Fimmtudagurinn 22. apríl 2021

Akkilesarhællinn


Bjarni Jónsson
14. maí 2012 klukkan 10:29

Hæll Akkilesar er mest allra líkamshluta í umræðunni þessi misserin vítt og breitt um heiminn og ekki sízt í Evrópu. Það, sem átt er þá við, er evran. Sameiginlega myntin, sem verið hefur 12 ár við lýði, er að ganga af hagkerfi margra Evrópulanda dauðu, en hagkerfi, sem ekki getur séð þegnum sínum nokkurn veginn fyrir fullri vinnu til langframa, er einskis nýtt og raunar dautt. Þessi kunna að verða örlög flestra landa evrusvæðisins, þar sem vextir eru nú hærri en hagkerfin ráða við. Íslendingar búa reyndar nú við óskiljanlega háa vexti, þó að þeir hafi ekki tekið upp evru og skorti reyndar allar forsendur til þess undir frámunalega lélegri stjórn peningamála og ríkisfjármála. Alls staðar sitja þar gamlaðir vinstri menn á fleti fyrir, og furstinn af Svörtu loftum, gamall aðdáandi Trotzkys, verður embætti sínu reyndar hvað eftir annað til háborinnar skammar.

Í evrulöndunum eru svo hrikalegar andstæður, að nánast óhugsandi er, að þetta harðlæsta myntsamstarf fái þrifizt að óbreyttu. Stærstu þjóðirnar munu þurfa að gjörbreyta um stefnu, ef dæmið á að ganga upp. Með öðrum orðum þarfnast evran umbóta á efnahagskerfi Frakklands, sem er allt of miðstýrt og ríkissjóður Frakklands mergsýgur franska hagkerfið í anda Napóleóns Bónaparte; Þjóðverjar þyrftu að tileinka sér eyðslusemi og sætta sig við mun meiri verðbólgu en nú er í Þýzkalandi og meiri en tíðkast í hinum evru-ríkjunum, og Ítalir þurfa að tileinka sér aukinn stjórnmálaþroska, en þar hefur ríkt stjórnmálalegur óstöðugleiki frá lokum Heimsstyrjaldarinnar seinni, og þeir sitja nú uppi með ókosinn forsætisráðherra í skjóli búrókratanna í Brüssel.

Þjóðverjar bera nú orðið Ægishjálm yfir aðrar þjóðir evrusvæðisins, hvað samkeppnihæfni varðar. Ástæðan er m.a. sú, að eftir endursameiningu Þýzkalands árið 1990 varð verðbólga í Þýzkalandi meiri en Þjóðverjum þótti góðu hófi gegna. Það varð því þjóðarsátt í Þýzkalandi um að herða sultarólina og stöðva launahækkanir um hríð. Ríki og fylki tóku líka til hjá sér. Þjóðverjar náðu verðbólgunni vel niður fyrir 2,0 %, sem er viðmið ECB, banka Evrópusambandsins, ESB, þó að hún sé um þessar mundir 2,1 % vegna hækkana á eldsneyti, hrávöru og matvælum.

Um miðjan 1. áratug 21. aldarinnar höfðu aðhaldsaðgerðir Þjóðverja staðið í einn áratug og borið svo góðan árangur, að hagkerfi þeirra var orðið hið samkeppnihæfasta á evrusvæðinu. Er þarna fagurt fordæmi fyrir Íslendinga að leita í smiðju Þjóðverja um styrka hagstjórn, sem nýtur svo mikils trausts fjármálamarkaða, að vextir á skuldabréfum þýzka ríkisins eru aðeins 1 %-2 % og meðal hins lægsta, sem þekkist (raunvextir í kringum 0 %).

Aðrar þjóðir sváfu flestar á verðinum og vöknuðu upp við það, að framleiðslukostnaður útflutningsatvinnuvega þeirra var kominn algerlega úr böndunum. Evran hafði hækkað upp úr öllu valdi vegna hins gríðarlega styrks þýzku útflutningsvélarinnar. Nú höktir allt evrusvæðið utan Þýzkalands og mænir til Þjóðverja eftir ölmusu. Það er borin von þessara landa, að Þjóðverjar breyti nú lifnaðarháttum sínum og hætti á, að verðbólgan grafi um sig í þjóðfélagi þeirra. Hin ríkin munu aðeins ná sér á strik, ef verðbólgan hjá þeim verður minni en í Þýzkalandi, og þá eiga þessar þjóðir á hættu vítahring verðhjöðnunar, en út úr honum getur reynzt erfitt að komast. Evrulöndin eru í illvígum vítahring, en þau skyldu minnast þess, að það voru ekki Þjóðverjar, sem báðu um þessa evru. Það voru Frakkar, sem gerðu það að skilyrði fyrir samþykkt á endursameiningu Þýzkalands, að Þjóðverjar legðu niður stolt sitt, die Deutsche Mark, DEM.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að verst hafa Grikkir farið út úr evrusamstarfinu. Á 6 ára skeiðinu, 2007-2012, hefur samdráttur gríska hagkerfisins numið um 20 %. Þetta er með ólíkindum og sýnir, að gríska hagkerfið er að hruni komið. Þar er atvinnuleysi ungmenna 50 % og í heildina líklega að verða 25 %. Miðstéttin er að verða fátækt að bráð. Árið 2013 munu ríkisskuldir Grikklands nema um160 % af VLF þrátt fyrir allar niðurfellingarnar. Það ræður engin þjóð við svo miklar skuldir, sízt af öllu þjóð í stöðugum samdrætti. Þetta getur aðeins endað á einn veg fyrir Grikkjum; með þjóðargjaldþroti. Afleiðing núverandi ástands er stjórnmálaleg upplausn, og hún mun valda því, að björgunarsjóður evrunnar mun halda að sér höndum, og þá er evrusagan öll í Grikklandi. Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri.

Þar með munu þeir hrökkva út úr evrusamstarfinu. Þegar tekur að kvarnast úr því, er líklegt, að ekki verði ein báran stök. Löndin á Pýreneaskaganum verða næstu fórnarlömbin á eftir Grikkjum. Hvorki Portúgalir né Spánverjar geta búið við núverandi vexti Mario Draghi í Frankfurt né ávöxtunarkröfu yfir 6 % á ríkisskuldabréfum, sem nú er reyndin, þó að íslenzki fjármálaráðherrann telji Íslendinga vel setta með slíkt vaxtastig. Mia EUR 100 vantar inn í spænska banka, því að vanskilin eftir eignabólu og í miklu (yfir 20 %) og langvarandi atvinnuleysi eru gríðarleg.

Francois Hollande ætlar að blása lífi í hagvöxt Frakklands með lántökum að hætti krata og með fjölgun opinberra starfa. Hollande hefur sennilega búrókratana í Berlaymont á sínu bandi, og hann hefur allt rauðvínsliðið sín megin. Á móti þessu standa Þjóðverjar og fjármálamarkaðirnir, sem lánað hafa þessum löndum stórfé. Þeir trúa ekki á aukningu ríkisumsvifa sem lausn á vanda þessara ríkja. Allt stefnir í átök norðurs og suðurs, og af og frá er, að evran í sinni núverandi mynd muni lifa þau af.

Inn í þetta öngþveiti eiga Íslendingar náttúrulega ekkert erindi. Þeir verða að ná tökum á sínum málum sjálfir. Að því loknu geta þeir tekið sjálfstæða ákvörðun um, hvaða mynt þeir kjósa að nota. Það er hjákátlegt að halda viðræðum áfram um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, sem logar stafnanna á milli, en hefur samtímis í margvíslegum hótunum við Íslendinga út af Icesave fyrir Eftadómstólinum og í samkrulli við samkeppniaðila okkar og frændur, Norðmenn, út af makrílnum, sem nýhlaupinn er á snæri okkar Íslendinga og skilar um þessar mundir um 30 milljörðum kr útflutningsverðmætum á ári.

Það á að binda endi á þessar viðræður strax með fyrirvara, leggja spilin á borðið fyrir kjósendur og leita staðfestingar þeirra á viðræðuslitum samhliða næstu Alþingiskosningum. Til þess eru næg efnislök rök, sem beita má á þann hátt, að mótaðilinn þurfi ekki að ganga sneyptur frá borði, heldur hafi ástæðu til að skilja, að forsendur „samningaviðræðna“, sem í raun eru ekkert annað en aðlögun að kröfum og stjórnkerfi ESB, hafa tekið kollsteypu.

Garðabæ, 13. maí 2012

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Bjarni Jónsson er fæddur í Reykjavík 19. janúar 1949, og voru foreldrar hans Húnvetningar, sem fluttust úr Miðfirði og Vatnsdal til Reykjavíkur í upphafi seinna stríðs. Bjarni varð stúdent frá stærðfræðideild MR 1969, nam við verkfræðideild HÍ 1969-1972 og útskrifaðist með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskóla Noregs, NTH, í Þrándheimi 1974 . Hann réðist til hönnunarstarfa hjá Kværner Engineering AS í Bærum í Noregi strax eftir nám. Til Íslands fluttist Bjarni ásamt fjölskyldu sinni haustið 1976 og hóf þá störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins við að reisa aðveitustöðvar m.a. í Byggðalínu. Haustið 1980 var hann ráðinn sem aðstoðarmaður rafmagnsstjóra ISAL í Straumsvík og tók við stöðu rafmagnsstjóra fyrirtækisins 1. janúar 1981 og gegnir þeirri stöðu síðan að breyttu breytanda. Bjarni kvæntist Þuríði Stefánsdóttur, hjúkrunarforstjóra, 12. ágúst 1972. Þau eiga 4 börn og 6 barnabörn.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS