Miðvikudagurinn 29. júní 2022

Sjálfstæðis­flokkurinn var ekki stofnaður í þágu sérhagsmuna


Styrmir Gunnarsson
19. maí 2011 klukkan 10:08

Hér fer á eftir ræða sem flutt var á fundi Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins í Valhöll, miðvikudagskvöld 18. maí:

Sjálfstæðisflokkurinn á í alvarlegum pólitískum erfiðleikum. Það þarf engum að koma á óvart í ljósi þess, sem hér hefur gerzt síðustu ár. Verra er að fram til þessa hefur flokkurinn lítið gert til þess að endurskoða og endurnýja stefnu sína í ljósi hrunsins og aðdraganda þess. Viðunandi staða í skoðanakönnunum um þessar mundir má ekki verða til þess að flokkurinn telji sér trú um að hann hafi endurheimt traust kjósenda á ný. Það gerist ekki í kosningum nema flokkurinn hafi fram að færa trúverðuga stefnu og afstöðu til þess hvernig á að byggja upp samfélag okkar á 21. öldinni.

Mín skoðun er sú, að hrunið hafi afhjúpað veikleika í þjóðfélagsgerð okkar, sem Sjálfstæðisflokkurinn verði að horfast í augu við og takast á við vilji hann halda stöðu sinni í íslenzkum stjórnmálum. Þessir veikleikar snúa að samspili fámennis, kunningsskapar, sérhagsmuna og stjórnmála. Þeir þýða í raun að þjóðfélag okkar hefur verið í klóm sérhagsmuna.

Áhrifaríkasta leiðin til þess að brjóta þá sérhagsmuni á bak aftur er að taka upp beint lýðræði, þar sem þjóðin sjálf taki ákvarðanir um öll meginmál í þjóðaratkvæðagreiðslu og íbúar einstakra sveitarfélaga með sama hætti.

Sérhagsmunaöfl geta með ýmsum hætti haft áhrif á alþingismenn, borgarfulltrúa, bæjarfulltrúa og aðra sveitarstjórnarmenn. Þeir geta haft áhrif á ákvarðanir þessara aðila með fjárstuðningi, með loforðum um stuðning í prófkjörum eða hótunum um andstöðu í prófkjörum. Sérhagsmunaöfl geta hins vegar ekki haft áhrif á þjóðina alla, þótt þau geti auðvitað reynt að hafa áhrif á hana í aðdraganda kosninga.

Í samfélagi okkar kemur upp hvert málið á fætur öðru, sem þjóðin er margklofin í afstöðu til. Stundum er eins og baráttan hætti aldrei eins og t.d. gegn Kárahnjúkavirkjun. Hefði sú virkjun verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu var málið afgreitt. Við höfum í á þriðja áratug rifizt um kvótakerfið. Hefði þjóðin tekið afstöðu til þess hvernig stjórna ætti fiskveiðum í almennri atkvæðagreiðslu var ekki lengur um neitt að rífast.

Icesave-málið er skýrt dæmi um þetta. Þjóðin hefur kveðið upp sinn dóm í því máli og það vogar sér enginn að draga þann dóm í efa.

Krafa búsáhaldabyltingarinnar var aukið lýðræði. Þótt sú bylting hafi hrakið frá völdum ríkisstjórn, sem sat undir forystu Sjálfstæðisflokksins er ég ekki þeirrar skoðunar að flokkurinn eigi að gera lítið úr henni. Þvert á móti tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að líta á búsáhaldabyltinguna sem boðskap frá þjóðinni um að hún muni styðja þá sem skilja hvað hún var að reyna að segja.

Krafa hennar var um aukið lýðræði - um beint lýðræði.

Endurnýjun flokka og stefnumála þeirra fer ekki fram með breytingum á afstöðu til dægurmála. Hún fer fram með þeim hætti að flokkar skynja þá strauma, sem eru að brjótast um í þjóðardjúpinu. Það er mín sannfæring, að þeir straumar nú séu krafan um beint lýðræði og að sá flokkur eða þeir flokkar, sem verða fyrstir til að gera það grundvallarmál að sínu muni nái trausti fólksins í landinu. Þessi krafa snýst í raun um að færa völdin frá flokkunum til fólksins.

Hvaða flokki stendur það nær en þeim flokki sem í 80 ár hefur staðið í fylkingarbrjósti baráttunnar fyrir lýðræði og frelsi og gegn einræði og kúgun?

En við skulum heldur ekki gleyma því að stjórnmálaflokkur, sem skynjar ekki strauma nýrra tíma hefur lokið hlutverki sínu og hverfur af vettvangi.

Þetta eru meginrök mín fyrir því, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að taka forystu um að gera beint lýðræði að grundvelli stjórnskipunar íslenzka lýðveldisins á 21. öldinni. Raunar finnst mér að það sé prófsteinn á það, hvort flokkurinn skilji kall tímans hvort hann gerir það á næsta landsfundi sínum, svo að eftir verði tekið.

Sömu rökin og eiga við um beint lýðræði á landsvísu og í sveitarstjórnum eiga við um Sjálfstæðisflokkinn sjálfan og starfshætti hans og raunar um fleiri almannasamtök.

Ég er þeirrar skoðunar að skipulag Sjálfstæðisflokksins sé orðið úrelt. Það byggir á sömu grunnhugsun og fulltrúalýðræðið og er þar af leiðandi í sömu hættu og það að verða sérhagsmunum að bráð.

Við skulum horfast í augu við að öflugir sérhagsmunahópar hafa haft gífurleg áhrif innan Sjálfstæðisflokksins. Hagsmunasamtök útgerðarmanna hafa alla tíð haft mikil áhrif í flokki okkar og hið sama á við um hagsmunasamtök atvinnurekenda í verzlun. Sennilega voru áratugirnar frá 1950 og fram yfir 1970 blómatími verkalýðshreyfingarinnar sem áhrifaafls í flokki okkar.

Nú er kominn tími til að beint lýðræði einkenni skipulag og starfshætti Sjálfstæðisflokksins. Nútímatækni veldur því að það er auðvelt að skipuleggja starfsemi flokks með þeim hætti. Það er sjálfsagt að kjósa formann Sjálfstæðisflokksins í almennri kosningu, sem allir flokksmenn geti tekið þátt í. Það er sjálfsagt að kjósa fulltrúa á landsfundi með sama hætti. Það er sjálfsagt að kjósa stjórnir einstakra sjálfstæðisfélaga í beinni kosningu, sem allir félagsmenn geta tekið þátt í við tölvuna heima hjá sér.

Hið sama á við um félagasamtök eins og t.d. verkalýðsfélögin. Það er tími til kominn að kosningar til stjórna þeirra verði nútímavæddar og að félagsmönnum þeirra sé auðveldað að taka þátt í þeirri kosningu eins og ég hygg reyndar að hafi verið gert í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur fyrir skömmu.

Hið sama á við um lífeyrissjóðina. Hversu lengi ætlið þið sem hér eruð saman komin að sætta ykkur við að atvinnurekendur og stjórnir verkalýðsfélaga ráði lífeyrissjóðunum? Auðvitað á hvorugur aðilinn að koma að því að skipa fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóðanna. Það eiga félagsmenn í lífeyrissjóðunum að gera sjálfir.

Í því, sem ég hef hér sagt felst bylting. Vinstri menn hafa engan einkarétt á að framkvæma byltingar. Það er líka hægt að gera byltingu frá hægri. Grasrótarsamtök hafa í vaxandi mæli tekið við hlutverki stjórnmálaflokka og hefðbundinna félagasamtaka í þjóðmálabaráttunni.

Hvar voru flokkarnir, þegar búsáhaldabylting var gerð? Þeir voru undir lögregluvernd inn í Alþingishúsinu. Hvers vegna? Getur verið að flokkarnir séu orðnir sérhagsmunabandalög þeirra, sem stjórna þeim hverju sinni?

Hvar voru verkalýðsfélögin, þegar hrunið leiddi til einhverrar mestu kjaraskerðingar á skömmum tíma í lýðveldissögunni? Forystumenn þeirra lokuðu sig inni á skrifstofum sínum í makki við forystumenn vinstri flokkanna.

Almannasamtök 20. aldarinnar brugðust og ný grasrótarsamtök komu til sögunnar. Þetta gerðist líka í Icesave.

Úti í hinum stóra heimi er nú horft til Íslands. Hvers vegna?

Átökin sem nú standa yfir í okkar heimshluta standa í grundvallaratriðum um þetta: eiga fjármálamennirnar að græða, þegar vel gengur og almenningur að borga þegar illa gengur.

Í þessari baráttu hefur orðið til óheilagt bandalag fjármálamarkaða og kjörinna fulltrúa í ríkisstjórnum Vesturlanda um að koma byrðunum yfir á skattgreiðendur. Þegar sagt er að Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn séu að bjarga Portúgal er raunveruleikinn sá, að þessir aðilar eru að kúga almenna borgara í Portúgal til þess að bjarga þýzkum bönkum sem lánuðu af glannaskap til banka í Portúgal. Það sama á við um Írland og Grikkland að einhverju leyti.

Sömu sjónarmið lágu að baki kröfu Breta og Hollendinga á hendur okkur vegna Icesave. Þegar íslenzka þjóðin felldi Icesave í þjóðaratkvæði sagði hún þessu bandalagi fjármálamanna og kjörinn fulltrúa á evrópskum þjóðþingum stríð á hendur.

Þess vegna er horft til Íslands. Þess vegna hafa orðið til samtök borgara á Írlandi, sem sækja innblástur til Íslands. Þess vegna eru að verða til mótmæli á götum spænskra borga, þar sem mótmælendur sækja kraft sinn til Íslands.

Það getur vel verið, góðir fundarmenn, að ykkur þyki það langsótt að Sjálfstæðisflokkurinn taki upp pólitíska baráttu á þessum forsendum. Mér þykir það ekki langsótt. Mér finnst það eitt í samræmi við grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins.

Þessi flokkur var ekki stofnaður til þess að verja sérhagsmuni. Og hafi hann á langri vegferð borið af leið og gerzt talsmaður sérhagsmuna er hægt að leiðrétta þann kúrs.

Ég spyr: Eru einhverjir betur til þess fallnir að beina flokki okkar á þá réttu braut en samtök launþega í Sjálfstæðisflokknum?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS