Miðvikudagurinn 21. apríl 2021

Leit Evrópu­sambandsins að nýju lögmæti


Björn Bjarnason
21. desember 2011 klukkan 17:29

Greinin birtist upphaflega í Þjóðmálum 4. hefti 2011.

Athygli vakti á blaðamannafundi í Brussel miðvikudaginn 23. nóvember hve talsmönnum framkvæmdastjórnar ESB var mikið í mun að minna menn á sögu og reynslu Bandaríkjamanna þegar þeir kynntu tillögur sínar um evru-skuldabréf og íhlutunarrétt framkvæmdastjórnarinnar í fjárlagagerð einstakra evru-ríkja.

Við Íslendingar höfum reynslu af því að sendir séu tilsjónarmenn inn í einstakar ríkisstofnanir fari þær ekki að fjárlögum. Nú vill framkvæmdastjórn ESB koma að gerð fjárlaga í evru-ríkjum og einnig skipa tilsjónarmenn til að fylgja fram kröfum sínum. Forystumenn stóru ríkjanna innan evru-svæðisins tala um að auka beri samruna og yfirstjórn á svæðinu skref fyrir skref, hér er liður í þeirri stefnu kynnt.

Skrefið er kjarni tillagna framkvæmdastjórnarinnar til að bjarga evru-samstarfinu frá upplausn og koma í veg fyrir hrun evrunnar. Þrátt fyrir björgunarsjóði og neyðarlán hefur ekki tekist að leysa skuldavandann.

Ríkisstjórnir falla

Þegar Barroso kynnti tillögur sínar höfðu sex ríkisstjórnir fallið á evru-svæðinu: á Írlandi, Spáni, Ítalíu, í Grikklandi, Slóvakíu og Portúgal. Þá urðu stjórnarskipti í Danmörku að loknum þingkosningum, þær er þó ekki unnt að rekja beint til evru-vandans eins og kosningarnar á Írlandi, Spáni og í Portúgal.

Á Ítalíu og í Grikklandi knúðu valdamenn ESB og einstakra evru-ríkja fram afsögn ríkisstjórna, í nafni evrunnar. Í Slóvakíu baðst forsætisráðherrann lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt til að knýja fram samþykki í þingi á ábyrgð á björgunaraðgerðum í þágu evrunnar. Til þessa hefur yfirþjóðlegt eða yfirríkja vald verið skilgreint sem framsal á valdi til yfirþjóðlegrar stofnunar. Innan evru-svæðisins er til óumsamið og óskilgreint vald sem ræður lífi rétt kjörinna ríkisstjórna í einstökum löndum fari skuldavandi þeirra yfir ákveðin þolmörk eða „makki“ stjórnir ekki rétt að mati stjórnenda klúbbsins.

Ríkjasamband - sambandsríki

Við kynningu á evru-skuldabréfunum ræddi José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, um stofnun Bandaríkja Norður-Ameríku og leynisamning frá árinu 1790 sem hann sagði að hefði auðveldað mönnum að leggja grunn að sambandsríkinu í Norður-Ameríku. Með hinni sögulegu upprifjun vildi hann auðvelda stjórnendum evru-ríkjanna 17 að sætta sig við skref í átt til „Bandaríkja Evrópu“.

Allar götu frá fimmta áratugnum þegar Evrópa var í rúst eftir síðari heimsstyrjöldina og frá því að samstarf ríkja hófst til að tryggja framtíðarfrið í álfunni hefur markmið áköfustu hugsjónamannanna verið að koma á Bandaríkjum Evrópu. Nú sjá ýmsir nýtt tækifæri til þess vegna kreppunnar á evru-svæðinu. Hún leysist ekki nema með meiri samruna og meira yfirríkjavaldi.

Charles de Gaulle, forseti Frakklands, var á sínum tíma eindreginn talsmaður ríkjasambands og hafnaði öllum tillögum um sambandsríki. Hann hafði skömm á Jean Monnet, sem oft er nefndur faðir Evrópusambandsins, fyrir að vilja koma á sambandsríki í Evrópu. Undir merkjum hins svonefnda Evrópuverkefnis (European project) eins og hugsjónin á bakvið Evrópusambandið er nú nefnd hefur leynt og ljóst verið stefnt að sambandsríki. Margir málsvarar þeirrar hugsjónar vona að leiðin til samruna verði greiðfærari eftir að menn hafa horfst í augu við skuldavandann á evru-svæðinu.

Í ljósi hinnar sögulegu andstöðu gaullista við Bandaríki Evrópu vakti mikla athygli hinn 8. nóvember 2011 þegar Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti, sem á fylgi sitt ekki síst meðal gaullista, sagði á námsmannafundi í Strassborg að leiðin úr evru-vandanum yrði auðveldari stofnuðu menn sambandsríki í Evrópu í stað þess að ríghalda í ríkjasambandið. Lausnin fælist í þrepaskiptu (two speed) Evrópusambandi. Þau ríki sem vildu núverandi hraða á siglingu ESB yrðu bara að dragast aftur úr hinum sem vildu fara hraðar og efla samstarf sitt.

Merkel ávítar Barroso

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur sagt að það sé algjört skilyrði sine qua non af hálfu Þjóðverja að hert verði sameiginleg tök á fjárlagastjórn evru-ríkja. Hún vill einnig að þau ríki sem ekki fari að evru-reglum verði unnt að draga fyrir ESB-dómstólinn sem dæmi þau til refsingar. Verði skilyrðum af þessu tagi fullnægt kunni Þjóðverjar að verða til viðræðna um evru-skuldabréf.

Framkvæmdastjórn ESB hefur frumkvæðisrétt að setningu ESB-laga. Hinn 23. nóvember 2011 kynnti hún tvær megintillögur að slíkum lögum. Í fyrsta lagi um að hún og fulltrúar hennar gætu hlutast til um gerð fjárlaga einstakra evru ríkja og í öðru lagi um útgáfu á evru-skuldabréfum. Rökin fyrir bréfunum eru að kæmu þau til sögunnar hættu einstök ríki að gefa út skuldabréf í eigin nafni, til yrðu bréf sem gætu keppt við ríkisskuldabréf Bandaríkjanna, helsta skjól fjárfesta á tímum óróleika og upplausnar.

Angela Merkel sagði eftir að Barroso hafði kynnt tillögur framkvæmastjórnarinnar: „Ég tel það mjög alvarlegt umhugsunarefni og með öllu óviðeigandi að framkvæmdastjórn ESB beini í dag athygli sinni að evru-skuldabréfum.“ Það væri rangt að halda því fram að breyting skulda einstakra ríkja í sameiginlegan vanda auðveldaði evru-ríkjunum að sigrast á kerfisvanda myntsamstarfsin. Miklu nær væri að styrkja björgunarsjóð evrunnar, og herða refsingar vegna brota á reglum um evruna en 60 sinnum hefði verið brotið gegn þeim. Evru-skuldabréf mundu líklega gagnast ríkjum á borð við Grikkland sem byggju við mikinn lántökukostnað á opnum mörkuðum en skapa hættu fyrir ríki sem hefðu góð tök á ríkisfjármálum sínum og auka lántökukostnað þeirra.

Barroso blæs á rök Merkel. Hann segir að með því að sameinast að baki skuldum á evru-svæðinu muni evru-ríkin njóta jafn „stórkostlegs hagnaðar“ og Bandaríkin hafi notið. „Það mundi leiða til meiri fjármálalegs samruna og skapa miklu stærri og öflugri skuldabréfamarkað sem yrði sambærilegur við það sem gerist hjá ríkissjóði Bandaríkjanna,“ sagði Barroso á blaðamannafundinum 23. nóvember.

Hann benti á að litið væri á bandarísk skuldabréf sem einhverja öruggustu fjárfestingu í heimi þótt skuldir Bandaríkjanna nálguðust 100% af landsframleiðslu. Honum sá ekki ástæðu til að geta þess að bandaríski skuldavandinn væri ekki síður pólitískt vandamál en hinn evrópski. Um svipað leyti og Barroso flutti þennan boðskap bárust fréttir um að „ofurnefnd“ beggja flokka á Bandaríkjaþingi hefði ekki tekist að ná samkomulagi um sparnað eða leiðir til að lækka ríkisskuldir Bandaríkjanna, nema nú um 15.000 milljörðum dollara.

Rehn vitnar í Hamilton

Olli Rehn, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB sem fer með efnahags- og evru-mál innan hennar, upplýsti Brussel-blaðamenn um aðferðir Bandaríkjamanna þegar þeir unnu að því að smíða innviði sambandsríkis 13 ríkja síns undir yfirstjórn George Washington, fyrsta forseta Bandaríkjanna.

Rehn minnti á að árið 1790 hefði Alexander Hamilton, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, lagt fram áætlun um hvernig nýja sambandsstjórnin ætti að glíma við skuldir fyrrverandi nýlendna Breta sem mynduðu hið nýja ríki. Vegna áforma sinna hefði Hamilton lent í andstöðu við þungavigtarmenn eins og Thomas Jefferson og James Madison. Hann hefði leyst vandann með leynd í kvöldverði með Jefferson, þeir hefðu undirskrift sammælst um útgáfu skuldabréfa. Framkvæmdastjórn ESB hagaði sér á annan veg en þessir ráðamenn Bandaríkjanna 1790, hún kynnti tillögur sínar um skuldabréf opinberlega.

Rehn hélt því hins vegar stíft fram að þessi leynisamningur Hamiltons og Jeffersons hefði „lagt grunninn að sameiginlegri stjórn efnahagsmála í sambandsríkinu Bandaríkjunum“. Rehn tók fram að hluti samkomulagsins hefði verið að flytja aðsetur alríkisstjórnarinnar frá New York að bökkum Potomac-árinnar í Virginíu, þar sem nú er Washington DC.

Í fréttum af blaðamannafundi forráðamanna framkvæmdastjórnar ESB er þess sérstaklega getið að þeir vilji ekki flytja valdamiðstöð Evrópusambandsins frá Brussel.

Framkvæmastjórn í vanda

Þegar litið er á þessar tillögur og hugað að stöðu þeirra Barrosos og Rehns má benda á að þeir eru að sumra áliti að skipta sér af hlutum sem þeir ættu að láta í friði, evran og evru-samstarfið sé ekkert á þeirra könnu. Það lúti ekki forræði framkvæmdastjórnar ESB. Hún eigi að sinna því sem að henni snýr en ekki að blanda sér í annarra manna mál.

Framkvæmdastjórn ESB starfar í umboði ESB-ríkjanna 27, evru ríkin eru hins vegar 17. Þau hafa haft með sér félagsskap, Euro-group, sem lotið hefur forsæti Jean-Claudes Junckers, forsætisráðherra Lúxemborgar. Hafa fulltrúar evru-ríkjanna komið saman til fundar þegar þeir hafa talið það nauðsynlegt. Undirbúningur fundanna hefur verið lítill enda frekar litið á þá sem vettvang samráðs en ákvarðana.

Nú er þetta allt breytt. Leiðtogar evru-ríkjanna hafa ákveðið að hittast tvisvar á ári undir forsæti Hermans Van Rompuys, sem er jafnframt forseti leiðtogaráðs ESB. Þá hefur verið ákveðið að koma á fót samráðs- og vinnunefndum af ýmsu tagi til að undirbúa hina reglulegu fundi auk þess sem fjármálaráðherrar ríkjanna ætla að hittast reglulega. Til að halda utan um þessa starfsemi verður komið á fót „sekretariati“, skrifstofu.

Framkvæmdastjórnarmennirnir í Brussel líta á þessa þróun sem nokkra ögrun við sig. Þeir óttast réttilega að missa spón úr sínum aski. Ummæli Merkel í þýska þinginu um frumkvæði Barrosos vegna skuldavanda evrunnar ber að skoða í þessu ljósi. Framkvæmdastjórnin er ekki sérlega hátt skrifuð í Berlín og líklega ekki heldur í öðrum höfuðborgum evru-ríkjanna.

Í viðræðum í nýlegri ferð til Berlínar varð ég þess var að háttsettir embættismenn liggja ekkert á gagnrýni sinni á þróun mála hjá stofnunum ESB í Brussel. Ekki hafi tekist sem skyldi að ná markmiðunum sem sett hefðu verið með gerð Lissabon-sáttmálans. Hann hafi hvorki orðið til að einfalda stjórnarhætti innan ESB né auka á skilvirkni. Raunar hafi hið gagnstæða gerst því að samhliða á núningi milli einstakra ríkja glími ríkisstjórnir nú við valda- og áhrifabaráttu milli ESB-stjórnenda í Brussel. Fréttir þaðan bera með sér töluverð togstreita sé milli Barrosos og framkvæmdastjórnarinnar annars vegar og Van Pompuys og starfsmanna ráðherraráðsins hins vegar. Loks hafi mistekist að ná koma á fót marktækri utanríkisþjónustu ESB undir forystu barónessu Ashton.

Leitað til lögfræðinga

Kreppan innan Evrópusambandsins núna er hin versta sem glímt hefur verið við þar á bæ frá stofnun sambandsins og vandanum í Evrópu er lýst sem hinum versta frá lyktum síðari heimsstyrjaldarinnar. Í þeim samanburði er strikað yfir allt sem gerðist í álfunni á tímum kalda stríðsins þegar margir töluðu oft eins og kjarnorkustríð væri á næsta leiti.

Við lausn vanda innan Evrópusambandsins leita menn jafnan ráða hjá lögfræðingum. Í þeirra hlut kemur að festa í form hugmyndir sem stjórnmálamenn telja til þess fallnar að miða málum til réttrar áttar. Evrópusambandið skortir alla lýðræðislega tengingu við fólkið í aðildarríkjum. Valdamenn þess vilja í lengstu lög forðast að bera mál undir almenning. Á hinn bóginn er mikil áhersla lögð á lögmæti allra ákvarðana og að þær rúmist innan sáttmála sambandsins. Við hlið stjórnmálamanna og embættismanna á vettvangi ESB starfar her lögfræðinga sem segir álit sitt á stóru og smáu. Sé unnt að benda á að einhver ákvörðun rúmist ekki innan lagarammans er voðinn vís. Lögfræðingarnir eiga að jafnaði síðasta orðið um hvað má gera innan gildandi reglna og hvenær óhjákvæmilegt er að breyta þeim til að leysa einhvern vanda.

Jean-Claude Piris var lögfræðilegur ráðunautur ráðherraráðs Evrópusambandsins og yfirmaður lagasviðs ráðsins frá árinu 1988 til 1. desember 2010. Hann kom að gerð Maastricht-sáttmálans 7. febrúar 1992, Amsteradam-sáttmálans 2. október 1997, Nice-sáttmálans 26. febrúar 2001. Hann leiddi starf lögfræðinga við gerð sáttmálans um stjórnarskrá fyrir Evrópu sem skrifað var undir í Róm 29. október 2004. Hann gegndi einnig lykilhlutverki við gerð Lissabon-sáttmálans sem skrifað var undir 13. desember 2007. Eftir að upphaflegi Lissabon-sáttmálinn hafði verið felldur í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi vorið 2005 beitti Piris sér fyrir breytingum á orðalagi hans. Á þeim grunni reyndist unnt að leiða smíði sáttmálans til lykta og síðar samþykkt.

Piris hallmælir Lissabon-sáttmálanum

Í þessu ljósi er athyglisvert að kynnast þeim sjónarmiðum sem Piris hefur nú til lausnar á vanda ESB. Hann ritaði grein um málið í The Financial Times 3. nóvember 2011 undir fyrirsögninni: Sjálft lögmæti ESB er í húfi.

Í upphafi greinarinnar segir Piris að Lissabon-sáttmálinn hafi ekki skilað því sem að var stefnt og síðan:

„Þetta er sársaukafull játning. Ég vann lengi og lagði hart að mér við að semja sáttmála sem hentaði 27 aðildarríkjum. ESB er þunglamalegt og ófært um að taka hraðar ákvarðanir. Þar er erfitt að framkvæma reglur til að hafa stjórn á innri markaðnum, Schengen-samstarfinu eða eiga samvinnu um varnarmál. Framkvæmdastjórnin er veik. Ákvarðanakerfi sem byggist á því að allt falli í sama mót hentar ekki sundurlyndu sambandi. Í stað þess að bregðast hratt og ákveðið við atburðum er líklegra að ESB taki jóðsótt og það fæðist lítil mús. Það hillir undir áhrifaleysi.

Það er tímabært að viðurkenna að stækkun ESB úr 15 ríkjum í 27 gekk of hratt fyrir sig. Íbúar ESB skilja ekki lengur tilgang ESB, stjórnmálamarkmið þess og hver eru landfræðileg mörk þess. Þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þrátt fyrir aukin völd sem það hefur fengið með sáttmálum frá því í Maastricht er ESB-þingið, sem ætlað er að veita ESB lýðræðislegt lögmæti, að mörgu leyti misheppnað.

Ég verð að segja hlutina vafningalaust: sjálft lögmæti ESB er í húfi. Að vinna almenningsálitið á sitt band á sama tíma og barist er við lýðskrum er erfitt verkefni þegar taka verður erfiðar ákvarðanir vegna evru-kreppunnar. ESB hefur hins vegar ekki efni á því að fá á sig þann stimpil að það standi aðeins fyrir niðurskurði. Það verður að skapa sér víðtækara pólitískt hlutverk sem vekur vonir um betri framtíð.

Er þetta unnt? Með hliðsjón af þeim grundvallarágreiningi sem ríkir meðal aðildarríkjanna 27 virðist útilokað að ríkin 27 komi sér saman um endurskoðun á sáttmálum ESB sé litið til skamms og meðallangs tíma. Hitt er hins vegar hættulegt að halda áfram á sömu braut. Verði það gert er hætta á því að sambandið verði enn veikara og klofni jafnvel í næstu kreppu.“

Þegar þessi texti er lesinn er augljóst að höfundinum er þungt fyrir brjósti. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að regluverkið sem hann mótaði í því skyni að auðvelda samstarf 27 ríkja stenst ekki áraunina. Það verður ekki haldið lengra á sömu braut. Framkvæmdastjórn ESB er veikburða og skiptir æ minna máli, ESB-þingið er að mörgu leyti misheppnað. Breyta verður undirstöðunum og huga að innviðunum eigi byggingin sjálf að standa áfram.

ESB skipt í tvo hluta

Hver er leið Piris út úr vandanum? Hún er hin sama og Nicolas Sarkozy vék að í ræðu sinni í með námsmönnunum Strassborg hinn 8. nóvember 2011, þegar hann ræddi tveggja hraða (two speed) ESB. Piris vill skipta Evrópusambandinu. Hann segir:

„Það er einfaldlega óhugsandi að ímynda sér miðstýrt myntsamband án þess að ríkisfjármálum og efnahagsmálum sé miðstýrt. Ólíklegt er þó að takist að halda í horfinu. Til að reyna að bjarga sér ættu aðildarríki evru-svæðisins að minnsta kosti að nýta sér til fulls heimildirnar í 136 gr. STESB (samningsins um starfsemi Evrópusambandsins). Þótt það sé gert verður enn pólitískt flókið að tryggja lýðræðislegt eftirlit með töku ákvarðana innan núverandi stofnanakerfis.

Miklu betra væri að huga að tveggja hraða (two-speed) ESB þar sem yrði framvarðarsveit, líklega mynduð af ríkjunum 17 sem nú nota evru. Hér mætti velja „mjúka“ eða „djarfa“ leið. Hvort sem gert yrði mundi nánari samvinna einkum ná til efnahags- og ríkisfjármála. Hún gæti þó einnig náð til mála sem snerta lífshagsmuni fólks: umhverfisvernd, samtarf í réttarfarsmálum, sakamálum og einkamálum, ný stjórnmálaréttindi einstaklinga og betra skipulag á innflytjendamálum.

Yrði mýkri leiðin valin mundu áhugasöm evru-ríki að fullu nýta sér ákvæði sáttmálanna til að vinna að nánara samstarfi. Við samvinnu innan ramma ESB yrðu aðildarríki að virða ákvarðanir sem þingið og framkvæmdastjórnin tækju með þátttöku fulltrúa ríkjanna 27. Við þessar aðstæður kynni þó enn að skorta lýðræðislegt lögmæti og viðunandi eftirlit með töku ákvarðana jafnvel þótt þátttöku-ríkisstjórnir ynnu náið með þjóðþingum sínum.

Yrði djarfari leiðin valin mundu áhugasöm evru-ríki gera viðbótarsamning sem félli að alþjóðalögum og ESB-lögum. Í honum yrði að finna frekari skuldbindingar ríkjanna og jafnframt skilgreiningu á stofnunum og reglum sem giltu um viðbótarsamstarf þeirra og tryggðu sem besta framkvæmd þess.

Til sögunnar kynni að koma þing með fulltrúum þjóðþinga og lítil stjórnsýslustofnun með valdsvið án afskipta framkvæmdastjórnarinnar. Undir eftirliti ESB-dómstólsins yrðu þátttökuríkin áfram verða bundin að ESB-lögum þar á meðal lögum um innri markaðinn. Þau yrðu einnig skuldbundin til að ganga hvorki gegn rétti né hagsmunum annarra ESB-ríkja. Um yrði að ræða tímabundinn hóp sem yrði opinn öðrum og veitti þeim aðstoð sem vildu ganga í hann og væru færir til þess.“

Af greininni má ráða að Piris hallist frekar að djarfari eða róttækari leiðinni en hinni mjúku lausn. Hann sér galla á henni því að gráa svæðið í kringum framkvæmdastjórnina yrði varasamt eins og öll grá svæði í alþjóðasamskiptum og stjórnmálum almennt.

Áhrif á Sarkozy

Ástæðulaust er að efast um að tengsl séu á milli þessarar greinar Piris og orða Sarkozys í Strassborg. Piris veitti frönskum stjórnmálamönnum og þar á meðal Sarkozy mikilvæg ráð um leið út úr Lissabon-vandanum eftir Frakkar felldu sáttmálann 2005. Þau ráð dugðu Sarkozy vel í forsetakosningabaráttunni á árinu 2006 og 2007. Ekki er ólíklegt að enn taki hann mark á Piris þegar stjórnskipunarmál ESB ber á góma. Fimm dögum eftir að Piris birti grein sína viðraði Sarkozy svipuð sjónarmið opinberlega.

Nú hefur framkvæmdastjórn ESB lagt fram tillögur um eigin íhlutun í fjárlagagerð einstakra ESB-ríkja. Tillagan var rökstudd með vísan til þess þegar lagður var grunnur að Bandaríkjum Norður-Ameríku með útgáfu skuldabréfa í nafni alríkisins. Framkvæmdastjórnin vill verja valdsvið sitt.

Nái hin róttæka tillaga Piris fram að ganga minnka áhrif framkvæmdastjórnarinnar því að hann vill koma á laggirnar nýrri stjórnsýslustofnun . Lítilli segir hann, hver gerir það ekki þegar lagður er grunnur að nýrri opinberri stofnun? Í Brussel er orðið „lítill“ afstætt í þessu samhengi.

Í lok greinar sinnar í The Financial Times segir Jean-Claude Piris:

„Núverandi skipan ESB dugar ekki lengur. Það virðist ógjörningur að leysa viðfangsefnin innan núverandi reglna og með þátttöku allra aðildarríkja. David Cameron, forsætisráðherra Breta, sýnist hafa viðurkennt þetta þegar hann hvetur evru-ríkin til að stíga skref til að tryggja að hin sameiginlega mynt þjóni hlutverki sínu. Með því að stofna tímabundna framvarðarsveit, sem er þegar tekin að láta að sér kveða, gæti tekist að hemja ESB kreppuna. Með þessu kynni einnig að takast að brjóta auknu lýðræðislegu lögmæti leið án þess að breyta megineinkennum ESB. Lausnirnar eru fyrir hendi. Það skortir pólitískan vilja.“

Piris segir beinlínis ógjörning að leysa vanda ESB og evru-svæðisins innan núverandi ESB-reglna. Þarna er fast að orði kveðið hjá sáttmálasmiðnum sjálfum. Lögmætisreglan setur stjórnendum ESB of þröngar skorður að hans mati.

Í setningunni „Lausnirnar eru fyrir hendi“ segir hinn reynslumikli og mikilsvirti lögfræðingur: Við lögfræðingarnir getum leyst þetta mál. Þið getið treyst okkur til að skapa Evrópusambandinu nýtt lögmæti með því að skipta því í tvennt. Þið þurfið bara að ákveða hvernig þið viljið haga skiptingunni. Af klókindum segir hann að unnt sé að haga málum þannig að koma á fót „tímabundnum“ kjarna – öðrum ríkjum verður með öðrum orðum ekki bannað að ganga til liðs við hann. Hitt er óhugsandi að slakað verði á miðstjórn innan ESB eða dregið úr yfirríkjavaldi hafi einu sinni tekist að fá ríkisstjórnir og þjóðþing til að samþykkja það.

Hreinskilni um Ísland

Jean-Claude Piris er tengur Íslandi. Hann var hér í janúar og þá tók Klemens Ólafur Þrastarson, blaðamaður á Fréttablaðinu, við hann viðtal sem birtist 29. janúar 2011. Þar sagði meðal annars:

„Klemens Ólafur: Þannig að þetta er ekki góður tími til að sækja um [aðild fyrir Ísland]?

Piris: Svona er þetta. Ef þið hefðuð sótt um fyrir nokkrum árum hefði þetta verið auðvelt. En núna þurfið þið að taka tillit til þess að það þarf að sannfæra fólk um að hleypa ykkur inn.

Klemens Ólafur: Það hefur heyrst að þar sem ESB sé veikt fyrir sem stendur vegna efnahagskreppunnar kæmi það illa út fyrir það ef aðild væri hafnað af Íslendingum. Mér heyrist ekki að þú takir undir þetta?

Piris: Það er kannski eitthvað til í því að ESB sé veikt núna en heldurðu að með Íslandi yrði það sterkara? [Hlær]. ESB er ekki að sækja um aðild að Íslandi heldur öfugt. Nei, ég er ekki svo viss um að þetta sé rétt kenning. Höfnun væri kannski hnekkir fyrir ESB, ef Ísland nálgaðist sambandið hlaðið kostum og gjöfum sem myndu bæta sambandið, en hvað eruð þið að bjóða, hvað takið þið með ykkur í ESB?

Ef maður er hlutlaus og raunsær þá breytir það ekki miklu fyrir ESB að Ísland gangi inn. Nema hvað að ákvarðanataka í mikilvægustu málunum verður þyngri í vöfum, því einu atkvæði með neitunarvald verður bætt við og enn einu tungumáli til að þýða öll skjölin á og svo framvegis. Það er ekki beint guðsgjöf. Þið hafið reyndar eitt að bjóða og það er fiskurinn. Og samningaviðræðurnar verða mjög erfiðar því þið munið ekki vilja gefa neitt eftir af honum, eða eins lítið og hægt er. Þannig að það er einn hlutur og um hann má ekki semja. Afstaða Íslands er sú að semja um hvað ESB hefur að gefa Íslandi. Þetta er skiljanlegt, en ekki halda að ESB sé hrætt við að Ísland hafni ESB því ESB er ekki að biðja um Ísland.“

Þetta var afstaða Piris til umsóknar Íslands í janúar 2011. Miðað við grein hans í The Financial Times í nóvember 2011 má ætla að hann telji Ísland með sínar sérkröfur eiga enn minna erindi inn í ESB á þessari stundu.

Hið einkennilega er að málsvarar aðildar Íslands að ESB, þeir sem hæst tala um nauðsyn upplýstrar umræðu, vilja helst ekkert af þeim vanda innan ESB vita sem hér hefur verið lýst. Hann snertir þó sjálfan kjarna samstarfsins og hvort Evrópusambandið heldur áfram á barmi upplausnar eða tekur sér tak og gjörbreytist.

Í því fólst mikið dómgreindarleysi sumarið 2009 að sækja um aðild að ESB með þeim aðferðum sem það var gert. Að haldið sé áfram viðræðum við ESB núna eins og ekkert hafi í skorist og frekar beri að flýta þeim en seinka er aðeins í anda þess dómgreindarbrests. Það er mál að linni og Íslendingar gefi sér tóm til að endurmeta stöðu sína og taka síðan upp þráðinn að nýju ef þeir kjósa gagnvart nýju Evrópusambandi.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS