Evran var í upphafi hugarfóstur „Stór-Evrópusinna“, sem hugkvæmdist að egna með kostum sameiginlegs gjaldmiðils fyrir þjóðir Evrópusambandsins til að ganga í eina peningasæng, sem óhjákvæmilega mundi leiða til stofnunar sambandsríkis að þeirra mati og myndunar efnahagslegs stórveldis, sem strax yrði áhrifamikið um þróun heimsmála. Hugmyndafræðingarnir seldu þetta hugarfóstur sitt hátt fljúgandi stjórnmálamönnum og evrópsku auðvaldi.
Þessir „Stór-Evrópumenn“ vissu vel um sjálfstæðistilhneigingu Evrópumanna og héraðaríg, en þeir bjuggust við, að þessir sömu Evrópumenn mundu leggja sig fram um að laga hagkerfi sín að hinum sameiginlega gjaldmiðli, nýta sér „Frelsin fjögur“ á innri markaði EES, og þannig mundi evran virka sem brimbrjótur í átt að raunverulegri sameiningu ESB í eitt ríki.
Þarna misreiknuðu hugmyndafræðingar „Stór-Evrópu“ sig herfilega eða Fjórða ríkisins, eins og illar tungur hafa kallað þetta hugarfóstur. Það er komið í ljós, sem enginn þurfti reyndar að fara í grafgötur um, að Evrópa hefur hvorki vilja né getu til að sameinast í raun um einn gjaldmiðil í einu ríki. Innviðir Suður-Evrópu eru morknir, og menning rómönsku ríkjanna er ekki með þeim hætti, að þau geti í einu vetfangi aðlagað sig aga, sem að mestu leyti er ættaður frá hinni prússnesku Berlín.
Vandamál evrusvæðisins eru samt miklu djúpstæðari en svo, að með réttu megi kenna evrunni alfarið um efnahagslegar ófarir þess. Aðalvandamálin eru kerfislæg og standa djúpum rótum, eins og illvígt illgresi. Hagkerfi flestra þessara landa eru niðurnjörvuð í regluverk, sem sérhagsmunaöfl þessara landa hafa komið á. Sums staðar er landlæg spilling tengd opinberum rekstri. Ósveigjanleikinn er á svo háu stigi, að hagkerfi þessara landa hafa enga möguleika á að auka samkeppnihæfni sína undir ægivaldi sterkrar evru, eins og hún var. Frumkvöðlastarfsemi í ESB-ríkjunum er mjög lítil borin saman við t.d. BNA (Bandaríki Norður Ameríku). Þetta er t.d. mælt með fjölda einkaleyfa, en kemur einnig fram sem fjöldi nýrra fyrirtækja, sem komizt hafa á legg frá stríðslokum.
Allt leiðir þetta til yfirþyrmandi atvinnuleysis, sem nú er að meðaltali yfir 11 % á evrusvæðinu og fer vaxandi. Þátttakan í atvinnulífinu er mjög lítil vegna mikils atvinnuleysis og lítillar viðkomu þessara þjóða. Þetta leiðir til lítillar verðmætasköpunar, sem gerir þessum þjóðum ókleift að ná jöfnuði í fjármálum heimilanna, fyrirtækjanna og hins opinbera, nema með átaki, sem kyrkir hagkerfið. Meðalaldur þessara þjóða vex hratt og það stefnir í, að hver vinnandi maður þurfi að standa undir framfærslu fjögurra á bótum. Gefur augaleið, að slíkt kerfi er ósjálfbært. Ekkert annað en þjóðargjaldþrot blasir við þessum ríkjum, af því að opinberi geirinn þar er ofvaxinn og nemur útgjaldahlið fjárlaga sumra þessara ríkja meira en helmingi vergrar landsframleiðslu, VLF.
Þó að hagkerfi sé þokkalega heilbrigt, getur verið svo mikill munur á hagsveiflum þess og stefnumótandi ríkja á sameiginlegu myntsvæði, að hagvöxtur koðni niður og óstöðuleiki verði varanlegur. Þegar hins vegar óheilbrigt og ósveigjanlegt hagkerfi fer inn í myntsamstarf, er voðinn vís. Suður-Evrópa og Írland féllu á evruprófinu. Frakkland er að mörgu leyti á sama báti og önnur Miðjarðarhafslönd, enda gerði Francois Hollande skúrkabandalag við Ítalíu og Spán gegn Þýzkalandi 29. júní 2012, sem draga mun dilk á eftir sér.
Mjög mikil efnahags- og stjórnmálaspenna hefur myndazt innan ESB og einkum innan evrusvæðisins vegna þess, að hagkerfi landanna hafa þróazt í svo ólíkar áttir. Þýzkaland er þar í brennidepli og er að safna glóðum elds að höfði sér vegna yfirburða sinna og skilyrða fyrir frekari lánveitingum um enn meiri miðstýringu. Þar varð endursameining með falli Berlínarmúrsins árið 1989, og í kjölfarið varð gríðarleg fjármagnstilfærsla úr ríkissjóði Sambandslýðveldisins til Austur-Þýzkalands til að reisa við innviði samfélagsins þar, sem grotnað höfðu niður undir stjórn Kommúnistaflokks þýzka Alþýðulýðveldisins DDR (Deutsche Demokratische Republik). Að fjárfestingum einkafyrirtækja meðtöldum hefur verið fjárfest fyrir yfir 2000 milljarða evra á tímabilinu 1990-2005. Af þessum sökum nema nú skuldir þýzka ríkissjóðsins yfir 80 % af VLF. Þjóðverjar eru þess vegna ekki til stórræðanna. Þýzkaland er hins vegar mjög samkeppnihæft nú um stundir vegna fjárfestinganna í Austur-Þýzkalandi og vegna þess, að Þjóðverjar hafa stöðvað nánast allar launahækkanir frá árinu 2005. Verðbólga hjaðnaði þess vegna í Þýzkalandi og varð einna lægst þar innan evrusvæðisins. Það var einnig liðkað nokkuð fyrir ráðningum og brottrekstrum, þó að hagkerf Þjóðverja sé samt ósveigjanlegra og rígbundnara í reglugerðafargan en t.d. bandaríska og íslenzka hagkerfið.
Gott dæmi um styrk þýzka hagkerfisins er þýzki bílaiðnaðurinn. Spurn eftir bílum hefur minnkað verulega í Evrópu, og á sama tíma hafa þýzku bílaverksmiðjurnar aukið markaðshlutdeild sína í Evrópu og náð mjög góðum árangri utan Evrópu, t.d. í Kína. Það eru samt alvarlegir þverbrestir í þýzka hagkerfinu til lengri tíma litið. Þýzka lífeyriskerfið er gegnumstreymiskerfi, og á hverju ári fækkar á vinnumarkaðinum í Þýzkalandi. Það er þess vegna ljóst, að hagur Þjóðverja mun fara versnandi. Þýzkum almenningi er þetta vel ljóst, og þess vegna er hann andsnúinn fjáraustri úr ríkishirzlunum til þjóða, sem fara fyrr á lífeyri en hann og fást ekki til að taka til hjá sér, hvorki er varðar einkavæðingu opinbers rekstrar og fækkun ríkisstarfsmanna né hert skattaeftirlit og bætta skattheimtu.
Sumir íslenzkir fræðimenn komust að þeirri niðurstöðu á sínum tíma og eru enn við sama heygarðshornið, að íslenzkum hagsmunum yrði bezt borgið með inngöngu í ESB. Fræðimennska slíkra manna hefur beðið hnekki. Það mátti ljóst vera þegar í upphafi, en engum getur dulizt það lengur, hvílík yfirborðsmennska einkennir „fræðistörf“ slíkra manna og málflutning stjórnmálamanna, sem enn mæla fyrir og vinna baki brotnu að inngöngu landsins í ESB. Það er stórfurðulegt, að á sama tíma og markaðirnir hafa glatað trausti sínu á hina sameiginlegu mynt, þá sé starfandi ríkisstjórn á Íslandi í skjóli þingmeirihluta, að vísu vafasams, sem er með embættismannakerfið undirlagt aðlögunarferli að ESB með aðild að markmiði og þeim höfuðrökum, að helzta hjálpræði Íslendinga í gjaldeyrishöftum og sökkvandi í erlendar skuldir sé að kasta krónunni og taka upp evru.
Hér er um grundvallarmistök stjórnmálamanna að ræða, sem hallir eru undir það að hengja íslenzku þjóðarskútuna aftan í stórskip evrópsks sambandsríkis. Eitt er að taka algerlega rangan pól í hæðina varðandi grundvallarhagsmunamat fyrir hönd íslenzku þjóðarinnar, en annað að neita að viðurkenna villur síns vegar og að hafa ekki manndóm í sér til að snúa af braut, sem öllum má nú ljóst vera, að leiðir aðeins til vandræða og verri lífskjara á Íslendi. Slíkt er ófyrirgefanlegt og hlýtur að hafa alvarlegar stjórnmálalegar afleiðingar í för með sér fyrir þá, sem gera sig seka um slíkt.
Reykhólum, 6. ágúst 2012
Bjarni Jónsson er fæddur í Reykjavík 19. janúar 1949, og voru foreldrar hans Húnvetningar, sem fluttust úr Miðfirði og Vatnsdal til Reykjavíkur í upphafi seinna stríðs. Bjarni varð stúdent frá stærðfræðideild MR 1969, nam við verkfræðideild HÍ 1969-1972 og útskrifaðist með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskóla Noregs, NTH, í Þrándheimi 1974 . Hann réðist til hönnunarstarfa hjá Kværner Engineering AS í Bærum í Noregi strax eftir nám. Til Íslands fluttist Bjarni ásamt fjölskyldu sinni haustið 1976 og hóf þá störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins við að reisa aðveitustöðvar m.a. í Byggðalínu. Haustið 1980 var hann ráðinn sem aðstoðarmaður rafmagnsstjóra ISAL í Straumsvík og tók við stöðu rafmagnsstjóra fyrirtækisins 1. janúar 1981 og gegnir þeirri stöðu síðan að breyttu breytanda. Bjarni kvæntist Þuríði Stefánsdóttur, hjúkrunarforstjóra, 12. ágúst 1972. Þau eiga 4 börn og 6 barnabörn.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.