Fimmtudagurinn 21. janúar 2021

Er hernaðarleg þýðing Íslands að aukast á nýjan leik?

Ísland-ESB og Nýja Norðrið III


Styrmir Gunnarsson
19. janúar 2012 klukkan 17:08

Þegar um er að ræða mikil auðævi eins og í Nýja Norðrinu og fjallað er um í grein II í þessum greinaflokki og hins vegar svæði, þar sem lögsögur margra ríkja mætast er augljóst, að upp koma alvarlegar spurningar um öryggismál. Af þeim skýrslum, sem vitnað hefur verið til í tveimur fyrri greinum er ljóst að öryggismál þessa svæðis eru ofarlega í huga þeirra þjóða, sem telja sig eiga hagsmuna að gæta. En jafnframt hljóta að vakna áleitnar spurningar hjá okkur Íslendingum um, hvort Ísland sé að öðlast á ný að einhverju leyti þá hernaðarlegu þýðingu, sem það hafði í heimsstyrjöldinni síðari og á árum kalda stríðsins. Í skýrslu CSIS um hagsmuni Bandaríkjanna á norðurskautssvæðinu er sérstakur kafli um þennan þátt í uppbyggingu og þróun Nýja Norðursins.

Í skýrslunni kemur fram, að norðurslóðir hafi grundvallarþýðingu fyrir Bandaríkin í sambandi við eldflaugavarnir og viðvörunarkerfi bæði í hafi og í lofti og snúi m.a. að siglingafrelsi og eftirliti á þessum slóðum. Þá þurfi að koma i veg fyrir að glæpsamlegt athæfi verði stundað í þessum heimshluta og til staðar þurfi að vera aðstaða til leitar og björgunar.

Í október 2009 birti bandaríski sjóherinn eins konar vegvísi um norðurskautssvæðið og lagði þar fram áætlun um að auka umsvif sjóhersins á þessum slóðum og laga hernaðarlegt bolmagn og viðveru að nýjum aðstæðum. Vegvísirinn gerir m.a. ráð fyrir samstarfi við þá aðila, sem hlut eiga að máli á þessu svæði.

Í vegvísinum er gert ráð fyrir að byggja upp getu til að tryggja siglingar, leita og bjarga, veita aðstoð vegna hamfara, tryggja sýnileika, byggja upp strategískar varnir og eldflaugavarnir.

Bent er á að vissir veikleikar séu til staðar í getu til að uppfylla þessar kröfur. Til staðar þurfi að vera sérstaklega styrkt skip til að brjótast í gegnum þykkan ís. Strandgæzla Bandaríkjanna (US Coast Guard) hafi aðeins yfir að ráða þremur ísbrjótum og aðeins einn þeirra hafi verið hugsaður til starfa eingöngu á norðurslóðum. Hann hafi fyrst og fremst verið hannaður fyrir vísindalegar rannsóknir. Þörf sé á kraftmeiri flota ísbrjóta til að styðja við hugsanlegar hernaðaraðgerðir og tryggja hagsmuni Bandaríkjanna. Bent er á í þessu sambandi að Rússar hafi yfir að ráða sjö nýjum kjarnorkuknúnum ísbrjótum, sem geti komizt í gegnum helmingi þykkari ís en dísilknúin skip.

Í vegvísi bandaríska sjóhersins er hvatt til þess að eldflaugavarnir á norðurslóðum verði efldar og að sjóherinn endurnýi stöðu sína til að takast á við kafbátahernað. Þar kemur einnig fram, að Bandaríkin ætli að staðsetja í Anchorage í Alaska 36 F 22 orustuþotur. Þetta verði mjög kostnaðarsamt.

Sérstök athygli er vakin á að Strandgæzlan sé vanbúin að takast á við leit og björgun á þessu svæði og að það geti tekið flugvélar hennar nokkrar klukkustundir að ná til skipa í vanda og ísbrjóta nokkra daga. Strandgæzlan þurfi því að bæta þær starfsstöðvar sem fyrir eru og byggja upp nýjar á þessu svæði.

Sú áherzla, sem lögð er á aðstöðu til leitar og björgunar vekur óhjákvæmilega upp spurningar um, hvort forsendur hafi skapazt fyrir auknu samstarfi á milli Íslands og Bandaríkjanna á þessu sviði á nýjan leik. Sérstaklega er tekið fram, að Bandaríkin ættu að huga að samstarfi við sjóheri og landhelgisgæzlur annarra ríkja á þessum slóðum.

Minnt er á að flug tveggja rússneskra sprengjuþota í febrúar 2009 hafi kallað fram viðvörun af hálfu varnarmálaráðherra Kanada.

Í skýrslu Nikolai Pedersen, frá Árósarháskóla, sem áður hefur verið vitnað til er bent á, að Stephen Harper, leiðtogi Íhaldsflokksins hafi unnið þingkosningar í Kanada í janúar 2006 með stefnuskrá um sjálfstæði Norðurskautssvæðisins og hvatt til uppbyggingar kanadískra varna „gegn Bandaríkjamönnum, Rússum og Dönum“. Hann hafi lagt til byggingu 6-8 öflugra gæzluskipa til siglinga á norðurskautssvæðinu, breytingu á höfn á Baffineyjum í starfsstöð kanadíska sjóhersins og uppbyggingu á þjálfunarstöð fyrir köld svæði í Resolute flóa.

Sjálfsagt finnst einhverjum slíkar yfirlýsingar nokkuð dramatískar enda vafalaust ætlaðar til heimabrúks.

Nikolai Pedersen bendir á í skýrslu sinni að ráðamenn Evrópusambandsins hafi á árinu 2008 vakið máls á því að þróunin á norðurskautssvæðinu gæti haft afleiðingar fyrir alþjóðlegan stöðugleika og áhrif á öryggishagsmuni Evrópuríkja.

Hér hefur verið fjallað mjög lauslega um ný viðhorf í öryggismálum í Nýja Norðrinu en tæpast leikur vafi á að þær hugleiðingar, sem uppi eru um þessi efni hjá öðrum þjóðum kalli á endurskoðun og endurmat okkar Íslendinga á okkar eigin stöðu.

Í kjölfar brottfarar bandaríska varnarliðsins á sínum tíma töluðu margir á þann veg, að Ísland væri nú á hættulausu svæði og þyrfti því ekki að hafa áhyggjur af eigin öryggismálum. Nú er hins vegar ljóst að uppbygging Nýja Norðursins og hugsanleg átök á milli þjóða vegna hagsmuna þar gerir kröfu til þess að við nálgumst þessi málefni á nýjan hátt.

Þessi nýja staða Íslands hefur ekki farið fram hjá forráðamönnum Evrópusambandsins, sem telja að aðildarumsókn Íslands hafi opnað þeim leið til áhrifa á norðurslóðum eins og síðar verður fjallað um.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS