Ísland-ESB og Nýja Norðrið IV
Danir eru í sérstakri stöðu í Nýja Norðrinu vegna tengsla sinna við Grænland. Það dugar þó Evrópusambandinu lítt til áhrifa á þessu svæði af þeim ástæðum, sem Valur Ingimundarson, sagfræðingur greinir frá í grein sinni í Skírni haustið 2010 og vitnað var til í fyrstu grein í þessum greinaflokki. Valur segir:
„Mörg Evrópusambandsríki líta svo á, að aðild Íslands að ESB- eins og annarra ESB-ríkja, sem teljast til norðurskautsríkja, þ.e. Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands -styrki aðkomu sambandsins að norðurskautinu. Þótt Danmörk fyrir hönd Grænlands flokkist sem eitt strandríkjanna er það háð takmörkunum vegna sjálfstjórnar Grænlendinga. Danir eru skuldbundnir til að viðurkenna sjálfstæði Grænlands ef Grænlendingar stíga skrefið til fulls. Loks má líta svo á, að Finnland og Svíþjóð hafi minni hagsmuna að gæta en Ísland á norðurskautinu vegna þess að ríkin tvö eiga enga strandlengju að heimskautshöfunum eins og áður sagði.“
Engu að síður lítur Nikolai Petersen, prófessor emeritus við Árósarháskóla svo á, að Per Stig Möller, þáverandi utanríkisráðherra Dana hafi skorað mark í diplómatískum sviptingum um norðurslóðir, þegar hann í maí 2008 náði fjórum öðrum strandríkjum á þessu svæði saman til fundar í Ilulissat á Grænlandi. Þar voru saman komnir auk hans, þeir Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, Gary Lund, auðlindaráðherra Kanada og John Negroponte, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Þessi ríki samþykktu ályktun sem kennd er við fundarstaðinn, þar sem þau stöðu sinnar vegna gerðu sérstakt tilkall til áhrifa á norðurslóðum. Þessum fundi og ályktun hans var fylgt eftir með sameiginlegri yfirlýsingu Dana og Grænlendinga, þar sem lýst var hagsmunum beggja þjóðanna á svæðinu. Loks settu Danir upp sérstaka nefnd til þess að fjalla um öryggismál á svæðinu út frá sjónarhóli Dana.
Augljóst er að með þessu frumkvæði vildu Danir taka forystu í málefnum Nýja Norðursins, þótt sú forysta hangi á hálmstrái vegna þess, að Grænland er á hraðferð í átt til sjálfstæðis. Um það eru þeir sammála, sem átt hafa samtöl við nýja kynslóð forystumanna á Grænlandi. Um leið og Grænlendingar lýsa yfir sjálfstæði er hlutverki Dana lokið á norðurslóðum.
Nikolai Petersen bendir hins vegar á í skýrslu þeirri, sem hér er vitnað til og nefnist The Arctic as a New Arena for Danish Foreign Policy: The Ilulissat Initiative and its implications, að sjálfstæði mundi kosta Grænland töluverða fjármuni. Í samkomulagi um sjálfstjórn og sjáfstæði Grænlands er tekið fram, að fjárframlag Dana til Grænlands, sem nemur 3 milljörðum danskra króna eða yfir 60 milljörðum íslenzkra króna á ári muni lækka um 50% af nettótekjum Grænlands af málmvinnslu og olíu- og gasvinnslu og yfirtöku Grænlendinga á nýjum málaflokkum frá Danmörku verði Grænlendingar sjálfir að fjármagna.
Þótt hér sé um töluverða fjármuni að ræða í krónum talið eru tekjumöguleikar Grænlendinga á hinn bóginn svo miklir að þetta tekjutap mun varla hafa áhrif á afstöðu þeirra til sjálfstæðis.
Skýrsluhöfundur lýsir hins vegar vantrú sinni á getu Grænlendinga til að takast á við þetta verkefni með því að halda því fram, að varðstaða um grænlenzka hagsmuni á öllum sviðum verði 57 þúsund einstaklingum, sem byggi land, sem er fjórum sinnum stærra en Frakkland ofviða og þess vegna sé líklegt að sjálfstjórn Grænalnds haldi áfram -en ekki sjálfstæði- og Grænlendingar verði jafnvel enn háðari Dönum en áður og staða Danmerkur muni því styrkjast í framtíðinni en ekki veikjast.
Svona talar þegn gamals nýlenduveldis. Svona talar ný kynslóð Grænlendinga ekki, þótt hún geri sér áreiðanlega grein fyrir því að Grænlendingar muni í framtíðinni þurfa að leita margvíslegrar þjónustu og aðstoðar frá öðrum. En það hlýtur að verða á þeirra forsendum, sem sjálfstæðrar þjóðar en ekki sem gamallar nýlendu.
Hér hefur verið lýst sjónarmiðum höfundar danskrar skýrslu. Sjálfsagt eru uppi margvíslegar skoðanir í Danmörku um þróun norðursvæðanna frá dönskum sjónarhóli. En kjarni málsins er auðvitað sá, að áhrif Dana á norðurslóðum eru dvínandi. Þeir reyna að halda í þau áhrif vegna gamalla og gróinna tengsla við Grænland en líkurnar á því að Grænlendingar leiti þjónustu og rágjafar hjá nágrönnum sem nær þeim standa og er þá bæði átt við Ísland og Kanada og að einhverju leyti Bandaríkin eru yfirgnæfandi. Þess vegna má búast við að Danir hverfi smátt og smátt út úr þessari mynd. Og vafalaust gera ráðamenn Evrópusambandsins sér skýra grein fyrir því.
Kjarninn í norðurslóðastefnu Íslands hlýtur því að vera að styðja við bakið á Grænlendingum í viðleitni þeirra til að taka að fullu stjórn eigin mála í sínar hendur en ekki að ýta undir tilraunir Dana til að halda þar einhverjum áhrifum. Í því felst enginn fjandskapur við Dani. Og jafnframt rétt að hafa í huga að þeir buðu okkur ekki að taka þátt í fundinum í Ilulissat.
Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.