Föstudagurinn 23. apríl 2021

ESB: Sífellt meiri lýðræðishalli


The Economist
14. júní 2012 klukkan 12:42

Hvarvetna má lesa hugleiðingar um hvernig takast eigi á við evru-vandann sem magnast dag frá degi þrátt fyrir að fjármunum sé dælt í bankakerfi eða ríkisfjárhirslur með skilyrðum um aðhald og uppstokkun í ríkisrekstri. Vikuritið The Economist birti hinn 26. maí 2012 úttekt á hugmyndum um breytingar á ESB. Þessi úttekt birtist hér í heild. Hún varpar ljósi á hluta þeirra hugmynda sem eru til umræðu. Þar er einnig vikið að grísku þingkosningunum sunnudaginn 17. júní.

Fyrir fáeinum dögum var sagt frá því að forystumenn leiðtogaráðs ESB, framkvæmdastjórnar ESB, Seðlabanka Evrópu og evru-ráðherraráðsins ynnu með leynd að því að móta tillögur um framtíðarskipan mála á evru-svæðinu. Þær yrðu til umræðu á fundi leiðtogaráðs ESB 28. og 29. júní nk. Þá hefur Angela Merkel Þýskalandskanslari gefið til kynna að „tveggja-hraða“ ESB komi til álita, það er að pótlitískt samstarf sumra ESB-ríkja verði nánara en annarra.

Bj. Bj.

Sífellt meiri lýðræðishalli

Erfitt mun reynast að fella kröfuna um aukin samruna vegna evru-kreppunnar að vaxandi mótþróa meðal evrópskra kjósenda.

Undanfarna sex áratugi hafa skref í átt til meira samstarfs Evrópuuríkja verið tekin á válegum tímum vegna yfirvofandi hættu. Ekkert hefur þó verið tekið eftir að hörmungarnar hafa gerst. Næsta stökk í átt til aukins samruna virðist ætla að brjóta þessa reglu. Allar skynsamlegar leiðir út úr sjálfskaparvítinu vegna evru-kreppunnar krefjast þess að stigin verði skref í átt til ríkisfjármálasambands og jafnvel einnig pólitísks sambands, ekki síst vegna þess að sum ríki eins og Þýskaland vilja aukin pólitískan samruna og segja að samvinnu þess verði að kaupa því verði. Til þess að einhver starfhæf lausn finnist verða elíturnar í Evrópu að takast á við vanda sem þær hafa lengi forðast: lýðræðishallann sem eykst með auknum samruna. Þær verða að sinna þessu verkefni við hinar verstu aðstæður.

Nærri því stöðugir leiðtogafundir undanfarnar vikur hafa ekki dregið neitt úr hættunni á því að Grikkir segi skilið við evruna. Hættan á því magnaðist mikið eftir þingkosningarnar 6. maí sem leiddu ekki til neins starfhæfs meirihluta á þingi. Þessi hætta minnkar ekki þegar dregur að kosningum 17. júní. Hún getur orðið að veruleika að þeim loknum.

Samstaða virðist vera að myndast um að hvað sem líður stöðu Grikkja gagnvart evrunni sé óhjákvæmilegt að auka samruna innan evru-svæðisins, þrengja verði að svigrúmi ríkisstjórna einstakra landa. Einhverjar þjóðir kunna um einhvern tíma við sérstakar aðstæður að sætta sig við að þrengt sé að ríkisstjórnum þeirra: Ítalir og Grikkir (þar til nýlega) hafa búið við forsætisráðherra sem aldrei hafa verið kosnir til ábyrgðarstarfa, þeir komust til valda sem teknókratar vegna þrýstings utanaðkomandi lánardrottna. Annars staðar og þegar til langs tíma er litið virðist fólk vilja setja stjórnvöldum sínum skorður með atkvæði sínu á kjördag frekar en að aðrir þröngvi þeim í embætti sín.

Hefðir þú aðeins spurt

Í nýrri skýrslu sem Ulrich Guérot og Thomas Klau hafa skrifað fyrir European Council on Foreign Relations (ECFR) vitna þeir í þýskan embættismann sem hittir naglann á höfuðið þegar hann segir: „veikleiki kerfisins snertir ekki útgjöld og hagvöxt heldur lögmæti“. Verði gripið til ráðstafana til að leysa evru-kreppuna með auknum pólitískum samruna án þess að taka tillit til þessa leiðir það í besta falli til þess að miklum pólitískum vanda verður ýtt á undan sér. Í versta falli verður ekki unnt að hrinda breytingunum í framkvæmd vegna pólitísks veruleika á líðandi stundu.

Arkitektar Maastricht-sáttmálans frá 1992 en í þeirra hópi voru Jacques Delors, þáv. forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Helmut Kohl, þáv. Þýskalandskanslari, vildu alla tíð að pólitísku sambandi yrði komið á samhliða myntsambandinu sem mælt var fyrir um í sáttmálanum. Sumir gagnrýnendur myntsamstarfsins, þar á meðal þýski seðlabankinn, Bundesbank, sögðu að ekki yrði unnt að halda úti sameiginlegri mynt án pólitísks samruna.

Maastricht hlaut sömu örlög og mörg önnur stórvirki, hin endanlega mynd varð ekki alveg sú sem arkitektarnir vildu. Reglur voru settar um fjárlagahalla sem vissulega teygðu sig inn á svið pólitískra ákvarðana í einstökum aðildarríkjum. Þær voru hins vegar ekki teknar alvarlega og fljótlega brotnar án þess að fundið væri að því.

Þá var farin sú leið sem síðan er orðin að einskonar venju innan ESB að ekki var leitað álits nema takmarkaðs hluta kjósenda á sáttmálanum. Þeir sem fengu að segja álit sitt skiptust í nær jafnar fylkingar: í Frakklandi var Maastricht-sáttmálinn samþykktur með örlitlum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Flestir íbúar evru-svæðisins urðu að sætta sig við myntina eins og þeir hafa sætt sig við Evrópusambandið (ESB) því að þar til kreppan varð virtust þeir hafa augljósan hag af henni eða að minnsta kosti ekki skaðast vegna hennar. Þegar mál snerust á verri veg tóku kjósendur hins vegar að mótmæla.

Frá því að evru-kreppan kom til sögunnar snemma árs 2010 hefur ekki færri en níu af 17 stjórnarleiðtogum evru-landanna verið ýtt úr embætti. Stuðningur almennings við ESB hefur minnkað samkvæmt könnunum. Kjósendur hafa hallast meira en áður að smáflokkum. Í Grikklandi fengu öfgahópar byr í seglin, nærri 70% atkvæða runnu til flokka sem vildu breyta eða hafna alfarið neyðarlána-samningnum sem ríkið hafði gert. Svipuð þróun en þó mildari er greinanleg frá Finnlandi til Hollands og Þýskalands. Það getur verið erfitt að greina á milli óvildar í garð ríkjandi stjórnvalda og óvildar í garð Brussel-valdsins – í því felst einmitt hluti vandans. Þegar engin leið er fær til að hafa áhrif á valdhafana í Brussel nema í gegnum ríkisstjórnir sem virðast ekki hlusta grefur um sig vanmetakennd sem leiðir til kaldhæðni og vantrúar á stjórnmálum.

Lýðræði, evruræði

Lýðræðishalli vegna stofnana ESB er ekki nýr. Þeir sem hófu vegferðina í upphafi til aukins samruna Evrópuríkja settu sér það mark að forðast lýðskrum – þeir litu á það sem tæki fasista og kommúnista – þeir unnu án tilfinningahita skipulega og stig af stigi að því að efla samband ríkjanna og útiloka þannig stríð á meginlandi álfunnar. Charles de Gaulle [Frakklandsforseti] á þakkir skildar fyrir markvissa íhlutun sína. Með stefnu sinni sem kennd var við „auða stóla“ og fólst í að neita að senda franska embættismenn til funda í Brussel lamaði hann starf þeirra stofnana sem voru að fæðast. Þær urðu þar með ekki eins miðstýrðar og að var stefnt heldur tóku meira mið af milli-ríkisstjórnasamstarfi. Hins vegar héldu hinar voldugu stofnanir sjálfar velli án aðildar ríkisstjórna. [Hér er vísað til átaka um stjórn sameiginlegra mála á sjöunda áratugnum þegar de Gaulle andmælti reglum um meirihlutaákvarðanir á hinum evrópska vettvangi og hafnaði því að meirihluti gæti bundið hendur franskra stjórnvalda. Deilan var leyst með svonefndu Lúxemborgar-samkomulagi sem hvarf endanlega úr sögunni með Lissabon-sáttmálanum.]

Þótt um væri að ræða elítu-verkefni frá fyrsta degi þar sem lítið var gefið fyrir smáræði á borð við samþykki kjósenda og enn minna fyrir að kalla mætti stjórnendur til ábyrgðar settu lýðræðisstraumar þó svip sinn á evrópska verkefnið frá upphafi. Þar skipti mestu að aðeins lýðræðisríki voru gjaldgeng í samstarfið. Milli-ríkisstjórna-ráðið þar sem ráðherrar sitja og leiðtogaráðið – sem nú er aðal-stefnumótandi – voru þannig fulltrúar þjóðanna. Framkvæmdastjórnin – ríkisstjórnir velja fulltrúa í hana – skyldi leggja fram lagafrumvörp; þau yrðu ráðherraráðið og ESB-þingið að samþykkja, þar með yrði lögmæti tryggt. Í upphafi tilnefndu ríkisstjórnir einnig þingmennina úr hópi kjörinna þingmanna á þjóðþingum einstakra landa. Þingmennirnir hafa verið kjörnir í beinum kosningum síðan 1979.

Leitast var við að koma til móts við kröfur um lýðræðislega ábyrgð á fyrstu árum ESB-samstarfsins með því að fela ríkisstjórnum að móta stefnu og skipa menn í æðstu embætti. Þá var kröfunni um ábyrgð svarað með því að það sem skipti evrópska borgara í raun máli væri í raun „lögmæti byggt á árangri“: kjósendur mundu sætta sig við skipan mála leiddi hún til þess að hagur þeirra batnaði á augljósan hátt, efnahagslíf blómstraði og störfum fjölgaði, þetta gæti jafnvel leitt til þess að kjósendur fögnuðu slíkum stjórnarháttum.

Loks var því haldið fram að evrópska verkefnið snerist einkum um tæknilega úrlausn mála eins og samkeppni, lög og reglur um innri markaðinn sem sinna mætti af gleði og vandræðalaust án afskipta kjósenda (í flestum ríkjum er tekist á við þessi mál innan stjórnsýslu þeirra). Rökin voru þau að færi ESB ekki inn á mikilvægustu þætti stjórnmálanna í augum hins venjulega kjósanda – eins og skattamál, ríkisútgjöld, menntun, varnir eða heilsugæslu – skipti ekki máli hvort unnt væri að kalla embættismenn þess til ábyrgðar.

Svörin vantar

Nú þegar kreppan er komin til sögunnar vantar öll skynsamleg svör til að verja lýðræðishallann. Ákvarðanir með auknum meirihluta sem komu til sögunnar með samningnum um innri markaðinn á níunda áratugnum og stækkun sambandsins síðan hafa leitt til þess að þjóðum, einkum hinum smærri, finnst sér oft ýtt til hliðar og að raddir kjósenda þeirra heyrist ekki; kerfið er ógagnsætt, flókið og fjarlægt. Ríki utan evru-svæðisins koma ekki að sumum ákvörðunum sem getur aukið á óttann um að verða ýtt til hliðar; „sex-liða“ reglurnar um ríkisfjármál sem samþykktar voru á síðasta ári og hinn nýi ríkisfjármálasamningur draga enn úr getu ríkisstjórna á evru-svæðinu til að ráða eigin örlögum. Hér ræður úrslitum að í samningnum er að finna ákvæði um að sjálfkrafa skuli grípa til sekta gegn ríkjum sem ekki fara að reglunum, nema samþykkt sé með auknum meirihluta allra annarra ríkja að það skuli ekki gert. Francis Mer var nýorðinn fjármálaráðherra Frakka árið 2002 þegar hann hafði að engu óskir framkvæmdastjórnarinnar um niðurskurð á fjárlögum í samræmi við stöðugleika- og vaxtarsáttmálann með þessum orðum: „Forgangsmál Frakka eru önnur.“ Pierre Moscovici, nýr fjármálaráðherra François Hollandes, mun alls ekki geta svarað af sama þótta. Þessi skortur á heimild ríkisstjórna til að eiga síðasta orðið veldur ekki aðeins áhyggjum i skuldugum ríkjum heldur einnig meðal þeirra sem eru í hópi lánveitenda eins og í Hollandi – og jafnvel einnig í sambandslöndum Þýskalands.

Önnur svör við lýðræðishallanum virðast jafnvel enn veikari. „Lögmæti byggt á árangri“ á erfitt uppdráttar þegar árangurinn sem mótaði jafnan skoðun kjósenda birtist í kreppu sem þeir ollu ekki og niðurskurði sem þeir vilja ekki. Hugmyndin um að ESB snúist aðeins um fjarlæg, tæknileg úrlausnarefni er hlægileg nú á tímum þegar í nafni evrunnar er ruðst inn á þrengsta starfsvettvang fullvalda ríkisstjórna, eins og skýrast má sjá á Grikklandi, Írlandi og í Portúgal. en einnig þegar litið er til allra aðildarríkja ríkisfjármálasamningsins. Eigi evran að halda lífi verður örugglega haldið áfram á sömu afskiptabraut í hennar nafni.

Hvað má svo segja um ESB-þingið? Ef eitthvað er hefur það aukið á lýðræðishallann sem þingið átti að minnka. Með hverjum nýjum ESB-sáttmála hafa völd þingsins aukist að kröfu þingmanna meðal annars með ríkisfjármálasamningnum; á hinn bóginn hefur lögmæti þingmannanna ekki vaxið að sama skapi. Innan framkvæmdastjórnarinnar og í höfuðborgum aðildarríkjanna minnkar þolinmæði gagnvart þinginu jafnt og þétt. Þingmenn styðja næstum alltaf nýjar reglur og þeir samþykkja ávallt tillögur um ný útgjöld. Sé sagt að þetta endurspegli vilja kjósenda kemur það alls ekki heim og saman við sífellt minni þátttöku í kosningum til ESB-þingsins. Næstum alls staðar fara fleiri á kjörstað þegar kosið er til viðkomandi þjóðþings. Vegni smáflokkum vel í héraðs- eða þingkosningum – eins og Sjóræningjaflokknum í Þýskalandi eða „Fimm stjörnu flokki“ Beppe Grillos á Ítalíu – vegnar þeim jafnvel enn betur þegar kosið er til þingsins í Strassborg.

Val á forseta

Þurfi að auka lýðræðislegan trúverðugleika vegna nánara samstarfs evru-ríkjanna skortir ekki hugmyndir um hvernig best sé að gera það. Augljósa leiðin er sú að minnka miðstýrð völd. Hömlur á ríkissjóðshalla einstakra ríkja, eins og settar eru með ákvæðum ríkisfjármálasamningsins um að í stjórnlög ríkja skuli setja ákvæði um jöfnuð í ríkisfjármálum, þurfa ekki að fela í sér sameiginlegar reglur um útgjöld eða samræmda skattheimtu. Nálægðareglan [ákvörðun skal taka eins nærri þeim sem hún snertir og unnt er þýð.] sem mótuð var fyrir löngu ætti að veita stjórnvöldum einstakra landa eins mikið svigrúm og kostur er. Hvað sem því líður munu meiri kröfur um sameiginlega ríkisfjármálastefnu þrengja að ákvörðunarvaldi einstakra ríkja og til mótvægis kann að reynast nauðsynlegt að gera ráðstafanir sem auka lýðræðislegt lögmæti.

Gamaldags sambandsríkissinnar segja að þetta sýni að nú sé rétti tíminn til að auka enn vald ESB-þingsins. Ein leið væri að gera kosningar til þess einnig að óbeinum kosningum á forseta framkvæmdastjórnarinnar. Í þessari hugmynd felst að stóru þingflokkarnir þrír (EPP-miðhægrimenn, jafnaðarmenn og frjálslyndir) ættu allir að lýsa yfir stuðningi við einhvern einstakling í forsetastólinn og aðildarríkin ættu að koma sér saman um að velja frambjóðanda þess þingflokks sem fengi flest atkvæði í næstu ESB-þingkosningum 2014.

Ráðagerðir af þessu tagi taka ekki mið af því að ESB-þingið er frekar hluti vandans en lausn h – ESB-stofnunum er í nöp við það eins og ríkisstjórnum aðildarríkjanna og íbúum þeirra. Þýski stjórnlagadómstóllinn dregur lýðræðislegt ágæti ESB-þingsins í efa í dómi sínum um Lissabon-sáttmálann og segir að Bundestag, þýska þingið, sé reist á meira lögmæti.

Séu kosningar svarið við vandanum er önnur leið sú að fara fram hjá ESB-þinginu og kjósa forseta framkvæmdastjórnarinnar beinni kosningu. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, hallast að þessari skoðun og lýsti stuðningi við hana 17. maí 2012 þegar hann fékk Charlemagne-viðurkenninguna. Flokkur hans Kristilegi demókrataflokkurinn (CDU) undir stjórn Angelu Merkel Þýskalandskanslara lýsti stuðningi við beina kosningu forseta framkvæmdastjórnar ESB á þingi sínu í nóvember 2011. Þýskir jafnaðarmenn (SPD) hafa einnig áhuga á þessu.

Í þessu máli eins og ýmsum öðrum dugar þó ekki áhugi Þjóðverja einn. Bein kosning forseta framkvæmdastjórnarinnar krefst nýs sáttmála ESB (það á ekki við um tilnefningu samkvæmt ábendingu ESB-þingsins). Áður en evru-kreppan kom til sögunnar reyndist oft erfitt að knýja fram samþykki við breytingum á sáttmálum ESB. Lissabon-sáttmálinn kom til sögunnar vegna þess eins að 26 af 27 aðildarríkjum samþykktu hann án þess að leggja hann undir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í hinu 27., Írlandi, þurfti að kjósa tvisvar áður en stuðningur meirihluta fékkst.

Framkvæmdarvaldið og hinir afskiptu

Verði á annað borð að breyta sáttmálum ESB vakna ýmsar nýjar hugmyndir. Vernon Bogdanor, prófessor við King´s College í London, vill ganga lengra í beinum kosningum, hann vill að öll framkvæmdastjórn ESB verði kosin í allsherjarkosningu innan ESB-ríkjanna. Hann segir að nú sé ESB statt á svipuðu þróunarstigi og Bandaríkin upp úr 1780 þegar Alexander Hamilton greip til þess afdrifaríka ráðs að breyta skuldum einstakra ríkja í sameiginlega skuld þeirra allra og leggja á þann veg traustan grunn að sambandsríki, Bandaríkjum Norður-Ameríku. Bogdanor segir að nú sé tímabært að stíga skref í átt til sambandsríkis Evrópu með nýju lýðræðisátaki: hann vill með þeim rökum láta kjósa framkvæmdastjórn ESB. Hann segir við þá sem halda því fram að ekki sé til nein evrópsk demos [sameiginleg markmið] að með slíkum kosningum yrði unnt að skapa sameiginlegan vilja meðal ESB-þjóða.

Larry Siedentop, áður fræðimaður í Oxford, varar á hinn bóginn við hugmyndum á borð við þessar og kennir þær við „falskt lýðræði“. Sidentop tekur undir með þeim sem telja mikla vankanta á ESB-þinginu og efast um að unnt verði að bæta um betur með því að kjósa menn í nýja stofnun. Í bók sinni „Lýðræði í Evrópu“ sem kom út árið 2000 sýndi hann mikla framsýni þegar hann sagði vegna nýju sameiginlegu myntarinnar: „Elítur í Evrópu eiga á hættu að skapa djúpstæða siðferðilega og stjórnskipulega kreppu í Evrópu – lýðræðislega kreppu.“ Hann lagði til að menn yrðu tilnefndir til setu í öldungadeild, þeir yrðu valdir úr þjóðþingum einstakra ríkja; hann bendir þeim sem telja að lýðræði krefjist kosninga á að fram til ársins 1913 hafi bandarískir öldungadeildarþingmenn verið tilnefndir.

Annars konar og aðlaðandi uppsprettu lýðræðislegrar ábyrgðar kann að mega finna í þjóðþingum ESB-ríkjanna. Fram til 1979 var lífæð á milli ESB-þingsins í Strassborg og þjóðþinganna, sumir þingmenn sátu á báðum. Nú er fremur tilhneiging til keppni á milli hinna ólíku þinga en að menn líti á sig sem samherja við að veita framkvæmdavaldinu aðhald. Í Lissabon-sáttmálanum er aðeins gert ráð fyrir takmörkuðum áhrifum þjóðþinga. Charles Grant, forstjóri Centre for European Reform í London, segir að auka eigi þessi áhrif. Hann vill að COSAC fái aukið vægi en með því vísar hann til vettvangs sem er sameiginlegur fyrir Evrópnefndir þjóðþinga, þá komi jafnvel til álita að þingmenn frá aðildar-þjóðþingum sitji í Brussel til að efla samvinnu við ESB-þingið. Aðrir vilja að fjárlaganefndir þjóðþinga fái skilgreint hlutverk við að fylgja eftir og framkvæma ríkisfjármálasamninginn.

Viðleitni til að skapa jafnvægi milli milli-ríkisstjórnasamstarfs annars vegar og sambandsríkis hins vegar setur svip sinn á allar þessar umræður. Þeir sem vilja auka hlut þjóðþinga og ríkisstjórna hallast að sjálfsögu að fyrri kostinum. Klau hjá ECFR bendir á að í milli-ríkisstjórnasamstarfi séu meiri líkur en ella á því að Þjóðverjar, voldugasta þjóðin og einnig stærsti lánveitandinn, verði skotspónn hinna. Milli-ríkisstjórnarsamstarf er í þágu stórþjóða þess vegna vilja hinar minni auka vald stofnananna í Brussel.

Málstaður þeirra sem vilja auka hlut einstakra ríkja við stjórn evru-svæðisins á við mjög sterk rök að styðjast. Hvort sem Grikkir nota áfram evru eða ekki verður að efla pólitískan samruna á evru-svæðinu eða samstarfið liðast í sundur. Dýpra pólitískt samband gæti kallað á andsvör bæði meðal skuldugra ríka og lánveitenda og gert vonir um það að engu. Á síðasta ári fengu Sannir Finnar undir forystu Timos Soinis næstum 20% atkvæða, frá því að njóta lítils sem einskis stuðnings, vegna baráttu sinnar gegn neyðarlánum á evru-svæðinu. Í Hollandi felldi Geert Wilders ríkisstjórnina sem leiddi til þingrofs og nýrra kosninga. Hann berst nú ekki síður gegn neyðarlánum en gegn múslímum. Þjóðfylkingin í Frakklandi hefur lengi barist gegn evrunni eins og innflytjendum og evru-andstaða leiðtoga flokksins, Marine Le Pen, átti ríkan þátt í að henni vegnaði vel í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna 22. apríl 2012.

Sé gengið að því sem vísu að kjósendur láti andúð sína í ljós í kosningum til eigin þjóðþinga kynni þeim að þykja sjónarmið sín betur kynnt ef þingmenn landa þeirra og ríkisstjórnir ættu stærri hlut að ákvörðunum um mörk pólitísks sambands innan evru-svæðisins. Það kann hins vegar bera vott um of mikla bjartsýni að vænta slíks. Töluvert stór hópur kjósenda vill greinilega ekki lýðræðislegri útgáfu á ESB heldur vill hann allt annars konar stofnun. Þegar skoðanir eru mjög skiptar er erfitt að sjá hvernig unnt er að búast við því að nokkur gagnlegur sáttmáli fáist samþykktur af öllum þjóðunum 27 – einmitt þess vegna er ákvæði í ríkisfjármálasamningnum sem heimilar ríkjum að standa utan við hann. [Hér er sleppt setningu um Íra sem samþykktu aðild að samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu 31. maí. Þótt þeir hefðu ekki gert hefði það engu breytt um gildistöku samningsins. Hún kemur til sögunnar þegar 12 ríki hafa fullgilt hann. Þýð.]

Kæmi engu að síður til þess að leitað yrði samþykkis við nýrri pólitískri stjórnarskrá fyrir ESB kynni afgerandi stuðningur við andstöðu- eða öfgaflokk í einu landi að leiða til þess að klúbburinn splundraðist. Þá er einnig við djúpstæðan skipulagsvanda að glíma. Umræðurnar um nauðsyn þess að auka pólitíska samrunan stjórnast nú af þörfinni fyrir betri stjórn á evru-svæðinu; tíu af ríkjunum 27 eru hins vegar ekki á svæðinu. Þótt mörg þeirra hafi í áranna rás viljað taka upp evru hafa Bretar og Danir formlegan fyrirvara gagnvart evru-þátttöku og ekki er líklegt að Svíar hafi mörg næstu ár áhuga á evrunni öðlist þeir hann nokkru sinni. Þessum ríkjum er mikið í mun að halda sínum hlut í umræðum um mál sem snerta þau þótt evru-ríkin auki samruna sinn. Ólíklegt að kjósendur í löndunum muni samþykkja að ganga lengra í átt til pólitísks samruna. Þegar David Cameron sagði nei við ríkisfjármálasamningnum í desember 2011 töldu margir í leiðtogahópnum hann hafa lagt smástein í götu sína; stuðningsmenn flokks hans í Bretlandi fögnuðu ákvörðun hans óvenju ákaft.

Þegar arkitektum Maastricht-sáttmálann mistókst að koma á pólitísku sambandi hugguðu sumir þeirra sig við að hugmyndin um sameiginlega mynt mundi sjálf duga til að koma á frekari efnahagslegum samruna og af honum sprytti síðan pólitískur samruni. Þeir sáu ekki fyrir að framvindan sjálf ylli kreppu innan álfunnar. Þeir hönnuðu ekki heldur aðferðir sem leiddu til þess að íbúar ESB teldu sig bæði bera ábyrgð á því að illa fór, eins og sumir þeirra gera, og einnig á hinu að finna leið út úr vandanum. Pólitísk niðurstaða til að vernda evruna sem hefur ekki í sér fólgna nýja leið til að öðlast og ávinna sér stuðning íbúanna mun aldrei duga til lengdar – hún á það ekki heldur skilið.

The Economist 26. maí 2012.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS