Mánudagurinn 9. desember 2019

Hafa neyðaraðgerðir vegna einstakra evruríkja skilað árangri?

Evrukreppan er orðin að pólitískri kreppu í Evrópu


Styrmir Gunnarsson
2. febrúar 2014 klukkan 15:56

Í fréttum Evrópuvaktarinnar í dag, sunnudag 2. febrúar 2014 er frá því sagt að stjórnvöld í Berlín undirbúi nú nýjan björgunarpakka fyrir Grikkland, þann þriðja í röðinni. Það er fjármálaráðuneyti Wolfgangs Schauble, sem hefur forystu um það en stærð pakkans er talinn nema 10-20 milljörðum evra, sem er auðvitað mun lægri upphæð en um var að ræða í fyrri aðgerðum. Þessar fréttir koma ekki á óvart vegna þess, að því hefur lengi verið spáð að til frekari aðgerða kynni að koma.

Það er hins vegar áhugaverð spurning í þessu samhengi hver reynslan hefur orðið af þeim aðgerðum, sem Evrópusambandið sjálft, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Seðlabanki Evrópu hafa haft forystu um til þess að bregðast við fjárhagsvandræðum nokkurra evruríkja frá vori 2010. Um er að ræða Grikkland, Írland, Portúgal og Kýpur og Spán að því er varðar spænsku bankana.

Upphaf þessara aðgerða má rekja til þess að ný ríkisstjórn, sem tók við völdum í Grikklandi síðari hluta árs 2009 upplýsti að fyrri ríkisstjórnir hefðu gefið rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu Grikklands. Raunar hafa sumir, sem um þessi mál hafa fjallað sagt að forysturíki evrusvæðisins hafi horft fram hjá því að Grikkir uppfylltu ekki skilyrðin fyrir upptöku evru og að Þjóðverjar hafi samþykkt Grikki fyrir orð Frakka sem hafi haft áhyggjur af miklum lánveitingum franskra banka til Grikklands.

Þessar upplýsingar urðu til þess að draga úr trú fjárfesta á Grikkland, lántökukostnaður landsins stórjókst og um leið vaknaði sú spurning hvort vera kynni að fleiri aðildarríki evrunnar væru í svipaðri stöðu. Það sneri ekki sízt að Írlandi og Portúgal og svo fór að lántökukostnaður þeirra varð líka óviðráðanlegur.

Þó ber að hafa í huga sérstöðu Íra. Vandi þeirra var í raun og veru fólginn í því, að þeir sem evruríki voru þvingaðir til að lýsa yfir ábyrgð írska ríkisins á skuldum írskra einkabanka og þar var þáverandi aðalbankastjóri Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet, fremstur í flokki. Það var vegna þessarar þvingunar, sem Írar áttu ekki annan kost en að leita eftir aðstoð ESB/AGS/SE. Fyrir skömmu upplýsti Jens Weidmann, aðalbankastjóri Bundesbank, að hann hefði verið því algerlega andvígur að Írar yrðu þvingaðir til þess að gefa þá ábyrgðaryfirlýsingu.

Tölur eru nokkuð á reiki um upphæðir björgunaraðgerða til þessara ríkja en Council of Foreign Relations í Bandaríkjunum telur að fyrstu tvær aðgerðirnar í Grikklandi hafi numið í heild um 340 milljörðum dollara og björgunarpakkinn til Portúgals hafi kostað um 116 milljarða dollara.

Írar losnuðu úr fangi ESB/AGS/SE um síðustu áramót og Spánn vegna bankanna fyrir skömmu.

En hefur orðið árangur af þessum aðgerðum og þá hver? Það er umdeilt. Sumir greinendur halda því fram, að meginhluti aðstoðarinnar við Grikki hafi ekki farið til Grikklands heldur til að greiða skuldir Grikkja við banka í Evrópu og þar sé komin skýringin á því að önnur ESB-ríki hafi verið tilbúin til að taka þátt í þessum aðgerðum. Sum þeirra a.m.k. hafi í raun verið að bjarga eigin bönkum sem hafi lánað glannalega til landa á borð við Grikkland, Portúgal og Írlands.

En vafalaust hafa aðgerðir til að koma böndum á ríkisfjármál Grikkja skilað árangri og vafalaust hefur skattheimta batnað frá því sem var, þótt stjórnvöld liggi engu að síður undir gagnrýni fyrir að hafa ekki gengið nægilega hart fram.

Sumir stjórnmálamenn í Evrópu (og reyndar hér á Íslandi líka) hafa talað á þann veg að evrukreppan hafi verið leyst af því að vandamál bankanna í evrulöndum hafi verið leyst, þ.e. lausafjárvandi þeirra. Þeir munu gangast undir nýtt álagspróf síðar á þessu ári og þá kemur í ljóst hver raunveruleg staða þeirra er.

Aðrir, eins og Christine Lagarde, forstjóri AGS og fyrrum fjármálaráðherra Frakklands í forsetatíð Sarkozy, hafa ítrekað sagt að evrukreppan hafi ekki verið leyst svo lengi sem atvinnuleysi sé jafn mikið innan ESB og á evrusvæðinu og raun beri vitni um. Raunar hefur Angela Merkel, kanslari Þýzkalands orðað þetta svo að það sé búið að koma böndum á evrukreppuna en að hún hafi ekki verið leyst.

En kannski segir það bezt söguna að nú skuli hafnar undirbúningsaðgerðir í Berlín vegna þriðja neyðarláns til Grikklands. Þrálátur orðrómur hefur verið um að Portúgalar muni þurfa á aukinni aðstoð að halda.

Vafalaust hafa aðgerðirnar vegna þessara ríkja skilað töluverðum árangri eins og sjá má á því að Írar geta nú staðið á eigin fótum og sótt fé á alþjóðlega lánamarkaði. Og vafalaust hefur bráðavandi spænskra banka verið leystur úr því að þeir þurftu ekki að nota nema 41 milljarð evra af þeim 100 milljörðum, sem þeim stóðu til boða.

Hitt fer ekki á milli mála að sá þjóðfélagslegi vandi, sem þessar aðgerðir hafa skilið eftir sig hefur ekki verið leystur. Stórir hópar þjóðfélagsþegna í Grikklandi og á Spáni búa við mikla neyð. Evrukreppan er ekki bara efnahagsleg kreppa eða fjárhagsleg kreppa. Hún er orðin að pólitískri kreppu og birtingarmynd hennar er fylgisaukning flokka til hægri og til vinstri, sem teljast öfgaflokkur í hinu pólitíska litrófi. Mesti ótti stjórnmálamanna í Evrópu nú er sá að þessir flokkar muni vinna mikinn sigur í kosningum til Evrópuþingsins nú í maí og að andstæðingar og efasemdarmenn um Evrópusambandið verði hávær hópur á því þingi að þeim kosningum loknum.

En kannski er stærsti óleysti vandi þessara ríkja allra sá sem sumir greinendur telja vera fólginn í kerfisgalla í evrukerfinu. Evruríkin hafa sameiginlega stefnu í peningamálum og sameiginlegan gjaldmiðil en þau hafa ekki tekið upp ríkisfjármálabandalag og þess vegna ekki miðstýrða stjórn á r'ikisfjármálum sínum. Í því mundi hins vegar felast að þau gætu haft sameiginlega stjórn á eyðslu einstakra ríkja.

En er nokkur raunverulegur pólitískur stuðningur við slíkt kerfi? Mundu þjóðþing aðildarríkjanna vera tilbúin til að afsala sér því valdi, sem þau hafa í dag sem fjárveitingavald? Yrði almenningur í þessum löndum tilbúinn til að taka því að það vald yrði fært til skrifstofumanna í Brussel? Þar kann að liggja kjarninn í vandamálum ESB-ríkjanna í dag. Það má draga mjög í efa að meðal almennings í þessum löndum sé pólitískur stuðningur við að halda sameiningarferli þessara ríkja áfram. Þrýstingurinn virðist fremur vera í þá átt að stíga skref til baka.

Í seinni grein verður fjallað um sem dæmi hvernig verkalýðshreyfingin metur árangur eða afleiðingar aðgerða í Portúgal út frá sínu sjónarhorni.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS