Þriðjudagurinn 9. ágúst 2022

2. grein: Ísland er herlaust land

Utanríkis- og öryggismál ESB og Ísland 2. grein


Björn Bjarnason
8. janúar 2014 klukkan 10:18

Hér er í fimm greinum gerð grein fyrir samskiptum Íslands og ESB á sviði utanríkismála, þó einkum með tilliti til öryggis- og varnarmála.

• Í fyrstu greininni þriðjudaginn 7. janúar var rætt um utanríkisþjónustu ESB. Þá var vakin athygli á ágreiningi sem varð um rétt sendiherra ESB á Íslandi til að hlutast til um innanríkismál með áróðri fyrir aðild að ESB.

• Hér í annarri greininni er rætt um Ísland sem herlaust land og hvernig sú sérstaða fellur að aðildarskilmálum ESB.

• Í þriðju greininni er gerð grein fyrir mótun og þróun öryggismálastefnu ESB og tengslunum við stefnu ESB-ríkisstjórnarinnar á Íslandi.

• Í fjórðu greininni er sagt frá nýrri skýrslu utanríkis- og öryggismálastjóra ESB og vikið að stöðu Íslendinga í ljósi hennar.

• Í fimmtu greininni er litið til nýlegrar ályktunar leiðtogaráðs ESB um öryggis- og varnarmál og hugað að því sem við blasir sem verkefni fyrir íslenska stjórnmálamenn.

*

Eitt af málunum í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins sem vakti umræður strax á fyrstu stigum viðræðnanna um aðild Íslands að ESB var spurningin um hvort Íslendingar yrðu að hervæðast gengu þeir í ESB.

Samtök ungra bænda birtu auglýsingu í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 28. maí 2010. Fyrirsögn hennar var: Við viljum ekki senda afkomendur okkar í Evrópusambandsherinn! Í meginmáli sagði:

„Hvað Evrópusambandsherinn varðar hefur lengi staðið til að koma honum á laggirnar. Fjölmargir forystumenn innan Evrópusambandsins hafa lýst yfir stuðningi við þá hugmynd á liðnum árum og þegar er kominn vísir að slíkum her. Um er að ræða sérstakar hersveitir sem lúta stjórn sambandsins og ætlað er að geta brugðist hratt við hættum sem kunna að koma upp. Þá eru heimildir til stofnunar slíks hers í Stjórnarskrá Evrópusambandsins (Lissabon-sáttmálanum) sem tók gildi þann 1. desember á síðasta ári.“

Hinn 13. maí 2010 hafði Angela Merkel Þýskalandskanslari flutt hátíðarræðu í Aachen í Þýskalandi, þegar Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, var sæmdur heiðursmerki, sem kennt er við Karlamagnús keisara og veitt er fyrir að standa glæsilegan vörð um Evrópuhugsjónina. Í ræðu sinni vék Merkel að vanda evrunnar og áréttaði þá skoðun að henni yrði að bjarga svo að Evrópuhugsjóninni yrði borgið. Auk þess yrði eftir þá björgun unnt að snúa sér að öðrum mikilvægum samrunaverkefnum í Evrópu, eins og því að stofna herafla undir merkjum Evrópusambandsins.

Auglýsing ungra bænda vakti sterk viðbrögð og miklar umræður. Hún snerti streng sem er viðkvæmur í umræðum um stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna og þá almennu trú að þeir þurfi ekki að grípa til sömu ráðstafana og aðrar þjóðir til tryggja öryggi sitt. Var augljóst að stuðningsmenn aðildar litu á það sem dauðadóm yfir málstað sínum yrði hann túlkaður á þann veg að stofna þyrfti íslenskan her til að laga íslenska ríkið að kröfum ESB.

Álit meirihluta utanríkismálanefndar

Tekið er á þessu efni í áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis frá júlí 2009 sem utanríkisráðherra og embættismenn hans sögðu marka viðræðurammann við ESB. Þar segir að nefndin hafi kynnti sér stefnu ESB að því er varðar „viðbragðslið“ eins og hersveitir á vegum ESB eru nefndar í álitinu. Sambandið hafi stefnt að því að setja á fót sameiginlegt viðbragðslið aðildarríkjanna til að bregðast við óvæntum aðstæðum í öryggismálum. Ekki hafi verið litið svo á að um fastan her yrði að ræða heldur getu til að leggja til allt að 60 þúsund manna herlið samsett af herdeildum ýmissa aðildarríkja til að sinna verkefnum í u.þ.b. eitt ár.

Ýmsir telji þó að á þessu tvennu, viðbragðslið og föstum her, sé lítill munur í raun og hafi gagnrýnt útþenslustefnu sambandsins í þessum efnum. Borgaralegan liðsafla, lögreglusveitir og réttarfarssérfræðinga (svo sem lögfræðinga og dómara), auk hættumatsteymis, sé hægt að senda á vettvang innan nokkurra klukkustunda.

Eftir þeim upplýsingum sem nefndin hafi aflað sér sé um 2.000 manna lið ávallt til taks til mannúðaraðgerða eða til almannavarna og björgunaraðgerða og neyðaraðstoðar. Ljóst sé að þátttaka í hernaðarlegum aðgerðum verði ávallt umdeild og fyrir herlaust ríki eins og Ísland ástæðulaus með öllu.

Þá segir orðrétt í áliti meirihluta utanríkismálanefndar:

Niðurstaða um öryggis- og varnarmál: Meiri hlutinn telur að af framangreindu megi draga þær ályktanir að samstarf ESB á sviði varnarmála sé enn nokkuð skammt á veg komið. Þá telur meiri hlutinn fátt benda til þess, miðað við afstöðu aðildarríkjanna, að það verði þróað í átt til þess sem t.d. er innan NATO. Meiri hlutinn ítrekar að hverju aðildarríki er í sjálfsvald sett innan síns ramma hvort og þá að hve miklu leyti það kýs að taka þátt í samstarfi ESB á sviði utanríkis- og öryggismála. Út frá fyrirliggjandi upplýsingum og þeim skýringum sem fylgja Lissabon-sáttmálanum telur meiri hlutinn tryggt að Ísland haldi skilyrðislausu forræði sínu yfir öryggis- og varnarmálum og Ísland verði áfram herlaust og friðsælt land. Þrátt fyrir það telur meiri hlutinn rétt að leggja ríka áherslu á þessi atriði við samningsgerð þannig að samsvarandi tillit verði tekið til Íslands sem herlausrar þjóðar.“

Þessi afstaða meirihluta utanríkismálanefndar alþingis kemur heim og saman við það sem segir í fyrstu greininni í þessum flokki um sjálfsákvörðunarrétt þjóða í utanríkis- og öryggismálum. Í texta álitsins er hins vegar talað varlega um framtíðina. Athyglisverð eru orðin „herlaust og friðsælt land“ í álitinu. Þau endurspegla þá trú að friður ráðist af því að þjóðir ráði ekki yfir her til að gæta eigin öryggis en ekkert í stefnu Evrópusambandsins eða einstakra aðildarríkja þess hnígur til þessarar áttar. Þar er ávallt lögð áhersla á að hæfilegur varnarviðbúnaður sé nauðsynlegur til að tryggja frið.

Orðalagið í ályktun meirihluta utanríkismálanefndar er brennt því flokkspólitíska marki að þar sátu andstæðingar aðildar Íslands að NATO sem telja sér og öðrum trú um að friðsamlegra væri í heiminum án bandalagsins og herbúnaðar undir merkjum þess. Stefna Evrópusambandsins er alls ekki reist á því sjónarmiði, hins vegar eru aðildarskjöl samin í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur því marki brennd að leitast er við komast hjá umræðum um efnislega þætti með því að lýsa einungis hinum formlegu.

Þótt í álitinu sé vísað til Lissabon-sáttmálans til stuðnings niðurstöðu meirihlutans er í sáttmálanum gefið undir fótinn um samstarf í varnarmálum sem kunni að leiða til sameiginlegrar varnarstefnu og liðsafla til að framfylgja henni eins og nánar er vikið að hér fyrir neðan og Angela Merkel nefndi í ræðu sinni 13. maí 2010.

Staða Íslands áréttuð

Í greiningarskýrslu framkvæmdastjórnar ESB frá 24. febrúar 2010 vegna aðildarumsóknar Íslands, sem lögð var fyrir leiðtogaráð ESB-ríkjanna, sagði meðal annars:

„Ísland ætti að vera reiðubúið til að taka fullan og virkan þátt í sameiginlegri stefnu í utanríkis- og öryggismálum og stefnu Sambandsins í öryggis- og varnarmálum sem og að vera fært um að taka á sig þær skuldbindingar sem fylgja aðild á þessum sviðum.“

Í almennri afstöðu Íslands sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði fram á ríkjaráðstefnu með ESB 27. júlí 2010 sagði meðal annars:

„46. Ísland hefur í áratugi verið tenging frá Evrópu yfir Atlantshafið með aðild sinni að NATO og varnarsamningi við Bandaríkin. Ríkisstjórnin hyggst taka þátt í utanríkis- og öryggisstefnu ESB og evrópsku öryggis- og varnarmálastefnunni. Þó verða ákvarðanir um málefni er snerta öryggi og varnir áfram að vera í höndum aðildarríkjanna.

47. Ísland er stolt af þeirri hefð að vera herlaust land og mun ekki koma upp her í framtíðinni. Horfa verður á tengsl við Varnarmálastofnun Evrópu í því ljósi.

48. Ísland hefur átt gott samstarf við aðildarríki ESB á sviði utanríkis- og öryggismála innan ramma ýmissa alþjóðastofnana. Íslendingar hafa tekið þátt í friðargæslu og annarri starfsemi sem tengist hættustjórnun, m.a. í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar stofnanir þeirra, NATO og ÖSE, sem og innan Norðurlandasamstarfsins. Innan ramma ESB hefur Ísland tekið þátt í EUFOR Concordia-verkefninu [friðargæslu í Makedóníu] og EUPM-verkefnum [European Police Mission, lögregluverkefni í Bosníu-Herzegóvínu].“

Þarna lýsir ríkisstjórnin fyrirvaralausri aðild að þeirri stefnu sem ESB fylgir í utanríkis- öryggis og varnarmálum.

Stefna ESB

Undir sameiginlega utanríkis- og öryggisstefna ESB ( Common Foreign and Security Policy, CFSP) fellur hin sameiginlega öryggis- og varnarstefna ( Common Security and Defence Policy, CSDP) Evrópusambandsins. Kjarni hennar lýtur að friðargæslu, friðaruppbyggingu, björgunaraðgerðum, stjórnun hættuástands og mannúðar- og neyðaraðstoð. Aðgerðir geta verið borgaralegar og hernaðarlegar. Til þeirra er unnt að grípa utan landsvæðis ESB, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir átök og/eða til að gæta friðar. Öryggis- og varnarstefnan felur einnig í sér að aðildarríkin móta í áföngum ramma að varnarstefnu sambandsins og undirbúa viðbrögð gagnvart utanaðkomandi ógnum, náttúruhamförum og stórslysum. Allar ákvarðanir sem lúta að varnarmálum eða hafa hernaðarlega þýðingu ber ávallt að taka einróma, hvert ríki hefur neitunarvald varðandi slík verkefni.

Í 2. mgr. 42. gr. sáttmála Evrópusambandsins segir í opinberri íslenskri þýðingu:

„Sameiginleg stefna í öryggis- og varnarmálum skal taka til mótunar í áföngum á ramma að sameiginlegri varnarstefnu Sambandsins. Sú stefna leiðir til sameiginlegra varna taki leiðtogaráðið einróma ákvörðun um það. Það skal þá beina þeim tilmælum til aðildarríkjanna að þau samþykki slíka ákvörðun í samræmi við stjórnskipunarreglur sínar.

Stefna Sambandsins samkvæmt þessum þætti skal ekki hafa áhrif á sérstakt eðli stefnu tiltekinna aðildarríkja í öryggis- og varnarmálum og skal virða þær skuldbindingar sem aðildarríki, sem sjá sameiginlegum varnarhagsmunum sínum borgið innan Atlantshafsbandalagsins (NATO), hafa samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum, og hún skal samrýmast sameiginlegri stefnu í öryggis- og varnarmálum sem mörkuð er á þeim vettvangi.“

Þarna er gert ráð fyrir að stig af stigi fikri ESB-ríkin sig að sameiginlegri varnarstefnu og taki leiðtogaráð ESB um það einróma ákvörðun verði stofnað til sameiginlegra varna. Sérhvert aðildarríki verður að staðfesta þessa ákvörðun leiðtogaráðsins í samræmi við stjórnskipunarreglur sínar til að hún komi til framkvæmda. Í yfirlýsingunni sem Össur Skarphéðinsson lagði fram 27. júlí 2010 er þessi sjálfsákvörðunarréttur ítrekaður fyrir Ísland og sérstaklega minnst á fyrirvara varðandi tengsl við Varnarmálastofnun Evrópu.

Evrópska varnarmálastofnunin (e. European Defence Agency) var sett á laggirnar árið 2004 og hefur fjórþætt hlutverk: að þróa búnað og getu til stjórnunar hættuástands, auka rannsóknir og tækniþekkingu á sviði öryggis- og varnarmála, stuðla að samstillingu og samnýtingu liðsafla og búnaðar aðildarríkja ESB, og koma á virkum samkeppnismarkaði fyrir varnarbúnað í Evrópu, m.a. með sameiginlegum útboðum. Aðild að Evrópsku varnarmálastofnuninni er valkvæð, en Danmörk er eina aðildarríki ESB sem ekki tekur þátt í starfi hennar.

Mat íslenska utanríkisráðuneytisins

Í minnisblaði frá 9. janúar 2012 um 31. kafla, utanríkis- og öryggismál, sem utanríkisráðuneytið sendi utanríkismálanefnd alþingis snýst lokakaflinn um áhrif þess á íslenska stefnu og stjórnsýslu í utanríkis- og öryggismálum yrði gengið í ESB.

Talið er að Íslendingar haldi valdheimildum sínum í öryggis- og varnarmálum og staða þeirra sem herlausrar þjóðar breytist ekki. Minnt er á að á vettvangi alþjóðastofnana, svo sem Sameinuðu þjóðanna, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og Evrópuráðsins hafi á mörgum sviðum verið samhljómur í stefnu Íslands og ESB. Ísland hafi auk þess haft náið pólitískt samráð við aðildarríki Evrópusambandsins á grundvelli yfirlýsingar EES-ráðsins um pólitískt samráð frá árinu 1995. Það feli meðal annars í sér að ESB sendi sameiginlegar yfirlýsingar sínar til EES/EFTA-ríkjanna áður en þær séu fluttar eða birtar, með boði um meðflutning.

Hvað Ísland varðar sé hvert mál fyrir sig skoðað sérstaklega sig og metið út frá hagsmunum Íslands hvort taka eigi undir það. Í flestum tilvikum hafi Ísland tekið undir ræður og yfirlýsingar ESB þegar það hafi boðist. Þetta eigi við um yfirlýsingar ESB í Brussel, en einnig um ræður sem fluttar séu á vegum ESB hjá alþjóðastofnunum (svo sem SÞ, ÖSE og Evrópuráðinu).

Athyglisvert er að þarna er hvergi minnst á aðild Íslands að NATO sem er þó nærtækast þegar rætt er um öryggis- og varnarmál og Ísland. Líklega hefur utanríkisráðuneytið talið að það félli best að skoðunum formanns utanríkismálanefndar, Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns vinstr-grænna og NATO-andstæðings, að láta hjá líða að minna hann á að ESB og NATO vilja vera samstiga.

Í minnisblaði utanríkisráðuneytisins segir orðrétt:

„Áætlun ESB gegn útbreiðslu gereyðingarvopna var samþykkt af aðildarríkjum ESB árið 2003. Áætlunin markar stefnu ESB í baráttunni gegn útbreiðslu gereyðingarvopna. Í flestum tilvikum hefur Ísland tekið undir ræður og yfirlýsingar ESB á alþjóðavettvangi um aðgerðir gegn útbreiðslu gereyðingarvopna og samhljómur er í stefnu ESB og stefnu Íslands hvað þessi mál varðar.

Stefna og markmið ESB samræmast stefnu íslenskra stjórnvalda hvað varðar þátttöku í fjölþjóðlegum aðgerðum á sviði friðargæslu og mannúðarmála. Ísland hefur sem samstarfsríki tekið þátt í friðargæsluverkefnum ESB. Þátttaka Íslands í verkefnum ESB á sviði öryggis- og varnarmála hefur takmarkast við borgaralegt framlag og myndi engin breyting verða á því ef til aðildar kemur. Þá myndi þátttaka í friðargæsluverkefnum ESB ekki hamla þátttöku íslenskra stjórnvalda í slíkum aðgerðum á vegum annarra fjölþjóðasamtaka, svo sem SÞ eða NATO.

Öryggisáætlun ESB (e. European Security Strategy, ESS) frá 2003 fjallar meðal annars um alþjóðleg hryðjuverk, afvopnunarmál, svæðisbundin átök, veikburða ríki og skipulagða glæpastarfsemi. Í endurmati leiðtogaráðsins árið 2008 var bætt við þáttum eins og alþjóðlegu fjármálakreppunni, loftslagsbreytingum, umhverfisógnum, netöryggi og orkuöryggi. Áhættumat Íslands, sem birt var í mars 2009, endurspeglar að mörgu leyti svipaðar áherslur og koma fram í öryggisáætlun ESB. Þar er bent á að styrkja beri samstarf við ESB vegna áhættuþátta á borð við skipulagða glæpastarfsemi, farsóttir, náttúruhamfarir og hryðjuverkaógnir, sem og á öðrum sviðum, t.d. friðargæslu.

Í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar kemur fram að sérstaða Íslands sem herlausrar og vopnlausrar þjóðar sé augljós og að Ísland muni undir engum kringumstæðum koma á innlendum her eða taka þátt í samstarfi herja. Af þeim sökum er það niðurstaða meirihlutaálitsins að eðlilegt sé að Ísland standi utan Evrópsku varnarmálastofnunarinnar (EDA), enda þátttaka í henni valkvæð.

Aðild að ESB er ekki talin hafa áhrif á samninga Íslands við önnur ríki á sviði öryggis- og varnarmála. Innganga hefði ekki áhrif á aðild Íslands að NATO, né á varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna. Bandaríkin eru enn með umtalsverðan herafla í Evrópu og vinna að sameiginlegum öryggishagsmunum með aðildarríkjum ESB á vettvangi alþjóðastofnana á borð við NATO, ÖSE og SÞ.“

Í minnisblaðinu kemur fram að ekki sé nauðsynlegt að breyta stofnunum á Íslandi vegna þátttöku í utanríkisþjónustusamstarfi ESB eða í varnar- og öryggismálastarfinu. Tekið er fram að skipaður verði sérstakur tengiliður innan utanríkisráðuneytisins við ESB vegna þessara málaflokka og muni starfsmaður alþjóða- og öryggissviðs ráðuneytisins gegna því hlutverki með öðrum störfum.

Minnt er á að í rýniskýrslu framkvæmdastjórnar ESB frá september 2011 komi fram það mat framkvæmdastjórnarinnar að Ísland hafi þróaða utanríkisþjónustu og ætti að vera í stakk búið að taka fullan þátt í CFSP og CSDP. Þá segi að Ísland sé vel búið undir þátttöku í hættustjórnunaraðgerðum á vegum ESB og geti, þrátt fyrir herleysi, lagt til sérþekkingu hvað varði borgaralega þætti verkefna, til dæmis á sviði mannréttinda og jafnréttismála.

Í minnisblaðinu segir að um 450 ESB-gerðir (samningar, ákvarðanir, reglugerðir, tilskipanir o.fl.) falli undir samningskafla 31 og lúti þær m.a. að samningum um meðferð trúnaðarupplýsinga, stöðugleika á ákveðnum svæðum, afstöðu og/eða aðgerðum ESB gagnvart þriðju ríkjum, fjárhagsaðstoð, baráttu gegn hryðjuverkum og spillingu, stuðningi við mannréttindi, lýðræðisþróun, réttarríkinu og góðum stjórnunarháttum, þvingunaraðgerðum, afvopnunarmálum, kjarnavopnum og kjarnorkumálum, friðargæsluverkefnum og stofnun nefnda og undirstofnana.

Ekki er talin þörf á umfangsmiklum lagabreytingum hér á landi vegna þessa, þó þyrfti að endurskoða og eftir atvikum breyta lögum nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, ásamt reglugerðum á grundvelli þeirra.

Utanríkisráðuneytið telur með öðrum orðum að unnt sé að leysa öll málefni á þessu sviði á þann veg að lausnin falli í senn að kröfum meirihluta utanríkismálanefndar alþingis og aðlögunarskilyrðum ESB og reisir ráðuneytið álit sitt á sjálfsákvörðunarrétti þjóða um utanríkis- og öryggismál sem njóti sérstöðu innan ramma stofnana- og lagakerfis ESB. Þessi niðurstaða er rétt svo langt sem hún nær en í henni er undanskilið að alls ekki hefur verið horfið frá áformum um að ESB móti sameiginlega og ráði yfir afli til að framfylgja henni.

Þjóðaröryggisdeild

Þegar minnisblaðið frá 9. janúar 2012 er lesið má draga þá ályktun að þeir sem sömdu það hafi skautað fram hjá matsskýrslu um hryðjuverkavarnir sem unnin var 20. til 24. mars 2006 af tveimur sérfræðingum frá Evrópusambandinu og birt var af dómsmálaráðuneytinu 29. júní 2006. http://www.innanrikisraduneyti.is/media/Skyrslur/matsskyrsla_v_hrydjuverkavarna.pdf

Þar er meðal annars rætt um eina af stofnunum sem fellur undir utanríkisþjónustu ESB (EEAS) en ekki er minnst á hana í margræddu minnisblaði utanríkisráðuneytisins. Í matsskýrslunni um hryðjuverkavarnir frá 2006 segir:

„Samstarf við miðstöðina Situation Centre [í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel.] SitCen-mat verði fastur liður í stefnumörkun í baráttu gegn hryðjuverkum samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Mælst er til þess að aðildarríki miðli sem mestu til SitCen til að bæta þar strategíska greiningu. Ofangreind lokaskýrslutilmæli [sérfræðinga ESB] lúta að hlutverki, verkefnum, störfum heimildum og vinnuaðferðum miðlægrar, innlendrar öryggisþjónustu. Slík miðlæg stofnun er fyrir hendi í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins, annað hvort sem deild undir yfirstjórn og innan stofnunar áþekkrar og embætti ríkislögreglustjóra, eða sem sérstök og sjálfstæð stofnun, sem þá er oftast undir beinni stjórn viðeigandi ráðuneytis.

Á Íslandi er störfum þessum sinnt af mismunandi stofnunum:

- sviði 5 hjá ríkislögreglustjóra,

- skrifstofu lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli, og

- landhelgisgæslu,

og þar að auki er yfirumsjón í höndum bæði dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis.

Enn fremur eru engar reglur nú til um beitingu sérstakra rannsóknarúrræða, einkum forvirkra, sem öryggisþjónustur beita venjulega áður en til opinberrar rannsóknar lögreglu eða réttar kemur, og eru því forvirkar aðgerðir óheimilar að lögum.

Á alþjóðavettvangi er einnig samstarf milli mismunandi stofnana. Ekki er fyrir hendi í landinu öryggisstofnun sem er tengiliður við Bernarklúbbinn, Hóp gegn hryðjuverkum og SitCen.

Mælst er til þess við íslensk yfirvöld að þau íhugi að koma öllum þessum störfum saman hjá einni stofnun, helst með nýrri þjóðaröryggisdeild innan embættis ríkislögreglustjóra, undir yfirumsjón dómsmálaráðuneytisins eins.

Í því skyni er mælst til þess að sameiginlega (á vegum bæði dómsmála- og utanríkisráðuneyta, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli og ríkissaksóknara) verði samin drög að löggjöf er skilgreini forvirk verkefni og störf slíkrar miðlægrar deildar, heimildir hennar og takmörk, og hvernig eftirliti verði háttað með henni, bæði í daglegum störfum hennar og af hálfu alþingis.

Tekið er undir tillögur Framkvæmdanefndar um framtíðarskipan löggæslu [sem starfaði á árunum 2005 og 2006] hvað varðar hina nýju skipan og sameiginlega rannsóknarábyrgð ríkislögreglustjóra og hinna nýju umdæmislögreglustjóra í sérstökum afbrotatilvikum. Leggja verður þó áherslu á að valdheimildir til baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi af innlendum eða erlendum toga ber að fela hinni nýju þjóðaröryggisdeild ríkislögreglustjóraembættisins einni. Þetta ætti að stuðla að því að reynsla sem aflað er á forvirku stigi við upplýsingasöfnun og samsvarandi rannsóknir á þessu sérstaka sviði safnist á eina hendi.“

Þjóðaröryggisdeildin sem skýrsluhöfundar nefna til sögunnar og telja óhjákvæmilegt að koma á fót til að eiga samstarf við miðlæga upplýsingadeild í Brussel er ekki annað en leyniþjónusta. Á þeim tíma sem sérfræðingarnir frá ESB rituðu skýrslu sína og tilmæli var SitCen hluti af alþjóðaskrifstofu ráðherraráðs ESB en nú hefur starfsemin verið flutt undir utanríkisþjónustuna (EEAS) og litið er á hana sem mikilvægan lið í starfseminni þar og í þágu öryggis ESB-ríkjanna.

Að ekki skuli tekin afstaða til þessa þáttar í starfi ESB í margnefndu minnisblaði utanríkisráðuneytisins til utanríkismálanefndar frá 9. janúar 2012 dregur í gildi þess. Þá er einnig undarlegt að þessum þætti öryggismálanna skuli ekki hafa verið hreyft af hálfu ESB í umræðum um 31. kafla ESB-viðræðnanna.

Niðurstaða

Stefnunni um að Ísland sé herlaust land er unnt að framfylgja við núverandi aðstæður í Evrópusambandinu. Þessi skoðun er reist á athugun á formlegum textum Evrópusambandsins og því meginsjónarmiði að einstök ESB-ríki eigi síðasta orðið um öryggis- og varnarmál. Eins og áður segir er orðalagið á íslensku skjölunum á þann veg að það veki ekki deilur á heimavelli og kalli ekki ágreining um aðildina að NATO og það sem í henni felst svo að eitt dæmi sé nefnt.

Í hinum opinbera íslenska texta er algjörlega litið fram hjá því sem á ensku er kallað Monnet Method, Monnet-aðferðin, í höfuðið á Frakkanum Jean Monnet, hugsjónamanninum sem eftir síðari heimsstyrjöldina beitti einstæðum sannfæringarkrafti sínum og tengslum við evrópska ráðamenn til að hvetja þá til samstarfs.

Monnet-aðferðin lýsir meginaðferðinni sem hann beitti til að stuðla að samrunaþróun Evrópu: Vald skal gert yfirþjóðlegt hvenær sem pólitískt tækifæri gefst til þess og hvenær sem það þykir fært. Í þessu hefur falist að framkvæmdastjórn ESB í Brussel, „gæslumenn sáttmálanna“, hefur smátt og smátt fengið meira vald í sínar hendur. Þessa hefur einnig gætt á sviði utanríkis- öryggis- og varnarmála.

Þögn um þennan undirtón í allri viðleitni ráðamanna innan Evrópusambandsins gefur ekki rétta mynd af því sem þar kann að vera í vændum. Markmið þeirra sem vilja að Evrópusambandið þróist í átt til Sambandsríkis Evrópu er að til verði sameiginleg varnarstefna og herafli að baki henni. Lissabon-sáttmálinn gerir ráð fyrir þróun í þessa átt.

Þá veikir það opinbera afstöðu íslenskra stjórnvalda að ekki skuli tekin afstaða til þess þáttar í starfi utanríkisþjónustu ESB (EEAS) sem lýtur að gæslu þjóðaröryggis með starfsemi leyniþjónustu . Þetta sýnir að íslenska viðræðunefndin um utanríkis- og öryggismál hefur ekki fjallað um alla þætti sem snerta starfsemi utanríkisþjónustunnar (EEAS).

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Björn Bjarnason var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2009. Hann var menntamálaráðherra 1995 til 2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra frá 2003 til 2009. Björn var blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri 1979 til 1991.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS