Sunnudagurinn 15. desember 2019

Evruland er nýlenda Þýskalands


Víglundur Þorsteinsson
3. september 2012 klukkan 10:16

Nú þegar evran er að ná inn á á annan tuginn í vegferð sinni er margt að opinberast og raungerast með öðrum hætti en væntingar stóðu upphaflega til . Flest sem bendir nú til þess að hún muni ekki ná því að fylla tvo tugi og líði undir lok nú á næstu árum.

Það dauðastríð mun ekki taka langan tíma þegar það hefst, spurningin er eingöngu sú hvenær það hentar þýskum stjórnmálamönnum að hefja þá vegferð.

Ekki er ólíklegt að hún hefjist eftir kosningar í Þýskalandi á næsta ári með myndun nýrrar ríkisstjórnar Kristilegra Demókrata og Sósíal-demókrata.

Evran feigðarflan frá byrjun

Allt á þessi vandræðaferð DER EURO rót sína að rekja til þess að í upphafi var slegið af nauðsynlegum kröfum Maastricht sáttmálans og vikið frá þeim forsendum um styrka hagsstjórn sem hann lagði til grundvallar.

Þær kröfur voru þó síst of miklar og vantaði þá veigamestu sem var sameiginleg fjárlög og fjármálastjórn. Aðgerðirnar sem nú er efst á baugi að leiða fram og jafnframt nauðsynlegar aðgerðir til að styrkja stöðu hinna veikari ríkja evrulands í byrjun.

Þrátt fyrir það að slegið var af þessum kröfum í byrjun létu fjármálamarkaðir sem allt væri í lagi og lánuðu smærri og veikari þjóðum ótæpilega sem þær voru sjálft Þýskaland. Nánast á þýskum vaxtakjörum.

Afleiðingar þessa urðu skammvinnar þensluuppsveiflur vegna erlendra lána í hagkerfum þessara ríkja vegna eyðslu og fjárfestinga.

Fjárfestingar sem oftar en ekki voru óarðbærar og voru ekki það tekjumyndandi til langframa að þær stæðu undir endurgreiðslu lánanna.

Í þessum efnum þurfti ekki ávallt það til að vera í Evrulandi eins og við Íslendingar þekkjum.

Endalokin nálgast

Nú er síðan svo komið að Evruland er að falla undan byrði þessarar skuldakreppu þar sem það virðist enn vera stefna stjórnmálaleiðtoga þar á bæ að láta einstök ríki bera ábyrgð á bönkum sinna landa svo að alþjóðlega bankakerfið þurfi ekki að afskrifa sín gálausu lán í stórum stíl.

Allt er þetta dæmt til að mistakast og mun engu áorka til lengdar hvorki til bjargar evrunni eða hinum gálausu bönkum. Allar aðgerðir sem nú er unnið að eru til þess eins að reyna að stöðva útbreiðslu í stað þess að slökkva þann stórbruna sem geisar á fjármálamörkuðum í evrulandi með því reyna að koma í veg fyrir að vandinn vaxi. Það mun ekki takast.

Svo lengi sem alþjólegir bankar og vogunarsjóðir eygja von um það að þeim verði bjargað með sameiginlegri ábyrgð á vandanum í evrulandi munu þeir halda áfram að selja og skortselja bankabréf og ríkisskuldabréf einstakra landa til að þrýsta á um sameiginlegar neyðarráðstafanir sjálfum sér til bjargar. Ítalía í dag Frakkland á morgun og loks þegar allt um þrýtur Þýskaland. Það er nefnilega svo komið að afl alþjóðlegra fjármálafyrirtækja er öllum ríkjum ofviða þegar þeir rekast í hóp eða eru í samráði. Nokkuð sem þeir ástunda eflaust meira en auganu mætir.

Íslenska leiðin í tísku

Það er nú tísku að lofa íslensku leiðina sem valin var af Seðlabankanum og ríkisstjórn Geirs Haarde . Það jafnvel af þeim sem þá voru ekki reiðubúnir að styðja hana en mæla nú með henni fyrir fleiri þjóðir.

Hún ein og sér mun þó ekki duga til bjargar hinum nauðstöddum ríkjum evrulands sem glíma við sinn stóra vanda. Meginástæða þess er nefnilega sú að þær þjóðir búa við gjaldmiðil sem heitir evra en ekki sinn eigin. Nú er komið að því að fjalla um það sem enn er ekki fjallað um í evrulandi nema í bakherbergjum það er að segja aðalvandamálið DER EURO.

Þýska nýlendan

Það sem enginn nema þýskir iðnrekendur sáu fyrir við upphaf evrunnar var að samkeppnisstaða þýska iðnaðarins var svo miklu betri en allra annarra framleiðenda í evrulandi að þýski iðnaðurinn fékk með upptöku evrunnar á silfurfati margföldun á sínum heimamarkaði. Þar gat hann keppt við alla sína keppinauta með sama gjaldmiðli og geysilegu samkeppnisforskoti vegna yfirburða framleiðni og framleiðsluforskots.

Um leið og hann fékk þessa margföldun á sínum heimamarkaði innan múra tollabandalagsins stórefldist samkeppnisstaða hans á heimsmörkuðum þar sem þýski iðnaðurinn er leiðandi í dag.

Í þessu sambandi til marks um áhrif stækkunar heimamarkaðarins skýt ég inn setningu sem ég las hafða eftir írskum stjórnmálamanni sem ég í svipinn man ekki nafnið líklega í frásögn Evrópuvaktarinnar.

„Skuldir Íra við þýska banka eru að miklu leyti til komnar við kaup þeirra á Mercedes Benz og BMW fyrir þýskt lánsfé.“

Þessi lýsing segir okkur í hnotskurn hver vandinn í Evrulandi er í raun og veru.

Hann er og hefur verið frá byrjun sá að hinar þjóðirnar hafa engar forsendur til að keppa við Þýskaland við sama gengi. Það hefur síðan leitt til þess að svo er komið sem nú er. Viðvarandi viðskiptahalli hefur leitt til skuldasöfnunar á meðan aðgangurinn að lánsfé fyrir þessar þjóðir var til staðar. Nú er skuldsetningin orðin slík að enging frekari ný lán er að hafa aðeins lánaframlengingar endurnýjanir við verri kjörum og það því aðeins að til komi samhjálp evrulands.

Nú standa þessar þjóðir í svipuðum sporum og við Íslendingar fyrir hrunið 2008 að lánamarkaðir eru þeim lokaðir en án þess tækis sem varð okkur til bjargar að eiga sinn eigin gjaldmiðil sem þær geta látið falla sér til bjargar.

Á meðan svo varir verða allar „björgunaraðgerðir“ svo sem neyðarsjóðir og sameiginleg fjárlög dæmd til að mistakast nema þá því aðeins að Þýskaland verði reiðubúið til að greiða upp skuldir nauðstaddra ríkja evrulands og jafnframt að millifæra í formi fjárveitinga af sameiginlegum fjárlögum til nýlenda sinna í hinu „nýja evrulandi“ mikla fjármuni til að endurreisa efnahag þeirra ríkja.

Það mun Þýskaland hvorki gera né geta, til þess eru Þjóðverjar einfaldlega ekki nægjanlega auðugir þrátt fyrir öfluga iðnað og stórbanka.

Vandinn nú og þær aðgerðir sem hugmyndir eru uppi um til lausnar munu ekki megna að leysa neinn vanda . Það er líklegra en ekki að svo lengi sem alþjóða fjármálakerfið eygir þýska ríkiábyrgð á vanda annarra í evrulandi muni hann magnast enn frekar.

Þýskaland verður að gefa eftir nýlenduna

Eina færa útgönguleiðin fyrir Þjóðverja er sú að þeir yfirgefi evruna ásamt ríkjum svo sem Hollandi og hugsanlega Austurríki Slóveníu og Slóvakíu en þau ríki eru mjög samtvinnuð Þýskalandi efnahagslega og Þjóðverjar hafa efni á að millifæra til þeirra svo þeim yrði unnt að vera í myntsamstarfi með Þýskalandi.

Við þessa leið skapast síðan forsendur til þess að gengi evrunnar geti fallið til að lagafæra samkeppnisstöðu annarra ríkja evrulands. Jafnframt forsendur til þess ríki eins og Frakkland geti síðan yfirgefið evruland við lægra evrugengi með Luxembourg og Belgíu og tekið upp frankann á ný.

Við það myndi evran síðan falla enn frekar til að laga stöðu hinna ríkjanna sem þá gætu losað sig frá henni án óbærilegs fórnarkostnaðar sem yrði þeim drápsklyfjar. Alþjóðafjármagnskerfið sæti síðan eftir með sín evruskuldabréf sem þeir fengju síðar greidd með nýdrökmum lírum pesetum frönkum o.s.frv.

Með þessu yrði þeim kleift að bjarga sér samkvæmt íslensku leiðinni sem allir mæra nú . Þrátt fyrir að búið sé að ákæra og sakfella þáverandi forsætisráðherra fyrir að láta ekki færa til bókar á ríkisstjórnarfundum um fyrirætlanir til lausnar íslenska vandanum.

Til að varpa ljósi á þessi vandamál í einföldu máli hef ég stundum orðað það svo við viðmælendur í heita pottinum í Garðabæjarlauginni.

Grískir ítalskir og spænskir ólífu- og ferðabændur geta aldrei keppt á sama gengi og Siemens Daimler Benz og Volkswagen.

Í umræðunni um möguleg gjaldmiðlaskipti sem nú er að komast upp á yfirborðið geta menn síðan velt því fyrir sér hvort sé liklegra til að takast.

Að bjóða fólki nýtt þýskt evrumark fyrir þá sem þess myndu eiga kost eða hinum sem því yrðu að sæta lírur drökmur eða peseta fyrir evruna ?

Margir hafa nú þegar svarað þessu ef marka má fregnir af fjármagnsflótta frá PIIGS löndum.

Að öðru leyti svari hver fyrir sig.

Hér á Íslandi var svarið gjaldeyrishöft sem ekki hefðu þurft að standa lengi með réttum vinnubrögðum en engin raunhæf viðleitni hefur vera uppi til að leysa úr hjá núverandi stjórnvöldum.

Það verður hugsanlega efni í grein síðar.

Garðabæ 2.09 2012

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Víglundur Þorsteinsson lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1970. Þá um sumarið starfaði hann hjá Ríkissaksóknara en í byrjun ágústmánaðar það ár tók hann við starfi sem framkvæmdastjóri Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Hann var framkvæmdastjóri og síðar stjórnarformaður BM Vallár frá 1971-2010. Í stjórn Félags ísl. iðnrekenda og síðar formaður frá 1978-1992. Þá sat hann í framkvæmdastjórn Verzlunarráðs Íslands um árabil og í framkvæmdastjórn VSÍ og varaformaður samtakanna um skeið. Víglundur átti sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna frá 1986 til 2007 og formaður og varaformaður um árabil. Hann átti sæti í bankaráði Íslandsbanka um 3ja ára skeið.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS