Þorsteinn Pálsson, einn af samninganefndarmönnum Íslands, reynir í Fréttablaðinu laugardaginn 16. júlí af veikum mætti að gera lítið úr afstöðu bænda til ESB aðildar. Eftir að Þorsteinn hefur réttilega lýst því að samtök bænda hafi lagt fram málefnaleg sjónarmið og rök í umræðunni, þá mistekst honum að halda sjálfum sér innan þeirra sömu marka. Bændasamtökin gáfu fyrir skömmu út á bók, rannsókn á helstu þáttum löggjafar ESB og EES, á sviði landbúnaðar, sem unnin er af Stefán Má Stefánssyni prófessor. Í bókinni er m.a. rakið hvernig og hvort umsóknarríkjum að ESB, hafi orðið ágengt við að fá undanþágur frá meginreglum ESB. Í sem skemmstu máli er niðurstaða rannsóknarinnar, að engar slíkar undanþágur fáist. Aðeins tímabundin bráðabirgðaákvæði.
Með rannsóknarritgerðinni, fylgir síðan viðauki, bókarauki, sem eru varnarlínur Bændasamtaka Íslands og rökstuðningurinn að baki þeim. Þær sjö varnarlínur sem þar er lýst, fjalla um landbúnaðartengda hagsmuni þjóðarinnar. Þær taka á þáttum eins og vörnum gegn sjúkdómum í mönnum, dýrum og plöntum. Þær fjalla um félags- og eignaréttarlega stöðu bænda, rekstrarumhverfi afurðastöðva og úrvinnsluiðnaðinn í landinu. Þær fjalla líka um rétt til sjálfbærrar nýtingar hlunninda og möguleika íslensks landbúnaðar. til sóknar Ekkert af þessu kýs Þorsteinn að fjalla um, heldur staðnæmist við eina kröfu BÍ, þar sem að krafa er um að frelsi Íslands verði áfram viðurkennt. Lítum aðeins nánar á röksemdafærslu Þorsteins Pálssonar.
Þorsteinn segir:
Finnskum bændum hefur fækkað eftir aðild að ESB. Á sama tíma hefur íslenskum bændum fækkað í sömu hlutföllum. Þessi þróun er fyrst og fremst vísbending um að í báðum löndum hefur orðið óhjákvæmileg framleiðniaukning.
Vissulega hefur bændum fækkað í báðum löndum, en hvað sannar þetta í samhenginu? Finnskur landbúnaður stóð á tíma aðildarviðræðna þeirra frammi fyrir hruni markaða í Sovétlýðveldunum sem voru finnskum landbúnaði afar mikilvægir á þeim tíma. Ýmislegt fleira kom reyndar til, t.d. var uppbygging rekstrareininga í finnskum landbúnaði þá á engan hátt sambærileg þeirri sem við höfum hér á landi.
Þorsteinn segir:
Fyrirsjáanlegar breytingar í íslenskum landbúnaði sem leiða myndu af ESB-aðild vega mjög þungt í röksemdafærslu þeirra sem andsnúnir eru ESB-aðild eins og samasemmerki sé á milli allra breytinga og þess illa. Stundum er það svo en ekki alltaf. Hér þarf líka að skoða hver er framtíð landbúnaðar á Íslandi að öllu óbreyttu og hvaða tækifæri leynast í nýju skipulagi og stærra markaðssvæði.
Gott og vel. Þorsteinn vill draga ályktanir út fyrir efnið. Það kemur vel til greina þegar aðildarumsóknin hefur loksins verið tekin af dagskrá, en á meðan svo er ekki hlýtur Þorsteinn, samningamaður Íslands, við ESB að þurfa að halda sig við það mál. Eins má nefna að vinsælt er af aðildarsinnum að nefna að BÍ sé móti breytingum. Slíkt tal er firra og bull. Hver sá sem kynnir sér þróun síðustu búvörusamninga getur séð að þar hafa bændur og ríkisvald gert umfangsmiklar og róttækar breytingar. Breytingar sem lækkað hafa opinber útgjöld til landbúnaðar um hundruð milljóna og kallað fram mikla hagræðingu og lægra verð á innlendum búvörum. Fækkun bænda hérlendis er ekki síst vegna þess. Það er röng ályktun hjá Þorsteini að telja hana vera af sömu ástæðum og í Finnlandi og að tengja fækkunina við einhverskonar uppdiktað viljaleysi bænda til breytinga.
Bændasamtökin vilja sem áður sækja fram með tvíhliða viðskiptasamningum við sjálfstæðar þjóðir. Samninga sem gerðir eru á forsendum Íslands. Í því leynast örugglega sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað.
Þorsteinn segir:
Veigamesta krafa Bændasamtakanna er að halda óbreyttri tollvernd. Gallinn frá sjónarhóli bænda en kosturinn frá sjónarhóli neytenda er hins vegar sá að þetta er ekki hægt þegar gengið er í tollabandalag. Þegar landbúnaðarráðherra tekur þessa sömu afstöðu er hann því að reka slagbrand fyrir þær dyr sem næst þarf að ljúka upp í aðildarviðræðunum.
Vill hann að landbúnaðarráðherra segi af sér til að liðka fyrir samningaferlinu? Landbúnaðarráðherra hefur sagt með skýrum hætti að samninganefndin hafi aðeins umboð til að sækja fram með slíka kröfu. Ef hún reynist ófær beri að leita eftir nýju umboði Alþingis. Getur það gengið að samningamaður skipi ráðherra fyrir verkum?
Um galla tollverndar hefur um langan tíma verið rekin einhliða áróður. Að tollvernd sé óhagstæð neytendum. Í skýrslu hagfræðinga um tollvernd, sem unnin var fyrir íslensk stjórnvöld, er einmitt tekið fram að engum gagnaðist niðurfelling tollverndar betur en verslunarfyrirtækjum. Ekki neytendum og ekki bændum. Fyrir hvern er þá verið að berjast þegar afnám tollverndar er megin baráttumálið?
Þorsteinn segir:
Bændasamtökin fullyrða að tollverndin hafi haldið verði á landbúnaðarvörum niðri. Það gengur þvert á lögmál hagfræðinnar. En rökstuðningurinn er samt ekki alveg út í bláinn. Hann er sá að bændur hafi tekið á sig kjaraskerðingu í þessum tilgangi. Það er trúlega rétt. En hér er komið að kjarna málsins um framtíðargildi óbreyttrar landbúnaðarstefnu.
Þarna beitir samningamaðurinn fyrr sig einfaldri fræðilegri þjóðhagfræði, sem gæti átt við í fullkomlega frjálsu hagkerfi – en þar myndu ekki fyrirfinnast klúbbar eins og ESB. Þar að auki hafa Íslendingar fengið nóg af hókus pókus lögmálum hagfræðinnar í hruninu.
Samkvæmt þessum kenningum ættu td. raftæki á Íslandi ekki að vera 53% dýrari á Íslandi en meðaltal ESB, en svo er nú aldeilis ekki, eins og ný verðkönnun Eurostat sýnir fram á. Sama þjóðhagfræði fullyrti á þensluárinu 2007 að innfluttar matvörur væri svo dýrar vegna áhrifa frá verndaðri innlendri búvöruframleiðslu. Innfluttar tollfrjálsar matvörur hafa hækkað miklu meira en þær innlendu tollvernduðu frá 2008 og samkvæmt þessari hagfræði hefðu íslenskar búvörur því átt að hækka jafnmikið en ekki þrefalt minna eins og raunin varð.
Landbúnaðarvörur sem framleiddar eru á Íslandi hafa haldið uppi kaupmætti heimila. Skapað innlend störf. Störfum í landbúnaði hefur fjölgað um 400, árin 2008 til 2010 samkvæmt vef Hagstofu Íslands. Aðilar sem trúa ekki á að það geti verið nauðsynlegt að standa vörð um atvinnugreinar og auðlindir með virkri stjórnun og stjórntækjum sem standa fólkinu, sem vinnur verkin nærri, ættu ekki að taka þátt í samningaviðræðum við ESB.
Bændur hafa ekki síst fengið þá gagnrýni að sjá ekki tækifærin í stóru markaðssvæði ESB. En nákvæmlega núna, þegar td. verð á sauðfjárafurðum hefur stórhækkað á heimsmarkaði, hvetur forseti ASI Íslendinga til að kaupa ekki lambakjöt og formaður þingflokks Samfylkingarinnar segist ekki fá séð að hærra afurðaverð erlendis eigi að endurspeglast á innlendum mörkuðum. Skilur þetta fólk ekki sjálft hvað það er að segja?
Þorsteinn Pálsson fellur í þá gryfju að taka eina varnarlínu bænda fram til að gera hana tortryggilega. Hann gerir í raun enga tilraun til að ræða málefnalega um afstöðu bænda. Ef hann vill gera það þá þarf hann að svara í heild þeim rökum sem bændur hafa sett fram Þetta eru okkur vonbrigði því Bændasamtökin tóku alvarlega áskoranir um málefnalega umræðu um ESB, þau mæta til umræðunnar með einstaka og vandaða rannsókn á því hvað er í „ESB pakkanum“ Bændasamtökin hafa fjallað um hagsmuni landbúnaðar með opinni umræðu. Undirbyggt sjónarmið sín með gildum rökum. Tekið lýðræðislega afstöðu. Hið sama er ekki hægt er að segja um stjórnvöld sem pukrast með samningsafstöðu Íslands. En kannski ekki, því eina raunverulega samningsafstaðan er að fá inngöngu – hvað sem það kostar.
Höfundur var formaður Bændasamtaka Íslands.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.