Mánudagurinn 1. mars 2021

Lífskjörum finnskra bænda hrakar stöðugt


Sveinn Eldon
16. mars 2011 klukkan 14:30

Talsmenn Evrópusambandsins segja Íslendingum oft tröllasögur af góðri afkomu finnskra bænda. Þeir hafa nú gengið svo langt að nota unga íslenska fræðimenn til að staðfesta að þeir fari með rétt mál. Jafnvel þótt þessar sögur væru sannar þá er erfitt að sjá af hverju afkoma finnskra bænda ætti að sannfæra íslenska bændur um að hag þeirra sé best borgið innan sambandsins.

Finnland og Ísland eru mjög ólík lönd um loftslag og landshagi og landbúnaður ólíkur í löndunum. Þó vetur sé langur í báðum, minnir finnskur vetur ekki um margt annað en snjó á þann íslenska, enda rúmur þriðjungur Finnlands fyrir norðan heimskautsbaug. Sumur eru gjörólík, hin finnsku hlý, jafnvel allra nyrst í landinu. Búgreinar eru aðrar. Finnskir bændur hafa verulegan hluta af tekjum sínum af skórækt og kornrækt. Aðrar búgreinar eru svínarækt, hænsnarækt, kalkúnarækt, loðdýrarækt, grænmetisrækt og nautgriparækt (mest mjólkurframleiðsla). Í Lapplandi stunda lappar hreindýrarækt. Löppum sem stunda hreindýrarækt fækkar hratt og er nú skortur á hreindýrakjöti, þótt framleiðsla þess hafi ekki enn dregist verulega saman.

Afkoma bænda í öllum þessum búgreinum hefur stórversnað undanfarin ár. Hvort Evrópusambandinu einu er þar um að kenna skal ósagt látið, en víst er að hagur bænda versnaði eftir að Finnland gekk í ESB. Lausnir til að bæta kjör finnskra bænda verða nú að hljóta náð og samþykki embættismanna í Brussel. Þeir hafa enga þekkingu á landbúnaði í Finnlandi. Samskipti bænda og skriffinna í Helsinki voru oft erfið fyrir ESB aðild en sá var þó munur á að flestir þessara skriffinna höfðu alist upp í finnskri sveit og höfðu því skilning á vandamálum finnsks landbúnaðar.

Ýmsar aðferðir eru notaðar til að meta tekjur bænda, en sama er hvaða aðferð er notuð í Finnlandi niðurstaðan er ætíð sú sama: Tekjur finnskra bænda hafa lækkað verulega síðan Finnland gekk í ESB. Samkvæmt nýjustu tölum finnsku hagstofunnar eru laun bóndans nú rétt rúmar 5 evrur eða 800 íslenskar krónur á unna klukkustund. Þetta eru miðgildislaun og hafa því jafnmargir lægri laun og hærri laun. Það tekur því bóndann klukkustund að vinna fyrir bensíni eða olíu sem dugir til að aka bæjarleið! Tekjur bóndans námu 1994, árið fyrir inngöngu í ESB, rúmum helmingi af tekjum finnsk verkamanns, en nema nú tæpum fjórðungi af sömu launum. Augljóst er hvað hefur gerst eftir inngöngu í ESB, tekjur verkamanna hafa hækkað en tekjur bænda hafa lækkað verulega.

Á þriðjungi af finnsku býlum eru bændur í hluta starfi við annað en búskap, oftast nær við eitthvað sem tengist búskap eða þjónustu við búskap. Þetta hlutfall hefur vissulega farið hækkandi en erfitt er að gera því skóna að það sé ESB að þakka því sama þróun átti sér stað fyrir inngöngu.

Býlum hefur fækkað úr tæplega eitt hundrað þúsund í tæplega sextíu og fimm þúsund, eða um rúman þriðjung. Meðalbýlið hefur reyndar stækkað og er nú þrjátíu og fimm hektarar af ræktanlegu landi, en var tuttugu og þrír hektarar 1995. Meðalmjólkurbýlið hefur í dag 25 mjólkandi kýr en hafði 12 1995. Bændum og þeim sem unnu við landbúnaðarstörf hefur fækkað úr 120 þúsund 1995 í tæp 60 þúsund. Mjólkurbýlum hefur fækkað um 7% á ári síðan 1995. Framleiðsla nautakjöts hefur á sama tíma dregist saman um 17%. Afurðaverð féll 40% - 60% strax eftir aðild 1995 þegar innflutningur á landbúnaðarvörum var gefinn frjáls. Niðurgreiðslur nema nú allt að 60% af verði afurða en námu 10% 1995. Rúmlega 40% af þessum niðurgreiðslum koma úr sjóðum ESB en afgangurinn er greiddur af finnska ríkinu.

Það er ekki stefnu ESB í landbúnaðar og byggðamálum að þakka að fleiri finnsk býli hafa ekki lagst í eyði, ekkert bendir til þess. Fremur er það að þakka þrjósku finnska bóndans. Tregða bóndans til að láta verk forfeðranna fara í súginn og ást hans á jörðinni og heimahögum. Enginn sem hefur séð finnskt land rutt og breytt í akur (þó með nútímatækni sé) gengur í grafgötur um hvílíkt feiknar erfiði var að brjóta landið með handafli einu, handsög, haka og skóflu að vopni. Það gat tekið mörg ár að breyta einum hektara lands í akur. Slíka akra láta bændur ekki í órækt fyrr en í fulla hnefana.

Við þetta má svo bæta ýmsum hagfræðilegum og félagslegum staðreyndum. Atvinnuleysi hefur lengi verið mikið í Finnlandi og er enn. Samkvæmt síðustu tölum er það nú tæp 9%. Raunverulegt atvinnuleysi er þó mun meira, því að fólk í atvinnuleit er einungis skráð í atvinnuleit tímabundið (tvö ár), síðan er það umskráð sem eftirlaunaþegar eða öryrkjar. Raunverulegt atvinnuleysi er varla undir 14%. Að auki er vinnu helst að fá í þéttbýli þar sem húsnæðisverð er hátt, svo að vægt sé til orða tekið. Eins og geta má nærri er erfitt að selja jarðir og lágt verð fæst fyrir þær.

Þrátt fyrir að hagur finnskra bænda hafi versnað eftir inngöngu Finnlands í ESB, blómstrar matvælaiðnaðurinn og verslunin skilar hærra arði en fyrir inngöngu. Hlutur bóndans í matvælaverði hefur minnkað verulega en hlutur verslunar og annarra milliliða aukist að sama skapi. Fyrirtækjum í matvælaiðnaði fækkar en þau stækka. Nú eru einungis fáein sláturhús eftir í landinu og flutningur á dýrum til slátrunar er orðinn að stóriðnaði. Sömu sögu er að segja um verslun með matvæli, sem nú er að mestu í höndunum á tveimur verslunarkeðjum. Þessi þróun er einmitt samkvæmt kokkabókum ESB sem vill færri og stærri einingar á öllum sviðum mannlegs lífs. Hvað höfum við íslendingar þagnað að sækja eða vilja?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Nafn: Sveinn Eldon Fæddur í Reykjavík 1950 Heimspekingur og hagfræðingur að mennt. Hefur starfað sem háskólakennari bæði á Íslandi og í Finnlandi þar sem hann starfar nú.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS