Þriðjudagurinn 28. júní 2022

Verkalýðshreyfingin í Portúgal telur aðhaldsaðgerðir og kerfisbreytingar hafa aukið á fátækt, atvinnuleysi og ójöfnuð


Styrmir Gunnarsson
2. febrúar 2014 klukkan 20:25

Sumir stjórnmálamenn innan Evrópusambandsins og á evrusvæðinu hafa haldið því fram, að evrukreppan væri að baki. Það hafa gjarnan verið þeir sem í áhrifastöðum hafa staðið að þeim aðgerðum, sem gripið hefur verið til vegna vandamál svonefndra jaðarríkja í Evrópu.

Fjármálamarkaðir meta slíkar aðgerðir fyrst og fremst á grundvelli þess hvaða áhrif slíkar aðgerðir hafa á fjármálafyrirtækin stór og smá.

Embættismenn og sérfræðingar sem koma við sögu við mótun og framkvæmd aðgerða taka undir með þeim, sem að ofan greinir.

Svo eru aðrir sem meta þessar aðgerðir á allt annan veg. Bandarísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnin á gerðir eða aðgerðarleysi Evrópusambandsins og talið að í því fælist ákveðin ógn við efnahagslega endurreisn vestan hafs.

Stjórnmálamenn í Evrópu sem ýmist eru í stjórnarandstöðu og/eða sækja fram undir merkjum pópúlískra stjórnmálahreyfinga svo sem Marine Le Pen í Frakklandi, Geert Wilders í Hollandi, Nigel Farage, leiðtogi Ukip í Bretlandi eru gagnrýnir.

En svo er einn hópur enn, sem stundum gleymist, þótt hann sé fjölmennastur en það er verkalýðshreyfingin.

Samtök slíkra félaga í Evrópu sem nefnast UNI Global Union Europa hafa birt skýrslu um áhrif aðhaldsaðgerða í Portúgal en það eru .þær aðgerðir, sem hafa verið forsenda lánveitinga til Portúgals, Grikklands, Kýpur og Írlands á undanförnum árum.

Í þeirri skýrslu kemur fram, að það sé sannfæring portúgölsku verkalýðshreyfingarinnar að aðhaldsaðgerðir þar hafi hvorki reynzt lausn fyrir vinnumarkaðinn í Portúgal eða efnahag þjóðarinnar í heild. Kerfisbreytingar, sem hafi verið kjarninn í aðhaldsaðgerðum hafi þvert á móti aukið á fátækt, atvinnuleysi, ójöfnuð og aukið á vonleysi um nokkurn bata. Að auki hafi félagsleg réttindi launafólks verið skert og ríkisstjórn Portúgals hafi algerlega gefizt upp fyrir kröfum þríeykisins. Að auki hafi lýðræðið verið hundsað og engar umræður farið fram í landinu um þessar kröfur.

Um 18% portúgölsku þjóðarinnar lifi við fátækt eða einhvers konar útskúfun. Það jafngilti því að um 60 þúsund Íslendingar byggju við slíkar aðstæður. Atvinnuleysi hefur að vísu minnkað svolítið á tæpu ári eða úr 17,3% í 15,6%.

Uppsagnarfrestur hafi verið styttur úr 30 dögum í 20 daga. Álag vegna yfirvinnu hafi verið lækkað, almennum frídögum hafi verið fækkað. Og þannig mætti lengi telja.

Það er auðvelt að sjá andsvörin, sem eru eitthvað á þá leið að jaðarríkin hafi ekki lengur verið samkeppnisfær við aðildarríki ESB í norðri m.a. vegna þess að of langt hafi verið gengið í fríðindagreiðslum og hlunnindum. Þess vegna hafi verið óhjákvæmilegt að breyta leikreglum vinnumarkaðarins í þeim löndum.

Nú má segja að það sé ósanngjarnt að krefjast þess að aðhaldsaðgerðirnar skiluðu svo snöggum bata að hann mætti sjá með berum augum, þegar hér er komið sögu.

En gagnrýni portúgölsku verkalýðshreyfingarinnar, sem hér hefur verið vitnað til er hins vegar vísbending um að verði ekki hröð breyting á úr þessu megi búast við þjóðfélagslegum óróa í þessum löndum á næstu árum.

Að því kemur að 25 milljónir atvinnulausra láti til sín heyra svo eftir verði tekið.

Það er of snemmt að fullyrða hvort aðhaldsaðgerðirnar í þeim ríkjum, sem hafa orðið að taka þær á sig gegn lánveitingum skili áhrifum til lengri tíma og þá jafnframt hverjum sá árangur muni fyrst og fremst koma til góða.

 
Senda á Facebook  Senda á Twitter  Vista sem pdf  Prenta

Styrmir Gunnarsson er lögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Hann hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu 1965 og varð aðstoðarritstjóri 1971. Árið 1972 varð Styrmir ritstjóri Morgunblaðsins, en hann lét af því starfi árið 2008.

 
 
Mest lesið
Fleiri pistlar

Umsóknarferli í andaslitrum - straumhvörf hafa orðið í afstöðu til ESB-viðræðna - réttur þjóðar­innar tryggður

Þáttaskil urðu í samskiptum ríkis­stjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðu­stjóra stækkunarmála í framkvæmda­stjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð

Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.

Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag

Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópu­sambandsins.

Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópu­sambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætis­ráðherra Ítalíu og forseti framkvæmda­stjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.

 
 
    Um Evrópuvaktina     RSS