eru Þjóðverjar en pólitískir leiðtogar Þjóðverja hafa aftur og aftur ítrekað að það sé ekki hlutverk skattgreiðenda í Þýzkalandi að greiða töp annarra.

Þetta eru grundvallaratriðin. Svo geta menn rætt það hér á Íslandi hvort skynsamlegt sé að gera samninga og axla einhvern hluta af þeirri byrði, sem hér er um að ræða á þeirri forsendu að með því vinnist meira en tapast. Um það eru augljóslega skiptar skoðanir.

Kjarni málsins er hins vegar sá, sem alþingismenn verða að horfast í augu við, að þegar einu sinni er búið að vísa málinu til þjóðarinnar er það lýðræðisleg krafa almennings í þessu landi að hann fái að hafa síðasta orðið.

Það eru meiriháttar pólitísk mistök hjá meirihluta þingflokks Sjálfstæðisflokksins og forystu þess flokks að gera sér ekki grein fyrir þessu. Þess vegna er nú að rísa bylgja andstöðu innan flokksins vegna þessarar afstöðu meirihluta þingflokksins.

Þingflokkurinn getur enn bætt fyrir þessi mistök með því að flytja tillögu á Alþingi um að þjóðin taki þessa ákvörðun sjálf. Á hvorn veg sem sú ákvörðun færi yrði ekki um hana deilt eftir það.

Það skiptir líka máli, þegar horft er til framtíðar.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS