Sunnudagurinn 24. janúar 2021

Hvert er framtíðarhlutverk Atlantshafsbandalagsins?

Stjórnmálaskýrandi FT segir að bandarískir stjórnmálmenn vilji ekki lengur standa undir varnarkostnaði Evrópu­þjóða


Styrmir Gunnarsson
9. mars 2013 klukkan 07:03

Philip Stephens, sem er einn helzti stjórnmálaskýrandi Financial Times veltir vöngum yfir stöðu Atlantshafsbandalagsins um þessar mundir í blaði sínu. Hann segir i stuttu máli að annað hvort verði aðildarríkin að borga þann kostnað sem fylgi því að halda uppi starfsemi þess eða leggja bandalagið niður. Nú er svo komið að Bandaríkjamenn borga um 75% af kostnaði við starfsemi NATÓ og hefur það hlutfall hækkað úr 50%. Hann bendir á að það sé metnaður Barac Obama að verða sá forseti Bandaríkjanna, sem kveðji hersveitir Bandaríkjanna heim frá öðrum löndum.

Greinarhöfundur segir að Atlantshafsbandalagið muni mótmæla því að það hafi beðið ósigur í stríðinu í Afganistan. En þegar horft sé til þess kostnaðar í mannslífum og peningum, sem lagt hafi verið í þetta stríð sé erfitt að halda því fram að sigur hafi unnist. Og nú séu herir bandalagsins að yfirgefa Afganistan.

Það setji NATÓ í vanda. Fall Sovétríkjanna hafi orðið til þess að svipta bandalagið upprunalegu hlutverki en atburðarásin hafi komið til bjargar. Á tíunda áratugnum hafi verkefnið verið að veita nýjum lýðræðisríkjum í Austur-Evrópu og Mið-Evrópu stuðning og skapa mótvægi við Rússland. Svo hafi stríð skollið á á Balkanskaga, í Afganistan og Líbýu. NATÓ hafi verið orðið fortíðarfyrirbæri en þó haft einhverju að sinna. Um skeið hafi litið út fyrir að bandalagið mundi taka að sér það hlutverk að verða lögregla heimsins.

Nú sé allt breytt. Obama vilji hermenn sína heim. Hægt er að takast á við óvini með drónum og sérsveitum. Sýrlendingar geti barizt hver við annan. Þýzkaland líti nú til Sviss sem fyrimyndar. Stjórnvöld í Berlín geti lent í pólitískum vandræðum fyrir það eitt að senda nokkra hermenn á vettvang til að koma þýzkum borgurum úr landi.

Philip Stephens segir að enn séu rök fyrir samstarfi Evrópuríkja í öryggismálum. Skriðdrekar Rússlands séu að vísu orðnir svo ryðgaðir að þeir mundu ekki ná yfir slétturnar vestur á bóginn en tónninn í Vladimir Pútín sé ógnandi. Og Rússar reyni nú að festa sig í sessi á ný í nágrannalöndum á borð við Úkraínu.

Aðhaldsstefnan í efnahagsmálum hafi hins vegar leitt til kæruleysis. Fæst aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins standi við þær skuldbindingar að setja 2% af vergri landsframleiðslu í hernaðarútgjöld. Nú geri þau sér vonir um að brottför frá Afganistan skili þeim einhverjum peningum. Bretland og Frakkland sem verji mestu fé til hernaðarmála af Evrópuríkjum undirbúi nú að draga úr útgjöldum til hermála. Hins vegar sé áhugi þeirra á að skipta sér af málefnum annarra þjóða, eins og í Líbýu, Malí og Sýrlandi í öfugu hlutfall við vilja þeirra til að borga kostnaðinn. Og stjórnmálamenn í Washington séu ekki tilbúnir til að axla þær byrðar sem níska Evrópuríkja skilji eftir á víðavangi.

Í lok greinarinnar segir höfundur að óbreytt stefna leiði NATÓ smátt og smátt til dauða.

Sérstaða okkar Íslendinga innan NATÓ hefur verið sú, að við höfum hvorki lagt fram herafla né fjármuni (sem nokkru skipti) en að vísu ber að taka fram að hlutverk jeppasveitanna í Afganistan hefur aldrei verið að fullu upplýst og ekki heldur hvort og þá hvaða vopnum jeppasveitarmenn hafi verið búnir. Vísbendingar eru um að þeir haft haft einhver vopn með höndum.

Hins vegar lögðum við fram land undir varnarstöð, sem skipti miklu máli á sínum tíma. En sennilega hafa sendimenn Íslands orðið þess varir eftir lok kalda stríðsins og þegar varnarliðið var farið af landi brott að spurt hafi verið hjá NATÓ hvert framlag okkar væri. Voru jeppasveitirnar kannski svar við slíkum spurningum?

En þótt varnarstöðinni hafi verið lokað höfum við litið til þess að nokkurt öryggi væri fyrir okkur í aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og í því að varnarsamningur við Bandaríkin er enn til staðar. Við hljótum því að fylgjast vandlega með umræðum af því tagi, sem stjórnmálaskýrandi FT bryddar á. Ganga má út frá því sem vísu að þau sjónarmið sem þar koma fram endurspegli einhver viðhorf innan bandalagsins.

En hverra?

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS