Föstudagurinn 22. janúar 2021

Þýzkaland og ESB I: Stjórnar eitt ríki Evrópu­sambandinu?


Styrmir Gunnarsson
1. desember 2013 klukkan 07:00

Á undanförnum mánuðum og misserum hafa umræður og ábendingar um yfirburðastöðu Þýzkalands innan Evrópusambandsins einkennt æ meir umfjöllun fjölmiðla í Evrópu um þróun ESB. Augljóst er að í öðrum aðildarríkjum Evrópusambandsins hefur fólk fyrirvara á þessari sterku stöðu og þær raddir heyrast að Þjóðverjar séu að ná þeim árangri með evruna að vopni, sem þeim hafi ekki tekizt með skriðdrekadeildum þriðja ríkisins. Að sumu leyti má segja, að þungamiðja valdsins hafi flutzt frá Brussel til Berlínar. Fátt er gert sem Þjóðverjar eru ekki samþykkir, þótt ekki sé það án undantekninga. Þannig er ljóst, að Þjóðverjar eru mjög ósáttir við vaxtalækkun Seðlabanka Evrópu fyrir skömmu,

Þessi aukni styrkur Þýzkalands innan ESB og vilji til að fylgja honum eftir af hálfu stjórnvalda í Berlín er að einhverju leyti stefnubreyting af hálfu Þjóðverja frá því sem verið hefur á undanförnum áratugum í samskiptum við aðrar þjóðir. Þeir hafa fram á síðustu ár forðast að láta mikið finna fyrir sér í alþjóðlegum samskiptum.

Afleiðingin er hins vegar sú að fram hafa komið í öðrum aðildarríkjum raddir um að þau eigi að gera bandalag sín í milli til að koma böndum á Þjóðverja. Einn þeirra, sem hvatt hafa til uppreisnar Miðjarðarhafsríkjanna innan ESB gegn yfirráðum Þýzkalands er Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og fyrrum forseti framkvæmdastjórnar ESB. Snemma í nóvember sagði hann í samtali við ítölsk blöð, að Frakkar, Ítalir og Spánverjar ættu að berja í borðið og taka völdin í sínar hendur. Ástæðan fyrir því að það hafi ekki verið gert sé sú, að enginn leiðtogi hafi komið fram frá þessum þjóðum sem vísi veginn. Prodi telur að það hljóti að verða Frakkar, sem að lokum taki að sér þá forystu.

Reiði Grikkja í garð Þjóðverja birtist m.a. í því, að stjórnvöld þar í landi hafa látið taka saman skýrslu um ógreiddar stríðsskaðabætur Þjóðverja frá heimsstyrjöldinni síðari, sem samkvæmt þeirri skýrslu geta numið milljörðum evra. Grísk stjórnvöld hafa sett þessar kröfur fram, en þýzk stjórnvöld telja sig geta sýnt fram á að slíkar kröfur hafi verið umsamdar og að fullu greiddar fyrir langa löngu. Þeirri söguskýringu eru Grikkir ósammála. Eftir því sem harðnað hefur á dalnum hjá Grikkjum og staða Þýzkalands orðið sterkari innan ESB hafa þessar raddir orðið háværari í Grikklandi.

Undanfarnar vikur hafa birtzt fréttir í fjölmiðlum í Evrópu þess efnis, að Þjóðverjar hafi komið sínu fólki fyrir í lykilstöðum í stofnunum ESB og nú sé það markmið þeirra að Þjóðverji taki við af José-Manúel Barroso, sem forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Það er jafnaðarmaðurinn Martin Schulz, sem vakið hefur athygli sem forseti Evrópuþingsins.

Umræður af þessu tagi um stöðu Þýzkalands í Evrópu eru ekki nýjar af nálinni. Sumir sagnfræðingar eru þeirrar skoðunar að saga Evrópu hafi um aldir snúizt um þá spurningu fyrst og fremst hver staða þýzkumælandi fólks skyldi vera á meginlandinu. Einn þeirra sagnfræðinga, Írinn Brendan Simms, hefur skrifað bók um sögu Evrópu frá 1453 þar sem hann færir rök fyrir þessari grundvallarkenningu sinni. Aðrir sagnfræðingar sem fjallað hafa um þá bók telja að hann geri of mikið úr hlut Þjóðverja.

Margar styrjaldir hafa verið háðar í Evrópu, sem hafa að verulegu leyti snúizt um stöðu Þýzkalands, þar af tvær meiri háttar styrjaldir á síðustu öld.

Og nú er enn á ný spurt um stöðu Þýzkalands og að þessu sinni innan Evrópusambandsins.

Romano Prodi telur að eitt ríki stjórni Evrópusambandinu. Það sé Þýzkaland.

Um þessa áhugaverðu spurningu verður fjallað í næstu greinum.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS