Þriðjudagurinn 9. ágúst 2022

Þýzkaland, ESB og Ísland: Eftirmáli


Styrmir Gunnarsson
11. desember 2013 klukkan 13:58
Þessi mynd fylgdi greininni í Aftenposten um EFTA-dóminn í Icesave-málinu.

Á síðustu árum og raunar áratugum hafa umræður um Ísland og Evrópusambandið fyrst og fremst snúizt um það af hálfu andstæðinga aðildar að Ísland gæti ekki gerzt aðili að ESB vegna sjávarútvegsstefnu þeirra samtaka, sem mundi þýða, að allar formlegar ákvarðanir um nýtingu fiskimiðanna við Ísland yrðu teknar í Brussel. Athyglisvert dæmi um það hvað í því gæti falizt er að finna í fréttum og á viðskiptavakt Evrópuvaktarinnar í dag, miðvikudag, 11. desember 2013, þar sem skýrt er frá atkvæðagreiðslu á Evrópuþinginu um tillögu um bann við fiskveiðum með botnvörpu. Í þessum fréttum og frásögnum kemur fram, að málið snúi ekki sízt að veiðum franskra og spænskra togara - ekki undan ströndum Frakklands og Spánar - heldur undan ströndum Skotlands og Írlands.

Ekki þarf í raun að hafa fleiri orð um það hvað aðild að Evrópusambandinu mundi þýða í sambandi við grundvallaratvinnuveg okkar Íslendinga.

En á undanförnum misserum hefur komið æ betur í ljós að fleiri spurningar hljóta að vakna í sambandi við aðild en sjávarútvegurinn einn. Evrópusambandið sem á rætur að rekja til samstarfs Þjóðverja og Frakka eftir stríð, sem hafði það að markmiði að tvinna hagsmuni þessara þjóða og nágrannaríkja þeirra svo rækilega saman að þær gætu ekki haft hag af því að leggja í styrjöld á ný hver gegn annarri, hefur á meira en hálfri öld smátt og smátt þróast í átt til meiri sameiningar Evrópuríkja.

Nú er þetta sameiningarferli komið á það stig, að vaxandi andóf er í einstökum aðildarríkjum gegn frekari sameiningu og kröfur um að skref verði stigin til baka. Þetta er mest áberandi í Bretlandi. Þar er vaxandi andstaða við það grundvallarákvæði í sáttmálum ESB, að fólk í einstökum aðildarríkjum geti farið frjálst ferða sinna til hvaða lands sem er, tekið þar upp búsetu og haft sama rétt og þeir sem fyrir eru til atvinnu og margvíslegra hlunninda, sem fylgja velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi og skólakerfi.

Í Danmörku hafa komið upp raddir um að danska velferðarkerfið standi ekki undir kostnaði við innflytjendur, sem koma frá öðrum aðildarríkjum til landsins.

Í Noregi og Svíþjóð hafa komið upp önnur vandamál, sem tengjast innflytjendum. Mörgum hugnast ekki aðfarir lögreglu í Osló gegn Róma-fólki, sem hafði tekið sér búsetu í skógum utan Oslóar. Aðrir gera athugasemdir við söfnun sænsku lögreglunnar á upplýsingum um Rómafólk í Svíþjóð, upplýsingasöfnun sem nær ekki bara til þeirra, sem hafa brotið af sér heldur til allra einstaklinga, barna sem fullorðinna af þessum kynþætti.

Innan Evrópusambandsins er komin upp sterk andúð á Þjóðverjum vegna þess að völd þeirra og áhrif innan þess í krafti sterkrar efnahagslegrar stöðu hafa farið sívaxandi, sem aftur hefur leitt til andúðar á þeim í öðrum aðildarríkjum eins og rakið hefur verið í fyrri greinum.

Í stuttu máli sagt er ljóst að Evrópusambandið á við mikil innri vandamál að stríða, sem varða grundvallaratriði í starfsemi þess og snúast að verulegu leyti um fortíðina í samskiptum þessara ríkja, sem hefur verið blóðug öldum saman eins og allir þekkja.

Það hlýtur að vera áleitin spurning fyrir Íslendinga hvaða erindi við eigum inn í samfélag þjóða, sem eiga við svo mikinn óleystan vanda að etja og þurfa að taka afstöðu til þeirra vandamála með einum eða öðrum hætti. Í þessu sambandi voru athyglisverð orð, sem hollenzkur sendimaður viðhafði við höfund þessarar greinar fyrir tæpum tveimur áratugum. Hann sagði að Hollendingar vildu fá Ísland inn í Evrópusambandið til þess að styrkja stöðu Norður-Evrópu-ríkja gegn aðildarríkjum í Suður-Evrópu.

Þótt grundvallar spurningin um fiskimiðin kæmi ekki til væru innbyrðis deilur Evrópuþjóða nægt tilefni til að við héldum okkur til hlés.

Hitt er ljóst að við þurfum að eiga góð samskipti við Evrópusambandið og einstök aðildarríki þess. Um það fjallaði ég í bók, sem út komið haustið 2009 og heitir Umsátrið-fall Íslands og endurreisn. Þar segir:

„Það skiptir máli fyrir okkur að eiga talsmann innan Evrópusambandsins, þótt aðild að því sé fráleit. Bitur reynsla af framkomu Svía og Dana í Icesave-málinu innan veggja alþjóðlegra stofnana gerir það að verkum að við munum seint treysta þessum frændþjóðum fyrir því að gæta hagsmuna okkar innan ESB. Þess vegna verðum við að horfa í aðrar áttir.

Þýzkaland er öflugasta ríkið innan ESB og svo vill til að Þjóðverjar hafa um aldir rækt menningarleg tengsl við Ísland með áberandi hætti. Hvers vegna urðu íslenzkir rithöfundar á borð við Gunnar Gunnarsson, Jón Sveinsson (Nonna), Kristmann Guðmundsson og Guðmund Kamban, þekktir í Evrópu? Vegna þess að þeir voru svo mikið lesnir í Þýzkalandi. Hvers vegna átti Jón Leifs greiðan aðgang að þýzkum tónlistarunnendum með tónlist sína? Vegna þess að þeir fundu að hún var sprottin upp úr sameiginlegum menningararfi Íslendinga og þýzkumælandi þjóð. Hvaða útlendingar voru það sem ferðuðust um hálendi Íslands löngu áður en Íslendingar sjálfir eða aðrar þjóðir uppgötvuðu það landsvæði? Það voru Þjóðverjar.

Við eigum að stórauka samskipti okkar við Þýzkaland og byggja á því að þær sterku tilfinningar, sem Þjóðverjar bera í brjósti til Íslands og íslenzkrar menningararfleifðar tryggi okkur öflugan talsmann og bakhjarl í samskiptum okkar við Evrópusambandið í framtíðinni.“

Fjórum árum síðar er þessi skoðun höfundar óbreytt.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS