Miðvikudagurinn 21. apríl 2021

Stofna Rússar nýtt efnahagsbandalag í austri?


Styrmir Gunnarsson
17. desember 2011 klukkan 16:08
Siglingaleiðin fyrir norðan Rússland, milli N-Atlantshafs og Kyrrahafs. Því er spáð að siglingar tífaldist fyrir árið 2020.

Ef við reynum að horfa á þær sviptingar, sem hér standa yfir um tengsl Íslands við Evrópuríkin úr fjarlægð má kannski segja, að í þeim birtist að einhverju leyti leit okkar Íslendinga að nýjum stað í tilverunni eftir að hinu nána samstarfi við Bandaríkin lauk snemma á þessari öld. Í raun og veru má segja, að utanríkispólitík okkar hafi hangið í lausu lofti síðan og okkur hafi gengið erfiðlega að fóta okkur við breyttar aðstæður.

Og kannski þarf engum að koma á óvart að það eru vinstri menn, sem haft hafa forgöngu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Frá því að hreyfingar sósíalista og sósíaldemókrata komu til sögunnar á Íslandi fyrir hundrað árum má segja að tilhneiging þeirra hafi alltaf verið til náins alþjóðlegs samstarfs. Það var engin tilviljun að þeir sóttu styrk sinn bæði til bræðraflokka á Norðurlöndum og til Sovétríkjanna, bæði pólitískan og fjárhagslegan stuðning. Þetta kemur skýrt fram í þremur bókum, sem út hafa komið á síðustu 12 mánuðum eftir Þór Whitehead, Hannes Hólmstein Gissurarson og Snorra G. Bergsson.

Það má vera að það sé ósanngjarnt að tengja þetta saman en engu að síður er það staðreynd, að úr röðum jafnaðarmanna, sem lengi höfðu haft mikil samskipti við skoðanabræður sína í Danmörku og verkalýðshreyfinguna þar komu efasemdarmenn um stofnun lýðveldis á Íslandi 17. júní 1944, þótt rökin fyrir því væru að vísu þau, að við ættum að bíða eftir þvi að Danir endurheimtu sjálfstæði sitt.

Þessi gamla saga skýrir að sumu leyti afstöðu Samfylkingarinnar nú.

Í leit okkar að nýrri utanríkisstefnu er hins vegar nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir hvað er að gerast í okkar heimshluta þar sem allt er á tjá og tundri. Eitt af því athyglisverðara, sem er að gerast er í Rússlandi, sem er Evrópuríki, þótt víðfemt landsvæði þess nái til Asíu.

Ár hvert gefur tímaritið The Economist út sérútgáfu, sem fjallar um árið framundan. Sumt af því, sem þar kemur fram er fróðlegt, annað minna virði eins og gengur og gerist í blaðaútgáfu. Tímaritið slær því föstu að þessu sinni að Vladimir Pútin verði kjörinn forseti Rússlands í marz en frá því að ritið kom út hafa að vísu orðið þeir atburðir í Rússlandi að draga má í efa að það verði jafn auðvelt fyrir hann og áður var talið.

Þeir sem á undanförnum árum hafa velt fyrir sér hinum stóru línum í heimsmálum hafa sett framþá skoðun að hugsanlega muni Evrópusambandsríkin og Rússland sameinast í einni fylkingu gegn þeirri nýju samkeppni, sem Evrópuríkin standi frammi fyrir frá hinum rísandi efnahagsveldum Asíu með Kína í fararbroddi.

Í umfjöllun Economist eru hins vegar viðraðar aðrar skoðanir, sem eru óneitanlega athyglisverðar, þegar horft er til þróunar mála í Evrópu. Tímaritið bendir á að hinn 1. janúar n.k. taki til starfa nýtt tollabandalag á milli þriggja ríkja, Rússlands, Hvitarússlands og Kazakhstan. Pútín líti á þetta sem upphaf að samstarfi í austurhluta Evrópu, sem verði eins konar ígildi ESB og muni leiða til örari hagvaxtar þeirra ríkja, sem taka þátt i því. Pútín muni leggja mikla áherzlu á að Úkraína taki þátt í því samstarfi en hætti að horfa til þess að ganga til samstarfs við Evrópusambandið og jafnvel aðildar að því.

Það er ekki fráleitt að þetta geti gerzt. Þeir sem nú ráða ríkjum í Úkrainu eru hliðhollir Rússum og raunar er sambandið á milli ríkjanna svo náið að ekki er ólíklegt að jarðvegur sé fyrir því hjá almenningi í Úkraínu að ganga til samstarfs við Rússa, alla vega í austurhluta Úkraínu. Þegar fólk á götu í Kiev er spurt um afstöðu þess til Rússlands kemur í ljós, að hún er yfirleitt vinsamleg.

Gerist það má búast við að mikill þrýstingur verði líka lagður á Georgiu að taka þátt í slíku samstarfi, eins konar nýju efnahagsbandalagi þessara fimm ríkja og hugsanlega fleiri fyrrum leppríkja Sovétríkjanna í Mið-Asíu. Íbúafjöldinn í ofangreindum fimm ríkjum er um 220 milljónir og ekki þarf annað en að líta á landakortið til að átta sig á þeirri gríðarlega sterku stöðu, sem slíkt nýtt efnahagsbandalag hefði landfræðilega séð.

Auk þess mundur efnahagsstyrkur þess verða mikill, þegar fram í sækir vegna gífurlegra olíu- og gas auðlinda. Það er eins hægt að leggja olíu- og gasleiðslur austur á bóginn eins og vestur, þótt vegalengdir séu meiri og eftirspurn eftir orkugjöfum verður vaxandi í Asíu með meiri velmegun. Kannski eiga Vestur-Evrópuríkin eftir að standa frammi fyrir meiri samkeppni um þessa orkugjafa frá Rússlandi en í dag?

The Economist telur, að þetta sé sú framtíðarmynd af endurreistu rússnesku stórveldi, sem Pútín muni halda fram og berjast fyrir í kosningabaráttunni á næstu tveimur mánuðum. Markmið hans hafi alltaf verið að endurreisa fyrri stöðu Rússlands sem eitt af stórveldum heimsins.

Það auðveldar Rússum þennan leik að þau ríki í austurhluta Evrópu, sem hlut eiga að máli horfa ekki til Evrópusambandsins með sömu virðingu og áður. Jafnvel Tyrkir, sem í áratugi hafi leitað eftir aðild en verið haldið frá, augljóslega af kynþáttaástæðum, hafi misst áhugann á ESB eftir að hafa fylgzt með hremmingum þess á undanförnum mánuðum og misserum. Þessar þjóðir bendi nú á, að ESB-ríkin ættu að hugsa um eigin vandamál í staðinn fyrir að lesa yfir öðrum um það hvernig þeir eigi að haga sínum málum. Economist vekur athygli á því að núverandi stjórnvöld í Ungverjalandi séu ekki sérstaklega hrifinn af Evrópusambandinu.

Þetta eru fróðlegar vangaveltur og áreiðanlega raunhæfar. Slíkt efnahagsbandalag á þriðja hundrað milljóna manna undir forystu Rússa mundi styrkja mjög tilkall þeirra til að teljast stórveldi á ný og staða þess á oliu-og gasmörkuðum mundi færa því mikil pólitísk áhrif.

Í þessu samhengi er nauðsynlegt að átta sig á að pólitísk þróun af þessu tagi austan Þýzkalands mundi hafa margvísleg áhrif á Þjóðverja. Alveg frá dögum Willy Brandts, kanslara Þýzkalands hefur verið mjög náið samband á milli rússneskra og þýzkra leiðtoga. Það kom m.a. í ljós í samskiptum Kohls, kanslara og Gorbasjoffs þegar þýzku ríkin voru sameinuð. Þau tengsl eru til staðar á milli núverandi ráðamanna í Berlín og Moskvu. Þjóðverjar eiga mikilla hagsmuna að gæta í samskiptum í austurvegi og augljóst að þeir hagsmunir hafa áhrif á afstöðu þeirra innan Evrópusambandsins, þar sem þeir ráða mestu.

Þessi líklega þróun í austurhluta Evrópu er eitt af því, sem við Íslendingar þurfum að horfa til, þegar við mótum utanríkisstefnu okkar á 21.öldinni.

Í næstu grein verður fjallað um vissa tilhneigingu ríkja í Evrópu til aukins sjálfstæðis frekar en meiri sameiningar.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS