Enn einu sinni getum við lesið um það sem ljóst hefur verið í áratugi. Ef við viljum inn í ESB verðum við að undirgangast sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.
Þetta getur að lesa nú í morgun á Evrópuvaktinni og í Morgunblaðinu um orðaskipti Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við Thomas Hagleitner fulltrúa stækkunarstjóra ESB á sameiginlegum þingmannafundi Íslands og ESB í Hörpu í gær.
Nú getur það ekki lengur þvælst fyrir í þessari umræðu að vilji Íslendingar inn verðum við að undirgangast sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Við framkvæmd stefnunnar væri hinsvegar hægt að taka tillit til sjónarmiða einstakra ríkja. Um Ísland væri hinsvegar ekki hægt að fjalla þar sem kröfur Íslands í þessum málaflokki lægju ekki fyrir, sagði Hagleitner. Nú hélt ég í minni einfeldni að skilyrði Alþingis í þessum efnum hefðu verið alveg kristaltær og skýr.
Sérlausnir heitir það nú upp á síðkastið hjá stuðningsmönnum inngöngu eftir að ekki verður lengur boðið upp á þann málflutning að Ísland geti fengið varanlegar undanþágur. Þær sérlausnir yrðu allar þeim skilyrðum háðar að hægt yrði að breyta þeim án okkar samþykkis eftir reglum Lissabonsáttmálans.
Þrátt fyrir einhverjar óskilgreindar sérlausnir sem enginn þorir að opinbera þótt hvíslað sé um þær á bak við tjöldin eru afleiðingar þess að undirgangast reglur Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum að sambandið fer með allt meginforræðið.
Það ákveður veiðimagn á hverjum tíma, skiptir kvóta flökku og deilistofna og væntanlega kvóta innan 200 mílna lögusögu okkar að 12 mílum. Síðast en ekki síst þá yrðu fjárfestingar frjálsar í sjávarútveginum. Það myndi gera Spánverjum og Portúgölum kleyft að kaupa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki með styrkjum frá Brussel eins og þjóðirnar tvær gerðu á Írlandi, Englandi og Skotlandi. Það er kallað kvótahopp í Evrópusambandinu. Aðferðin felst í því að kaupa innlenda fyrirtækið og ráða síðan veiðum og vinnslu og því hvar hún fer fram.
Nýjustu útgáfuna af þessu „kvótahoppi“ heyrðum við um í fréttum í síðustu viku þegar sagt var frá færeyska fjölveiðiskipinu Anítu og eignarhaldi Spánverja á því.
Þar seldi færeyska útgerðin ekki meirihluta hlutafjárins, minnihluti var látinn duga, síðan tók útgerðin „víkjandi lán“ hjá Spánverjum sem í framhaldinu réðu öllu um þróun mála. Færeyski skipstjórinn var sagður sitja í matsalnum meðan Spánverjar stjórnuðu skipinu.
Allur arður af útgerðinni er síðan fluttur til Spánar í formi vaxtagreiðslna af láninu góða sem virtist vera án afborgana. Vill einhver þetta kvótahopp á Íslandi?
Nú hefur verið rækilega upplýst í greinum og umfjöllunum Björns Bjarnasonar á síðustu vikum að Íslendingum var gert að falla frá skilyrðum sínum í sjávarútvegsmálum til að ESB féllist á að opna rýniskýrslu sína í sjávarútvegsmálum í mars 2011. Allar götur síðan hefur verið farið með þessar upplýsingar „eins og mannsmorð“ og nefndarmenn í utanríkismálanefnd Alþingis bundnir trúnaði um þessa vitneskju.
Mér er hinsvegar alveg óskiljanlegt að menn hafi látið múlbinda sig til að þegja um þessa stöðu. Hana bar að upplýsa strax árið 2011. Af hverju var það ekki gert af „vinstri velferðarstjórninni“ ? Hugleiddu einhverjir þar innanborðs að falla frá skilyrðum Alþingis ?
Og loks aðalspurningin: Eru einhverjir alþingismenn tilbúnir til að kíkja í pakkann með því skilyrði að Alþingi falli frá eigin skilyrðum í sjávarútvegsmálum ?
Nú er tímabært að ítreka skilyrðin með nýrri þingsályktunartillögu þar um og hafa um hana nafnakall!
Garðabæ 26.03.2014
Víglundur Þorsteinsson lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1970. Þá um sumarið starfaði hann hjá Ríkissaksóknara en í byrjun ágústmánaðar það ár tók hann við starfi sem framkvæmdastjóri Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Hann var framkvæmdastjóri og síðar stjórnarformaður BM Vallár frá 1971-2010. Í stjórn Félags ísl. iðnrekenda og síðar formaður frá 1978-1992. Þá sat hann í framkvæmdastjórn Verzlunarráðs Íslands um árabil og í framkvæmdastjórn VSÍ og varaformaður samtakanna um skeið. Víglundur átti sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna frá 1986 til 2007 og formaður og varaformaður um árabil. Hann átti sæti í bankaráði Íslandsbanka um 3ja ára skeið.
Þáttaskil urðu í samskiptum ríkisstjórnar Íslands og ESB fimmtudaginn 12. mars þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra aftenti formanni ráðherraráðs ESB og viðræðustjóra stækkunarmála í framkvæmdastjórn ESB bréf. Textinn sem gildir gagnvart ESB er á ensku. Þar segir: „The Government of...
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð
Grikkir eru ekki sjálfstæð þjóð. Þeir hafa að vísu málfrelsi við borðið í Brussel, sem íslenzkir aðildarsinnar að ESB leggja svo mikið upp úr en á þá er ekki hlustað og orð þeirra hafa engin áhrif.
Lífsreynsla Grikkja lýsandi dæmi um örlög smáþjóðar sem gengur inn í fjölmennt ríkjabandalag
Það hefur verið fróðlegt - ekki sízt fyrir þegna smáþjóða - að fylgjast með átökum Grikkja og annarra evruríkja, sem í raun hafa verið átök á milli Grikkja og Þjóðverja. Í þessum átökum hafa endurspeglast þeir djúpu brestir, sem komnir eru í samstarfið innan evruríkjanna og þar með innan Evrópusambandsins.
Umbrotin í Evrópu geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar
Það er nokkuð ljóst að sú uppreisn Miðjarðarhafsríkja gegn þýzkum yfirráðum innan Evrópusambandsins, sem Romano Prodi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu og forseti framkvæmdastjórnar ESB um skeið, hvatti til fyrir allmörgum mánuðum er hafin. Kveikjan að henni urðu úrslit þingkosninganna í Grikklandi fyrir viku.