Miðvikudagurinn 20. janúar 2021

VALD FÓLKSINS


Styrmir Gunnarsson
12. febrúar 2011 klukkan 08:16

Það hefur óneitanlega verið athyglisvert að fylgjast með atburðunum í Egyptalandi síðustu daga og vikur. Með friðsömum mótmælum dag eftir dag í nær þrjár vikur hefur fólkið í Egyptalandi knúið frá völdum forseta, sem þar hefur setið í 30 ár og hafði á bak við sig bæði her og lögreglu. Er til skýrara dæmi á okkar tímum um það vald, sem fólk getur haft sýni það samstöðu og fer með friði?

Kannski má segja að síðasta sambærilega dæmið sé þegar Berlínarmúrinn féll. Þar breiddust tiltölulega fámenn en reglubundin mótmæli út í allsherjarmótmæli, sem íbúar Austur-Þýzkalands tóku nánast allir þátt í. Yfirráð kommúnista yfir her og lögreglu í Austur-Þýzkalandi dugðu ekki. Þeir gáfust upp frammi fyrir mannfjöldanum.

Á bak við tjöldin í Kaíró hafa áreiðanlega verið miklar sviptingar síðustu daga og vikur. Líklegt má telja að Mubarak hafi á fimmtudagskvöld fengið eitt tækifæri enn til þess að hafa áhrif á almenning með sjónvarpsávarpi. Þegar það dugði ekki hafi öllum verið ljóst að leiknum var lokið.

Lýðræðisbyltingin í Egyptalandi sýnir VALD FÓLKSINS í hnotskurn.

Og vonandi verður þetta lýðræðisbylting. Það reyndist ekki verða það, þegar nokkrir ungir liðsforingjar í egypska hernum steyptu Farouk, Egyptalandskonungi af stóli á árinu 1952 og settu vinsælan hershöfðingja í hans stað til að byrja með, Naguib. En hann var ekki lengi við völd. Gamal Abdel Nasser tók völdin sjálfur síðla árs 1953. Helzta afrek hans var að ná yfirráðum yfir Súez-skurði úr höndum Breta 1956, sem innsiglaði fall brezka heimsveldisins.

Frá falli Farouks hefur herinn ráðið ríkjum. Gerist það aftur eða tekur lýðræðið við? Það á eftir að koma í ljós.

Við Íslendingar höfum litla reynslu af því að almenningur taki völdin í sínar hendur. Þó má segja, að götumótmæli í ársbyrjun 2009 hafi átt mestan þátt í að ríkisstjórn Geirs H. Haarde fór frá völdum. Og ljóst að þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fyrir ári var afgerandi áfall fyrir þann meirihluta Alþingis, sem hafði samþykkt lög, sem þjóðin hafnaði.

Það er erfitt að meta pólitíska stöðu á þeirri stundu, þegar miklir atburðir gerast. Mubarak og ráðgjafar hans hafa greinilega verið sambandslausir við grasrótina í Egyptalandi. Það gerist þegar menn hafa verið lengi við völd.

Hið sama hefur áreiðanlega átt við um innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins haustið 2008. Hann hefur verið orðinn sambandslaus við grasrótina og ekki áttað sig á stöðu mála. Það er ekki ástæða til að gagnrýna þá fyrir það. Hver og einn getur horft í eigin barm og velt fyrir sér eigin mati á stöðu mála þá.

Auðveldara er að gagnrýna þann meirihluta stjórnarflokkanna, sem samþykkti Icesave á Alþingi í lok árs 2009. Svo miklar umræður höfðu orðið um Icesave að þeir áttu að vita betur.

En það er vissulega íhugunarvert að þessa dagana virðast fulltrúar flestra stjórnmálaflokka á Alþingi vera að taka höndum saman um að afgreiða sjálfir mál, sem komið var úr þeirra höndum til þjóðarinnar til ákvörðunar. Nú virðast þeir ætla að taka ákvörðunarvaldið í sínar hendur aftur með þeim rökum að það sé sjálfsagt af því að það verði svo mikill meirihluti fyrir því á Alþingi. Og ekki auðvelt að sjá skoðanamun á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í því mati.

Þingmenn, sem þannig bregðast við eftir það sem á undan er gengið hafa enga afsökun fyrir því að vera orðnir sambandslausir við umhverfi sitt. Þeir vita ósköp vel að þeir eru að sýna fólkinu í landinu fullkomið virðingarleysi með því að ætla að afgreiða málið án samráðs við þjóðina alla – það fólk sem á að borga.

Þetta er athyglisvert dæmi um samtryggingu stjórnmálaflokka, sem lengi hafa skipt völdum á milli sín.

Það geta fleiri en Mubarak orðið áttavilltir.

Kannski þurfa þeir að horfast í augu við VALD FÓLKSINS til þess að ná áttum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS