Forysta Sjálfstæðisflokks og meirihluti þingflokks standa frammi fyrir vanda. Það má endalaust deila um hversu mikill og djúpstæður sá vandi er. Augljóst er, að unga fólkið í flokknum hefur risið upp gegn ákvörðun þessara aðila í Icesave-málinu. Það má sjá af viðbrögðum Sambands ungra Sjálfstæðismanna, Heimdallar og ungra sjálfstæðismanna á Akureyri og Suðurlandi. Kannski má segja, að einörð afstaða Unnar Brá Konráðsdóttur, alþingismanns sýni þessi viðbrögð yngra fólks í hnotskurn.
Þótt þeir sem eldri eru fari sér hægar fer þó ekki á milli mála, að einnig í þeirra hópi er mikil andstaða við ákvörðun formanns flokksins og meirihluta þingflokks. Sú andstaða nær inn í þingflokkinn, þótt enn sem komið er hafi þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem eru andvígir þessari afstöðu ekki haft sig mikið í frammi – nema kannski með því að láta ekki sjá sig mikið í þingsal í umræðum um málið.
Augljóst er að innan Sjálfstæðisflokksins hafa frá upphafi verið uppi þær skoðanir, að þjóðin ætti að axla þær byrðar, sem fylgdu Icesave á þeirri forsendu að á annan veg yrðum við ekki gjaldgeng í samfélagi þjóða um langa hríð. Þeir, sem þannig hafa hugsað eru sennilega flestir úr viðskiptalífinu.
Ég hef áður lýst þeirri skoðun hér á þessum vettvangi að flokksforystan og meirihluti þingflokks hafi gert meiri háttar pólitísk mistök með ákvörðun sinni. Að auki má færa fyrir því sterk rök, að sömu aðilar hafi gert mikil mistök í kynningu málsins. Að fundurinn, sem haldinn verður í Valhöll í dag, hefði átt að fara fram fyrr í vikunni og að fyrst hefði átt að kynna þessa afstöðu forystu og meirihluta þingflokks á slíkum opnum fundi með almennum flokksmönnum. Nú á tímum, þegar svo mikið er lagt upp úr tengslum við almenning, sem raun ber vitni og þau tengsl lykilatriði í stjórnmálastarfi er eftirtektarvert að ný og ung kynslóð forystumanna Sjálfstæðisflokksins skuli falla á því prófi. Þegar á annað borð hefur verið tekin grundvallarákvörðun í mikilsverðu pólitísku máli, sem fyrirsjáanlegt er að mun valda deilum í flokki eins og Sjálfstæðisflokknum ætti að vera ljóst að fyrsta mál á dagskrá er hvernig, hvenær og með hvaða hætti almennum flokksmönnum er kynnt svo umdeilanleg ákvörðun og stefnumörkun. Nú er Sjálfstæðisflokknum stjórnað af kynslóð, sem ætla mætti að hefði meiri skilning á þessu en þeir sem eldri eru.
Raunar er fundurinn í Valhöll í dag ekki eini fundurinn, sem efnt er til nú um helgina á vegum Sjálfstæðisflokksins. Slíkur fundur hefur verið boðaður í Kópavogi fyrir hádegi, Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum koma saman til fundar í dag, þar sem þessi mál koma vafalaust til umræðu og ýmislegt bendir til að þingmennirnir séu að reyna að gera útrás frammi fyrir mótmælaöldu, útrás, sem kemur nokkrum dögum of seint.
Forystumenn og meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins bera ekki bara ábyrgð gagnvart þjóðinni. Þeir bera líka tilfinningalega ábyrgð gagnvart eigin flokksmönnum, sem eiga kröfu á skýringum.
En hvað um það. Það er ekki bara á hátíðastundum, sem það á við, að stjórnmálamenn eigi að fylgja sannfæringu sinni. En um leið verða þeir að horfast í augu við pólitískan veruleika, ef sú sannfæring er ekki í takt við sjónarmið þorra flokksmanna þeirra.
Forysta og meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins eiga enn kost á því að ná sáttum við þá flokksmenn sína, sem eru andvígir þeirri afstöðu, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis og formaður flokksins hafa lýst. Leiðin til þess er að styðja tillögu, sem líklegt má telja, að komi fram á Alþingi um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave III. Enginn þeirra aðila, sem hafa tjáð sig um málið, hvorki Bjarni Benediktsson né aðrir hafa lýst sig andvíga þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir geta því staðið við þá afstöðu, sem þeir hafa lýst en jafnframt tjáð sig reiðubúna til að styðja þjóðaratkvæði, þannig að þjóðin sjálf hafi síðasta orðið um málið.
Í Morgunblaðinu í dag útilokar Bjarni Benediktsson ekki að fara þessa leið og einn af fulltrúum flokksins í fjárlaganefnd, Kristján Þór Júlíusson, hvetur beinlínis til þess.
Það er engin mótsögn í því að styðja tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt þingmenn hafi lýst stuðningi við það samkomulag sem fyrir liggur. Þeir sömu þingmenn munu þá væntanlega berjast fyrir sannfæringu sinni í aðdraganda slíkrar atkvæðagreiðslu og ekkert við það að athuga.
Það væri líka styrkur í því fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sýna, að honum sé full alvara með því að færa stefnu sína og störf nær þeim sjónarmiðum, sem uppi eru í samfélaginu, að almennir kjósendur eigi í ríkara mæli að taka beinan þátt í ákvörðunum, sem varða hagsmuni þeirra miklu.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.