Samkvæmt nýrri skýrslu finnska hersins hafa Rússar að undanförnu fjölgað mjög hersveitum við landamæri Finnlands og Eistlands. Rússar halda nú úti rúmlega 200 orustuþotum og fjölmennum sveitum fótgönguliða og skriðdreka í stöðugum viðbúnaði við landamærin. Að auki hafa Rússar sett Iskander-eldflaugar nærri landamærunum. Þær geta flogið fimm hundruð kílómetra á nokkrum mínútum. Reyndar halda margir vopna sérfræðingar því fram að þær geti flogið amk. sjö hundruð kílómetra. Ef sú er raunin er beiting þeirra brot INF-samkomulaginu sem bannar Rússum og NATO-þjóðum að eiga meðaldrægar eldflaugar. Í þokkabót er unnt að búa flaugarnar með kjarnaoddum. Það tæki flaugarnar fjóra mínútur að ná til Helsinki og enn skemmri tíma að ná til Tallínn, höfuðborg Eistlands. Eystrasaltsfloti Rússlands hefur einnig aukið mjög umsvif sín innst í Eystrasalti.
Í finnska hernum eru 35.000 hermenn. Herskylda er í Finnlandi og því eru flestir þessara hermanna nýliðar í þjálfun og óvanir hermennsku. Finnar geta kallað út rúmlega 300.000 varaliða, en það tekur nokkrar vikur. Að auki eru flestir þeirra kyrrsetumenn mishæfir til hermennsku vegna offitu og annarra líkamlegra hindrana. Finnar eiga að vísu sextíu F 18 orustuþotur en þær eru nú nær tuttugu ára gamlar. Eistneski herinn er fámennur og illa vopnum búinn.
Eins og kunnugt er er Finnland í ESB en ekki í NATO. Hlutleysisstefna Finna bannar þeim að ganga í hernðarbandalög. Nú á tímum er bannið þó ekki annað en tómur bókstafur og draugur frá horfinni tíð kalda stríðsins. Undafarin ár hafa margir finnskir stjórnmálamenn lýst þeirri skoðun sinni að Finnum sé fyrir bestu að ganga í NATO. Núverandi forseti Finnlands Tarja Halonen er mótfallin aðild Finnlands að NATO. Hún hefur lagt mikla áherslu á góð samskipti við Rússland. Forsetakosningar verða í Finnlandi í vor og gefur Halonen ekki kost á sér til endurkjörs. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur frambjóðandi Einingarflokksins (Kokoomus). hægra megin við miðju, Sauli Niinistö lang mesta fylgis. Hann hefur marg oft látið í ljós þá skoðun sína ¬að gaumgæfilega beri að athuga hvort aðild að NATO henti Finnlandi. Forseti Finnlands fer með utanríkismál (ásamt ríkisstjórninni) og er æðsti yfirmaður hersins. Finnskir hermenn taka um þessar mundir þátt í átökunum í Afganistan og eru þar hluti af sveitum NATO. Finnski flotinn tekur einnig reglulega þátt í æfingum NATO í Eystrasalti.
Eistland og önnur Eystrasaltsríki eru bæði í ESB og í NATO. Herir þessara ríkja eru þó fámennir og illa vopnum búnir. Svíar hafa mjög fækkað herdeildum og hermönnum eftir lok kalda stríðsins. Álíta þeir að meiri ógn stafi af hinum fjölmörgu hópum alþjóðlegra hriðjuverkamanna en af nágrannaríkjunum. Bandaríkin hafa ekki sömu hernaðalegu hagsmuna að gæta í Evrópu og fyrr. Án Bandaríkjanna er NATO tannlaust. Finnskir hernaðarsérfræðingar sem ekki vilja láta nafns síns getið halda því fram að Rússar gætu nú auðveldlega hertekið Eystrasaltsríkin á nokkrum dögum og Norðurlönd á tveim til þremur vikum, án þess að beita kjarnavopnum. Aðild að NATO breyti litlu þar um að þetta áliti vegna þess að eina NATO-landið sem hafi í fullu tré við Rússland í stríði séu Bandaríkin og þau séu ekki lengur tilbúin að verja Evrópuríkin gegn innrás, þótt þau séu skuldbúin að reyna að frelsa þau aftur úr klóm þess sem hertekur þau.
Við fall Sovétríkjanna fengu Eystrasaltsríkin sjálfstæði sitt, eins og kunnugt er. Þessi ungu og blá fátæku ríki höfðu ekki efni á að hervæðast en gengu í NATO í þeirri von að sameiginlegar varnir bandalagsins nægðu þeim til varnar, enda stóð þeim ekki ógn af öðrum en Rússum. Rússland fækkaði herdeildum í Eystrasaltssvæðinu, rússneski Eystrasaltsflotinn hafði hægt um sig, Rússland og Bandaríkin fækkuðu kjarnavopnum. Engin meiriháttar breyting hefur orðið á þessu ástandi. Erfitt er að gera því skóna að skýringuna fyrir auknum hernaðarumsvifum Rússa sé að finna í breytingu á stjórnmálaástandinu í Eystrasaltsríkjunum eða á Norðurlöndum.
Rússneska fyrirtækið Nordstream hefur nýlokið lagningu á gasleiðslu á botni Eystrasalts. Leiðslunni er ætlað að flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands. Nokkur andstaða var við lagningu leiðslunnar frá umhverfissinnum í Finnlandi og í Svíþjóð. Nordstream réði Gerard Schröder, fyrverandi kanslara Þýskalands, og Paavo Lipponen, fyrverandi forsætisráðherra Finnlands, til að þrýsta á samþykki ríkisstjórna Svíþjóðar og Finnlands við því að leiðslan yrði lögð innan lögsögu þeirra. Þetta tókst vonum framar.
Ýmsar hræringar hafa verið í stjórnmálum í Finnlandi og jafnvel í Svíþjóð og eru ekki allir á eitt sáttir á utanríkisstefnu stjórnvalda. Vera má að Rússar vilji gera öllum ljóst að þeir líði ekkert fikt við gasleiðsluna, ef flokkar sem eru minna hliðhollir Rússum komast til valda í þeim ríkjum sem hafa leiðsluna í lögsögu sinni. Vart er þetta þó eina skýringin á þessari hervæðingu þeirra. Nærtækari skýring er sú að Rússar líti nú á norðurslóðir efnahagslega og hernaðarlega sem mun mikilvægara svæði en áður. Jafnvel Kínverjar hafa aukið viðskiptaumsvif sín á þessum slóðum. Kínverski athafnamaðurinn sem hyggst hefja hótelrekstur á Grímsstöðum á Fjöllum falast nú eftir landi til svipaðra umsvifa í Finnska Lapplandi. Er baráttan um norðurslóðir að hefjast fyrir alvöru?
Nafn: Sveinn Eldon Fæddur í Reykjavík 1950 Heimspekingur og hagfræðingur að mennt. Hefur starfað sem háskólakennari bæði á Íslandi og í Finnlandi þar sem hann starfar nú.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.